19.04.1988
Neðri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6617 í B-deild Alþingistíðinda. (4576)

271. mál, framhaldsskólar

Frsm. 1. minni hl. menntmn. (Þórhildur Þorleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði í máli hæstv. menntmrh. sem ég vil gera að umtalsefni. Hann ræðir um það að skólanefndir séu mikið skref í átt til valddreifingar og að þeir skólameistarar sem hafi búið við skólanefndir láti vel af þeim og þeir sem ekki hafi haft skólanefndir hræðist þær. Nú er mér vel kunnugt um að þetta hefur við nokkur rök að styðjast þar sem þeir skólamenn sem mættu til viðtals og höfðu búið við skólanefndir mæltu þeim gjarnan bót. En þá vil ég benda á tvennt í því sambandi. Annað er það að skólanefndir hafa hingað til ekki átt sér lagalegan bakhjarl um valdsvið sitt þannig að skólameistarar hafa mikið til getað notað skólanefndir til þess að stuðla að og ná fram eigin ákvörðunum, enda kom það líka fram í máli þessara sömu manna sem mættu þarna til viðtals við menntmn. Kokhreysti þeirra var nokkuð mikil þegar þeir ræddu um skólanefndir. Þeir töluðu um að auðvitað hefðu skólameistarar tök á sínum skólanefndum og auðvitað stjórnuðu skólameistarar og einn viðhafði þau orð: Ef skólanefnd vill fara að stjórna, leyfum þeim þá að stjórna. Ætli þeir gefist ekki fljótt upp á því? Og annað í þessum dúr fólst í ummælum þeirra um skólanefndir. Þeir litu m.ö.o. ekki á þær sem valdastofnun heldur sem stuðningsstofnun við eigin gerðir. Og það eru reyndar nokkrir sem eru á því máli að skólanefndirnar muni í raun ekki geta fylgt eftir starfi skólans eins og þeim er ætlað í frv. og því verði þetta til þess að auka völd skólameistara ef eitthvað er. Um það skal ég ekki dæma, en þó finnst manni ólíklegt að fulltrúar í skólanefnd, sem ekki starfa við skólann og ekki hafa það að aðalstarfi að fylgjast með störfum skólans og vinna að hag hans, hafi tök á að hafa slíka yfirsýn yfir daglegan rekstur og það starf sem þar fer fram að þeir geti í rauninni verið mjög mótandi aðili. Og þá kann vel að vera að það reynist satt að þær verði harla áhrifalitlar. En þá vaknar spurningin: Hver á þá að fá þau völd í staðinn? Eins og ég segi, það eru margir sem leiða getum að því að það verði í raun skólameistarar sjálfir og er þá orðið lítið um valddreifinguna.

Eins verður hæstv. menntmrh. tíðrætt um það að hann skilji ekki hvers vegna Kvennalistinn sé á móti því að valdið fari til fólksins. Við viljum ekki setja samasemmerki milli sveitarstjórna og fólksins. Þó að sveitarstjórnir séu auðvitað kjörnar af fólkinu eru það harla fáir einstaklingar sem þar eiga greiða leið inn. Auk þess vil ég benda á að það vill gjarnan bindast við ákveðna þjóðfélagshópa og ég tala nú ekki um ákveðið kyn hverjir eiga þangað greiða leið. Nægir að benda á skýrslu sem var lögð hér fram í haust um hvernig kynskipting væri í nefndum og ráðum. Þar kom fram að því ofar sem dró í valdapíramídanum, því færri konur komust að. Þetta er því t.d. mjög útilokandi ákvæði fyrir flestar konur. Teljast þær þá kannski ekki til fólksins samkvæmt þeirri skilgreiningu. Það að núa okkur því um nasir að við séum á móti valddreifingu af því að við viljum ekki skólanefndir og viljum ekki kjörna pólitíska fulltrúa yfir öllu og öllum finnst mér því skjóta nokkuð skökku við og er gert á þessum forsendum, eins og ég segi, að draga samasemmerki milli nokkurra kjörinna fulltrúa og almennings.

Ég skal fúslega játa að það mættu gjarnan koma hér inn í einhver ákvæði um aðild t.d. foreldra að skólaráðum. Ég get hins vegar ekki séð það fyrir mér að skólanefndir, eins og hér er lagt til að þær verði kjörnar, verði einhverjir fulltrúar foreldra samkvæmt fyrri rökum. Flest börn eiga sér foreldra af báðum kynjum. Það er alkunna að annað kynið annast uppeldi barnanna meira en hitt en á þá í fæstum tilfellum aðild að skólanefnd. Auk þess mætti nú líklega leiða getum að því að fæstir sveitarstjórnarmenn séu, eða ekki mjög margir þeirra, með svona ung börn í skóla lengur. Það er líka tilhneiging þessarar valdauppbyggingar að þar séu gjarnan rosknari menn við stjórnvölinn. Þar á ofan má ekki gleyma því, þegar talað er um valddreifingu, að menntmrh. sjálfur á að skipa án tilnefningar formann skólanefndar. Er þá að mínu viti harla lítið eftir af hans rökum um valddreifingu. Hann leggur þó mál sitt þannig fram að maður skyldi ætla að það væri eitt hans meginmarkmið.

Hvað er betra, segir hann, heldur en að fólkið ráði námsframboði? Nú hefur mér skilist að í þessum lögum eigi að lesa orðið námsframboð eins og námsbraut, en í því felst einmitt sú hætta sem ég varaði við í máli mínu áðan að menntun tæki of mikið mið af starfsmenntun og gildi almennrar menntunar með í huga það hlutverk sem menntun er markað í hlutverkalýsingu framhaldsskóla sé ekki í hávegum haft. Auðvitað hafa heimamenn á hverjum stað næman skilning fyrir þörfum síns sveitarfélags fyrir starfsmenntun. Það segir hins vegar alls ekki að þeir séu þar með færastir um að ákveða námsframboð því hætt er við, eins og ég segi, að þeir tækju þar fyrst og fremst mið af þörfum sveitarfélagsins en ekki þeirra einstaklinga sem menntunina sækja.

Við höfum aftur á móti í þessum brtt. okkar þó viljað milda þetta nokkuð með því að taka tillit til skólanefnda, eins og þær eru skipaðar núna samkvæmt frv., og lagt til að skólaráð og skólameistari ákveði námsframboð og marki stefnu, en þetta hljóðar svo:

„Skólaráð, deildarstjórar skólans og skólameistari marka stefnu í skólahaldi og ákveða námsframboð með samþykki skólanefndar og menntmrn." Með slíku ákvæði teljum við að það sé alveg tryggt að skólanefndir, og þá með þessi byggðalegu sjónarmið í huga sem ég nota alls ekki í niðrandi merkingu, fái notið sín í mörkun skólastarfs.

Það er að vissu leyti rétt, sem hæstv. menntmrh. sagði, að auðvitað eru engir færari um það að hafa áhrif á daglegan rekstur og framkvæmd skólans en kennarar. En samkvæmt þessu eiga þeir sér harla lítinn lagalegan bakhjarl í þeirri stefnumótun sinni andstætt við skólanefnd sem fær mjög sterkan bakhjarl.

Ég hefði kosið að menntmrh. hefði gert hér að umræðuefni 12. brtt. okkar um nýja grein sem við leggjum til að komi á eftir 32. gr. og hljóði svo:

„Mötuneyti skulu rekin við alla framhaldsskóla. Nemendur bera sjálfir kostnað vegna hráefnis. Launakostnaður starfsfólks mötuneyta greiðist úr ríkissjóði.“

Ég er viss um að fleirum en mér þætti áhugavert að heyra sjónarmið hæstv. menntmrh. varðandi mötuneyti og tengja það þá hollustuvernd og því heilsuverndarákvæði sem er inni í frv. Þetta finnst manni að sé nú til dags, eins og háttar til í þjóðfélaginu, orðið svo brýnt, að nemendur í öllum skólum eigi kost á máltíðum í skóla, og þarna er gert ráð fyrir að nemendur beri sjálfir hráefniskostnað, að það verði ekki öllu lengur dregið að ráða bót á því ófremdarástandi sem ríkir hér í neysluvenjum, ekki síst unglinga. Það var í einhverju dagblaði í gær verið að gera samanburð á veltu sjoppa og söluturna og þeim peningum sem rynnu í gegnum húsnæðiskerfið. Og ef ég man rétt kom þarna fram að við eyðum meiri peningum í þær vörur sem fást í svokölluðum sjoppum og söluturnum en samanlagt fara í húsnæðiskerfi landsins. Ég er ekki að segja að þeir peningar mundu annars renna í húsnæðiskerfið, en þetta eru staðreyndir sem gaman er að velta fyrir sér. Þessi mikla sælgætis- og sykurneysla Íslendinga, eða íslenskra barna og unglinga kannski fyrst og fremst, hlýtur að markast af því hvernig fjölskylduaðstæður eru núna. Fólk neyðist til þess að láta börnin sín ganga, oft og einatt, sjálfala löngu áður en þau eru fær um að bera ábyrgð á eigin lífi og þar innifalið eigin matarvenjum og neyslu og leggja þau sér því til munns óhóflega mikið af þessari vöru. Það hefur líka margsinnis komið fram að fjárráð unglinga eru hér afskaplega mikil og virðist vera orðin lenska að allir nemendur í framhaldsskóla þurfi að vinna með skóla til þess að hafa auraráð, sumir eflaust af nauðsyn, ekki ætla ég að draga úr því, en aðrir til einhverrar almennrar neyslu. Og hætt er við að stór hluti þeirra peninga fari einmitt til kaupa á því lélega fæði sem nú er til sölu í framhaldsskólum landsins þannig að það væri mjög gott ef menntmrh. vildi láta í ljós einhverja skoðun á þessari brtt.

Varðandi síðustu brtt. okkar, 15. brtt., þar sem við leggjum til að 1. og 10. tölul. 41. gr. falli niður, er það til þess að undirstrika og árétta að okkur finnst ekki hægt að una því að þessir skólar séu alveg felldir út úr skólakerfi landsins án þess að eitthvað annað komi í staðinn. Við tökum það ekki sem gild rök að þó að nemendur læri í nokkur ár eitthvað í matreiðslu í grunnskólum komi það í staðinn fyrir húsmæðrafræðslu. Það er alveg rétt að húsmæðraskólarnir, eins og þeir voru reknir, voru orðnir úreltir. Þeir veittu engin starfsréttindi, þeir veittu engin réttindi til launa eða nokkurs annars hlutar. Það skipulag sem var á þeim var eflaust úrelt, en húsmæðrastarfið er ekki úrelt. Það sem er úrelt er afstaða ráðamanna til þeirra starfa. Við höfum þá skoðun að þessi menntun eigi að vera fyrir hendi í þjóðfélaginu og hún eigi ekki bara að vera valgrein einhverra. Í raun og veru ætti þetta auðvitað að vera inni í kennsluskyldu í öllum framhaldsskólum, kennsla í heimilisfræðum sem spannaði, eins og ég sagði áðan, matargerð, þjónustustörf og ýmislegt sem lýtur að heimilishaldi og ekki síst einhverja uppeldisfræðslu. Það er algjörlega fyrir borð borið. Og þó að kennd sé matreiðsla í grunnskólum og þó að fólk geti valið sér eitthvað álíka inni í framhaldsskólum kemur það ekki í staðinn fyrir viðlíka námsskyldu inni í framhaldsskólum. Við erum ekki að mæla með að húsmæðraskólum verði haldið áfram eins og hingað til, heldur einungis að árétta að ákvæði um þá sé ekki fellt úr gildi án þess að eitthvað annað raunhæft komi í staðinn sem viðurkenni tilvist þessara starfa og viðurkenni hvað þau eru forsómuð, bæði til menntunar, launa og virðingar.