19.04.1988
Neðri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6639 í B-deild Alþingistíðinda. (4582)

46. mál, framtíðarskipan kennaramenntunar

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég tel raunar að skv. þingsköpum hefði mér borið að fá að taka til máls næst á eftir hæstv. ráðherra en mér er sama þó að það hafi dregist. Ég vona bara að þetta merki ekki að sumir séu jafnari en aðrir hér inni. (Forseti: Ég vil taka það fram að það merkir það ekki og ég vona að menn geti verið jafnir hér.) Ég treysti því og mun ekki erfa þetta.

Við kvennalistakonur fögnum því að þetta frv. er nú komið hér fram en viljum um leið leggja áherslu á að ekki verið hrapað að neinu við afgreiðslu þess. Við leyfum okkur reyndar að líta svo á að það sé hér nú fyrst og fremst til kynningar og fyrstastigsumfjöllunar en endanleg afgreiðsla bíði næsta þings. Þó er tæpast rétt að tala um fyrstastigsumfjöllun vegna þess að góðu heilli er þessu máli ekki hent hér inn á borð algerlega formálalaust heldur hefur okkur gefist færi á því að skoða drög að þessu frv., gaumgæfa það á vinnslustigi og koma athugasemdum á framfæri á því stigi. Slík vinnubrögð kunnum við vel að meta.

Nú hefur raunar ýmislegt breyst síðustu vikur og daga í þessu frv., svo sem vænta mátti, vegna andstöðu þeirra sem telja að verið sé að draga burst úr nefi þeirra.

Lengi má sjálfsagt um bæta. Enda þótt við teljum þetta frv. í meginatriðum gott eru þar vissulega nokkur atriði sem þarfnast að okkar dómi gaumgæfilegrar athugunar.

Það er þá fyrst til að taka að samkvæmt fyrirsögn frv. er hér um að ræða aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Hér munu margir þeirrar skoðunar að betra væri að tala um stjórnsýsluvald en umboðsvald og er e.t.v. ekki ástæða til að fara um það mörgum orðum. Flestir skilja hvað þar liggur að baki þegar þessi orð eru borin saman og ætti að vera útlátalaust að gera til geðs að þessu leyti.

Næsta athugasemd sem ég vil gera er við 2. gr. frv. um héraðsdómstóla og lögsagnarumdæmi þeirra. Okkur er ekki alveg fullkunnugt um hvað nákvæmlega er lagt til grundvallar við þessa skiptingu, hvort það er t.d. málafjöldi liðinna ára eða eitthvað annað. En það er stór spurning hvort þessi skipan er að öllu leyti eðlileg. Það hlýtur t.d. að þurfa athugunar við hvort landfræðilegar og aðrar aðstæður kalli ekki á t.d. dómstól í Vestmannaeyjum og fleiri álitaefni munu vera um þetta. Vera má að þetta megi leysa með fleiri þinghám, svo sem fjallað er um í 3. gr. frv. En þar er ráðherra leyft að skipta hverju umdæmi í tvær eða fleiri þinghár og þarf aðeins reglugerð til.

Við það atriði hljótum við að setja spurningarmerki. Ég reikna reyndar með að hér sé um hagkvæmnisatriði að ræða. En svona orðalag má helst ekki sjást í lögum um dómsvald. Enda segir í stjórnarskrá að dómsvaldi skuli skipað með lögum og því hlýtur að teljast eðlilegt að hreinsa þetta frv. af orðalagi eins og hér sést.

Fjórða greinin olli okkur nokkrum heilabrotum og gerir raunar enn. Hér er neglt niður hver fjöldi dómara skuli vera við hvern dómstól. En á fyrri stigum voru þessar tölur að lágmarki og hámarki. Ég hallast að því að betra sé að hafa fjöldann fastákveðinn, eins og frv. gerir ráð fyrir, enda þótt það kunni að verða seinna í vöfum ef breytinga verður þörf. Aðhaldið er virkara með þessu móti. Hins vegar skil ég mjög vel þenkingar manna út af eins manns dómstólunum. En við fjóra dómstóla á skv. frv. að starfa aðeins einn dómari. Slík staða er erfið og einangrandi og áhyggjur manna af slíkum aðstæðum skiljanlegar.

Í 5. gr. er m.a. kveðið á um nefnd er fjalli um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Þessu ákvæði er ástæða til að fagna sérstaklega, svo og hvernig skipan í hana skal vera, enda þótt með þessu sé ekkert tryggt að ráðherra geti ekki skipað að eigin geðþótta. Við þekkjum ótal dæmi þess að valdhafar sniðgangi álit ráðgefandi nefnda og er erfitt að sjá hvernig koma megi í veg fyrir slíkt, nema e.t.v. með því að leggja meiri áherslu á almennilegt uppeldi í þjóðfélaginu. En það er nú ekki beint í hávegum haft nema í skálarræðum.

Í 5. gr. eru talin upp skilyrði fyrir skipun héraðsdómara. Fimm þeirra skilyrða þarf svo fulltrúi að uppfylla skv. 6. gr. til að öðlast löggildingu til dómsathafna. En hann þarf ekki að hafa náð 30 ára aldri og hann þarf ekki að hafa öðlast neina reynslu í starfi. Við hið síðara setjum við spurningarmerki og teljum athugunarvert hvort ekki þurfi að skilyrða þessa löggildingu á einhvern hátt, t.d. miða við eins árs starf við dómstól.

Við 7. gr. höfum við þá athugasemd að betur færi að orða 1. mgr. svo að dómsmrh. setji héraðsdómara til þess að fara með og dæma einstök mál, setudómara, ef dómari hefur vikið sæti og dómstjóri telur ekki fært að úthluta málið öðrum dómara við embættið. Þetta teljum við eðlilegra orðalag en það sem hér er notað að „allir hinir reglulegu dómarar“ o.s.frv. „hafa vikið dómarasæti“, eins og segir í frumvarpsgreininni.

Næst vildi ég þá nefna að 10. gr. frv. og allur sá kafli er stór spurning og viðkvæm og hefði þurft að fylgja hér með pakki sem skýrði betur hvert starfssvið sýslumanna og bæjarfógeta yrði eftir þessar breytingar. Það kemur vissulega fram í megindráttum í grg. en lagabreytingar þurfa að fylgja og hætt er við að ýmsum þyki hér ekki nægilega vel frá gengið.

Ég hlýt t.d. að benda á ákaflega viðkvæm málefni eins og sifjamálefni, málefni barna, t.d. hvað varðar forsjá barna og umgengnisrétt foreldra við þau, svo og lögræðismál. En skv. grg. er áformað að flytja úrlausn slíkra mála undir embætti sýslumanns. Nú skal ekki dæmt um það hvort það kynni að reynast fólki hentugra og farsælla en við leggjum mikla áherslu á að fagleg umfjöllun verði tryggð hvar svo sem úrskurðarvaldið liggur og teljum að verði þessi niðurstaðan sé óhjákvæmilegt að setja inn ákvæði þess efnis að úrskurður falli ekki án þess að leitað hafi verið faglegra umsagna.

Forsjármál eru sérstaklega viðkvæm mál og erfið í meðförum og því mikilvægt að aðilar sem eru vanir að úrskurða í slíkum málum fjalli um þau. Eins og málum er nú háttað víðast hvar á landsbyggðinni eru barnaverndarnefndir ekki fagnefndir heldur pólitískt skipaðar. Um þetta gefst vonandi nægur tími til að fjalla rækilega og ganga svo frá þessum atriðum og öðrum að til bóta verði.

Annað er líka vert að nefna, og það hafa sýslumenn bent á, að við embætti sýslumanna og bæjarfógeta hefur verið veitt lögfræðileg aðstoð og leiðbeiningar ókeypis eða fyrir smávægilega greiðslu. Þeir hafa fullyrt að slík þjónusta leggist af ef þetta frv. verði að lögum. Ég sé raunar ekki hvað sé því til fyrirstöðu að slík þjónusta yrði veitt áfram við þessi embætti en hugsanlega þyrfti að ganga frá slíku við lagasetningu þessa eða í lögum sem tengjast þessu máli.

Í Ill. kafla þessa frv., 18. gr., er mælt fyrir um breytingu starfsheita og tilflutning einstakra embættismanna. Þar er e.t.v. spurning hvort nóg sé að gert, hvort t.d. fulltrúar við þessi embætti ættu ekki rétt á að tekið sé tillit til þeirra.

Ég vil svo aðeins að lokum, herra forseti, leggja áherslu á að gætt verði aðhalds og sparnaðar við framkvæmd laganna og allar þær breytingar sem þau hafa í för með sér. Við bentum sérstaklega á það í athugasemdum sem við sendum dómsmrn. fyrir nokkrum vikum varðandi þetta frv. og lögðum áherslu á að nákvæmar kostnaðaráætlanir yrðu lagðar fyrir Alþingi. Á þeim bólar ekki. Það hefur algerlega farist fyrir að gera slíka kostnaðaráætlun, en margir óttast að hér verði um verulega kostnaðarsamar breytingar að ræða. Þetta atriði vegur að sjálfsögðu þungt og er algerlega ótækt að samþykkja eitt eða neitt af því sem hér er til umfjöllunar án þess að gera sér grein fyrir kostnaði. Hæstv. ráðherra nefndi tölur í máli sínu áðan og sagði að í mesta lagi yrði um 35 millj. kr. rekstrarkostnað á ári að ræða en nákvæm kostnaðaráætlun er augljóslega ekki fyrir hendi.

Það er alger siðferðiskrafa að tryggja réttaröryggi fólks og það fyrirkomulag sem hér er við lýði er okkur til vansa. Það gengur ekki að sami aðili rannsaki og dæmi, enda brjótum við með þessari tilhögun gegn mannréttindasáttmála Evrópu. Þessu verður að breyta og það er aðeins tímaspursmál. Spurningin er ekki hvort, hún er að sjálfsögðu hvernig og ekki síst hvenær. Þetta síðasta er m.a. undir því komið hver kostnaður fylgir framkvæmdinni. Það gengur ekki að þeir sem mjög svo messa um aðhaldsaðgerðir leggi fram frv. af þessu tagi án áætlana um kostnað.

Herra forseti. Hér er um mikilvægt mál að ræða sem Kvennalistinn styður í meginatriðum.