19.04.1988
Neðri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6642 í B-deild Alþingistíðinda. (4583)

46. mál, framtíðarskipan kennaramenntunar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég mun ekki hafa mörg orð um þetta frv. Hv. 2. þm. Vesturl. og 10. þm. Reykn. hafa fjallað töluvert um efnisatriðin. Undirbúningur að þessu frv. er til fyrirmyndar að mínum dómi. Ég held ég segi það rétt að það er ekki nema um tvö frv. að ræða þar sem hefur verið haft samband við þann sem hér stendur á meðan á undirbúningi frv. hefur staðið. Það tel ég til fyrirmyndar að það séu ekki eingöngu þeir flokkar sem standa að ríkisstjórn sem fá tækifæri til að kynna sér það og enn fremur að fylgjast með þeim hugmyndum um breytingar sem eru á hverjum tíma.

Höfuðgallinn á þessu máli er e.t.v. sá sem hv. 10. þm. Reykn. kom inn á, þ.e. að það fylgi því ekki kostnaðaráætlun. En hæstv. ráðherra hefur sér það til málsbóta að mér skilst að ekki sé ætlunin að lögfesta þetta frv. á þessu þingi og þá má kannski segja að það sé ekki grundvöllur til að gera slíka áætlun.

En mér finnst samt sem áður að í umfjölluninni, t.d. hjá hv. 10. þm. Reykn., liggi svolítill misskilningur. Það er í raun og veru aðskilið í öllum þéttbýlisstöðum í landinu eða flestöllum stærri stöðum í landinu, þ.e. það eru nú þegar sérstakir héraðsdómarar í þeim. Breytingin á þessu er því kannski ekki eins mikil og verið er að fjalla hér um. Hins vegar er það alveg rétt og ég held að hv. þm. séu sammála um að nauðsynlegt sé að gera þennan aðskilnað algerlega. En það er ekki sama hvað hann kostar og það þarf að athuga það mál enn frekar.

Ég er ekki það fastheldinn á þessi stærðarmörk sýslnanna eða kjördæmanna að það geti ekki verið álitamál hvernig á að hafa þessi umdæmi. Svo að ég taki Strandasýslu sem dæmi þá er álitamál eins og samgöngum er háttað hvort hún eigi að heyra undir héraðsdómara á Ísafirði. En það má líka segja að það sé spurning hvort Vopnafjörður og Skeggjastaðahreppur ættu ekki bara að heyra undir Akureyri. Það er t.d. flug frá Akureyri á þessa staði, en það er ekki flug á milli Vopnafjarðar og Egilsstaða eftir því sem ég best veit og engar samgöngur þar langtímum saman. Þannig orkar þetta allt tvímælis þegar menn fara að huga að þessum málum.

Það er líka álitamál hvort sýslumenn þurfa að sitja á hverjum stað eins og nú er. Ég held að við ættum að hugleiða hvort ekki sé hægt að minnka kostnaðinn við þessa breytingu verulega umfram það sem frv. felur í sér. En ég veit og það hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra að menn ná ekki saman með öðrum hætti. En þarf ekki að athuga það nánar?

Eins og komið er fyrir okkur í þessu þjóðfélagi í dag þarf að huga mjög að því að auka ekki kostnaðinn í allri umsýslu. Ég held að það sé kannski ekki minna atriði en gera þessa breytingu.

Ég ætla að láta þetta duga. Aðrir hafa farið yfir þau efnisatriði sem ég var búinn að hugsa mér að ræða hér og ætla ég ekki að fara að endurtaka það sem aðrir hafa hér sagt.