19.04.1988
Neðri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6643 í B-deild Alþingistíðinda. (4584)

46. mál, framtíðarskipan kennaramenntunar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég vildi aðeins þakka hv. þingdeildarmönnum sem hér hafa talað fyrir jákvæðar undirtektir við meginstefnu þessa máls. Ég fullvissa þá um það að þetta mál verður vandlega skoðað og ég mun fyrir mitt leyti leggja því lið að þingmenn geti gaumgæft það og gefið sér tíma til að athuga það. Ég ítreka að þetta er mál sem alls ekki er hrapað að heldur er það vandlega undirbúið og að því langur aðdragandi í sögulegri þróun og í þróun þingmála. Ég vildi vekja athygli á þeim orðum hv. 2. þm. Vesturl. sem nefndi ástæðuna fyrir því að minnihlutaálitið sigraði 1916 og málinu var slegið á frest í sjötíu ár. - Ég vitna þá í álitið, að vísu eftir minni, með leyfi hæstv. forseta - „að hvorki hafi komið í ljós þörf fyrir breytinguna eða óskir um hana“. Ég tel það sem hafi breyst á þessum 72 árum, sem liðin eru, vera það að nú hafi sannarlega komið í ljós þörf fyrir breytinguna og reyndar sterkar óskir um hana. Þess vegna hljótum við að framkvæma hana nú, en það má vel vera að þarna sé ýmislegt sem athuga má betur. En ég held nú samt að ég muni ekki una því að þetta mál „sígi seint og hægt í ægi, sína leið með tímans göngulagi“, eins og mér fannst aðeins vaka í máli hv. 2. þm. Vesturl. Hann benti á að það hefði tekið frá árinu 1934 til ársins 1961 að koma á sjálfstæðu ríkissaksóknaraembætti, en það er vinnuhraði sem ég vil ekki una, hvorki í þessu máli né öðrum málum.

Ég vil benda á að það hefur svo sannarlega verið hlustað á sýslumenn í þessu máli. Í nefndinni eru tveir valinkunnir sýslumenn, Pétur Hafstein og Friðjón Guðröðarson. Ég tel að rökstuðningur Péturs Hafstein, sem fram kemur í bréfi hans, er sent hefur verið þingflokkunum, svari flestu af því sem hv. 2. þm. Vesturl. tók hér upp. Ég beini því til hans og annarra þm. að kynna sér þetta álit hins ísfirska sýslumanns.

Allir þeir sem hér hafa talað hafa vikið að kostnaðinum. Ég tek undir það að það er ákaflega mikilvægt að gætt verði fyllsta aðhalds og sparnaðar, eins og hv. 10. þm. Reykn. komst að orði. Hún eins og fleiri saknaði kostnaðaráætlunar. Ég mun leggja kostnaðaráætlun fyrir þingnefndina. Þetta mál er svo stórt að það verður ekki afgreitt án slíkrar áætlunar og það mun heldur ekki verða meðan ég held á því.

En ég ítreka það, sem reyndar kom fram í máli mínu áðan, að það er hægt að framkvæma þessa kerfisbreytingu án kostnaðarauka ef menn vilja fækka embættum og breyta umdæmum. Hins vegar reka sig þarna á markmiðin um lítt breyttan kostnað og ástin á umdæmunum eins og þau eru nú. Ég geri ekki lítið úr henni, hún er mikilvægt atriði í þessu máli. En þarna togast á, eins og oft vill verða, öndverð sjónarmið þegar að er gáð í gagnrýni þeirra sem hafa viljað tefja framgang þessa máls.

Ég ætla ekki að fara um þetta mörgum orðum í einstökum greinum. Ég þakka hv. 10. þm. Reykn. fyrir ábendingarnar um einstakar frumvarpsgreinar og fullvissa hana um að þær verða allar teknar til athugunar, bæði orðalagsatriði og efnisatriði.

Hún vék í upphafi að því að „umboðsvaldi“ í fyrirsögn frv. kynni að þurfa að breyta í „stjórnsýslustörf“. Það mætti athuga. Það er vissulega rétt að Il. kafla frv. um umboðsvald í héraði þarf að útlista nánar. Reyndar tel ég mig hafa gert það nokkuð í minni framsöguræðu, en hin ítarlega úttekt á verkefnunum, sem ég nefndi, verður lögð fyrir þingið í töluskýrslu nú og vafalaust með nánari útlistun síðar.

Ég vil taka það sérstaklega fram hvað varðar sifjamál og forsjármál barna að ég er algerlega sammála hv. 10. þm. Reykn. að úrskurður í þeim málum hljóti að byggjast á faglegri ráðgjöf og samráði við til þess hæfan aðila sem getur samræmt úrlausnir þessara mála. Að minni hyggju ætti það að gerast með eflingu barnaverndarráðs. Þetta segi ég svona sem skemmri skírn og harma það að svo seint skuli vera á deginum að ekki gefist tækifæri til að ræða þetta nánar. En ég vil taka fram að einmitt ábendingar Kvennalistans um sifjamálin og barnalögin náðu vissulega athygli þeirra sem frv. sömdu og gætir þess reyndar í grg. þess.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um einstök atriði þessa máls, segi það að lokum að það eru að sjálfsögðu ýmsar leiðir fyrir hendi til að skilja að dómstörf og stjórnsýslustörf. En það næði allt of skammt að skilja eingöngu milli dómstarfa í opinberum málum og lögreglustjórnar eins og vakað hefur í máli sumra. Við verðum að ljúka þessu máli nú og taka ekki til þess mörg ár eða margar atrennur. Ég vil taka það fram að ég og hv. 2. þm. Vesturl. erum algerlega sammála um það sögulega mikilvæga atriði að frv. um lögréttuna hafi verið lagt fimm sinnum fyrir þingið, því ég sagði víst að Ólafur Jóhannesson, þáv. dómsmrh., hefði lagt það fyrir þingið og síðan fjórum sinnum eftir það.