19.04.1988
Neðri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6646 í B-deild Alþingistíðinda. (4588)

464. mál, lögbókandagerðir

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um lögbókandagerðir en þar er átt við það sem oftast hefur verið kallað nótaríal-gerðir hér á landi. Orðið lögbókandi er reyndar gamalt í lagamáli og fengið úr lögum um verndun fornmenja frá 1907, en þar er átt við þann embættismann sem einnig hefur verið kallaður „notarius publicus“.

Þetta frv. er fylgifrv. með frv. um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði en þó er lagt til að það taki þegar gildi, enda er þetta efni ekki bundið þeim breytingum sem lagðar eru til í dómstólafrv. hvað tímasetningar varðar. Frv. er nýsmíði að því leyti að vantað hefur almennar reglur um lögbókandagerðir. Þetta er rakið í grg. frv., en lögbókandagerðanna er nú getið í ýmsum sérákvæðum laga.

Með frv. eru gerðar tillögur um almennar verklagsreglur um framkvæmd þessara athafna og að dómi hinna lögfróðustu manna bæta þau úr brýnni þörf í því efni. Ákvæði frv. eru ítarlega skýrð í grg. að því leyti sem þau ekki skýra sig sjálf. Ég ætla hér ekki að rekja efni frv. nánar og legg áherslu á, hæstv. forseti, að þetta frv. nái fram að ganga sem fyrst og legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.