05.11.1987
Efri deild: 8. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

61. mál, heilbrigðisfræðsluráð

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir) (frh.):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hæstv. heilbrmrh. skuli nú vera viðstaddur þessa umræðu en ekki gafst tækifæri til að kalla hann á fund deildarinnar þegar ég hóf mál mitt á síðasta fundi.

Ég hafði minnst á í ræðu minni þá skýrslu um íslenska heilbrigðisáætlun sem lögð var fram í lok síðasta þings hér á Alþingi, en hún lýsir fyrirætlunum heilbrigðisyfirvalda í því samvinnuverkefni Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem nefnt hefur verið „Heilbrigði fyrir alla árið 2000“ og markar jafnframt stefnu í heilbrigðismálum hérlendis til langs tíma. Áætlun þessi var þó hvorki rædd á þinginu né samþykkt og það sem verra er, það var ekki tekið tillit til hennar við þá fjárlagagerð sem hér var einmitt rædd í gær. En ég vil nefna að í áætluninni stendur einmitt: „Árlega verði á Alþingi lögð fram stefnumörkun í heilbrigðismálum í tengslum við fjárlagafrumvarpið“ og þá að sjálfsögðu í anda forvarna og heilsuverndar. Mér þykir mjög miður að það skuli ekki hafa verið vegna þess að við getum varla beðið lengur eftir því að skipta svolítið um áherslur og leggja meira fé til forvarna. En í skýrslunni er einmitt lögð megináhersla á forvarnir í formi heilsugæslu, heilbrigðra lífshátta og heilbrigðiseftirlits.

Hins vegar er eitt að hafa stefnu og annað að framfylgja henni. Fé til forvarna hefur sárlega vantað hingað til. Það er að mínu mati afar brýnt að tryggja nægilegt fjármagn til ýmissa forvarnaraðgerða svo að meiri áhersla verði í raun lögð á að varðveita heilbrigði því að einungis þannig er hægt að draga úr þörf fyrir hina dýru viðgerðarþjónustu sem lækning og meðferð sjúkdóma óhjákvæmilega er. Nú þegar blasa við ýmis verkefni á sviði forvarna þar sem raunhæft er að ætla að markvissar aðgerðir muni skila verulegum árangri. Þann árangur má mæla bæði í mannslífum, auknu heilbrigði, bættri líðan og miklum fjárhagslegum sparnaði. Sem dæmi má nefna slysavarnir. Á Íslandi er lægstur ungbarnadauði í heimi. Hins vegar höfum við hæstu tíðni barnaslysa af öllum löndum Evrópu. Þar eru algengust slys bæði í umferð og þó sérstaklega í heimahúsum þar sem eitranir eru tíðastar. Umferðarslys eru hér allt of algeng og valda ómældri mannlegri þjáningu og sorg, auk þess mikla kostnaðar sem af þeim hlýst. Önnur tegund slysa, sem er algengari hér en í nágrannalöndunum, eru sjóslys. Að vísu hefur öllum þessum málum þegar verið sinnt í einhverjum mæli en þarna er enn mikið verk óunnið og mál að hefja það.

Annað dæmi mætti taka um reykingar. Það er talið að engin ein ráðstöfun mundi skila meiri árangri til að bæta heilsufar manna og fækka ótímabærum dauðsföllum en einmitt verulega minnkuð tóbaksnotkun. Sem stendur eru þó einungis fjórir starfsmenn á vegum Krabbameinsfélagsins við fræðslu í skólum um skaðsemi reykinga. Og ef litið er á árangur þessa starfs má sjá að í aldurshópunum frá 12 ára til 16 ára hefur tíðni reykinga á árunum frá 1974 til 1986 minnkað stórlega ef miðað er við hundraðstölu. T.d. í aldurshópnum 12 ára hefur tíðni reykinga frá 1974 til 1986 lækkað úr 12% niður í 3% og í aldurshópnum 16 ára frá 54% niður í 31%. Þarna mætti verulega herða róðurinn til að halda áfram að styðja ungt fólk í því að taka ekki upp reykingar.

Einnig mætti t.d. minnast á tannskemmdir. Þær eru mun algengari í íslenskum börnum en börnum annars staðar á Norðurlöndunum. Hér hafa börnin bæði fleiri viðgerðar og skemmdar tennur en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum og stafar það að miklu leyti af sykuráti sem hér er meira en víða annars staðar, en einnig af lélegri tannhirðu. Þarna mætti t.d. beita verðstýringu gagnvart sykri og sætum vörum sem mundi stuðla að því að minnka ofneyslu hans og tannhirðu mætti sannarlega bæta með fræðslu.

Síðan er leit að sjúkdómum á byrjunarstigi sem bæði getur aukið lífslíkur og einnig komið í veg fyrir mikla vanlíðan. Þar má nefna leit að krabbameini í leghálsi og brjóstum kvenna og einnig í meltingarvegi sem allar eru reyndar stundaðar af Krabbameinsfélagi Íslands. Áætlaður kostnaður á ári við hópskoðun á brjóstum íslenskra kvenna með röntgenmyndatöku er talinn jafngilda þeim kostnaði sem bundinn er við að reka um 5–10 sjúkrarúm á ári. Á hverju ári deyja um 25 konur úr brjóstakrabbameini, en nýlegar rannsóknir benda til þess að draga megi verulega úr þessari dánartíðni með því að uppgötva æxlið snemma.

Kvennalistakonur fluttu þáltill. um þetta efni sem reyndar var samþykkt á síðasta kjörtímabili og þáverandi heilbrmrh. hét því að þessu yrði komið á á árinu 1987. Í fyrra var nokkurri fjárhæð veitt til þessa verkefnis, en þó ekki öllu því sem Krabbameinsfélagið fór fram á. Ég vil því vekja athygli hæstv. heilbrmrh. á þessu mikilvæga máli og skora á hann að styðja það verkefni og sjá til þess að í ráðherratíð hans verði því veitt nægilegt fjármagn til að það geti haldið áfram og náð til kvenna víðs vegar um landið en ekki einungis á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Að lokum má nefna þann vágest sem nýlega hefur vakið ótta manna og umtal og var einmitt minnst á í umræðunni hér áðan, en það er sjúkdómurinn eyðni. Eyðni er sjúkdómur þar sem einmitt forvarnir eru í raun einu varnirnar sem duga og þeim verður að beita ef hindra á vaxandi útbreiðslu sjúkdómsins. Allt tal um ónæmisaðgerðir er í raun svo langt í framtíðinni hvað varðar framkvæmd að það eru tóm orð að tala um. Því er aðgæsla manna og aðgát það eina sem dugar til að verjast þessum sjúkdómi. En til þess að geta beitt slíkri aðgát verður að fræða fólk.

Að öllum þessum verkefnum og mörgum fleiri þarf að vinna og veita til þeirra fé. Fjármögnun þessara verkefna er í raun fjárfesting og mikil sparnaðarráðstöfun, einkum þegar til lengri tíma er litið.

Annar brýnn þáttur til forvarna er heilbrigðisfræðsla og snertir raunar þau atriði sem ég hef nefnt hér á undan. Snar þáttur þeirrar samvinnuáætlunar sem áður var nefnd er almenn heilbrigðisfræðsla og upplýsingar svo og aukin menntun fólks í heilbrigðisstéttum og kennara og aukin fræðsla í skólum. Það er mjög brýnt að samræma og skipuleggja aukna heilbrigðisfræðslu á Íslandi og veita henni þannig vel skilgreinda lagalega stoð og nægilega fjármögnun. Almennri heilbrigðisfræðslu hefur verið í ýmsu ábótavant hér á landi hingað til. Heilsufræði hefur verið kennd í skólum að vísu, en þó mjög misvel. T.d. hefur fræðsla um kynlíf og getnaðarvarnir í grunnskólum víða verið vanrækt, eins og fram kom í fsp. hv. þingkonu Kristínar Halldórsdóttur á síðasta kjörtímabili.

Á árunum 1984–1985 tók Ísland þátt í norrænu verkefni um heilbrigðisfræðslu í grunnskólum og gekk það undir nafninu SPIN-verkefnið og fór fram í tveim skólum. Markmið þess var að þróa heilbrigðisfræðslu í þátttökulöndunum og móta sameiginlega stefnu landanna í málefnum heilbrigðisfræðslu og heilsuuppeldis. Mikil áhersla var lögð á að samþætta heilbrigðisfræðsluna öðru námi þannig að allir starfsmenn skólans væru virkir í heilsuuppeldi barnanna. Slíka fræðslu þarf að efla og slíkt uppeldi þarf vitaskuld einnig að fara fram á dagvistarheimilum og fyrst og síðast á heimilum af foreldrum sem eru meðvitaðir um heilbrigða lífshætti.

Nú vil ég gjarnan spyrja hæstv. heilbrmrh. hvort hann hafi fregnir af frekari þróun þessa verkefnis og hvað er fyrirhugað í þeim efnum. Ég veit að þetta fellur mun beinna undir hæstv. menntmrh., en það kynni að vera að þeir hefðu haft einhverja nasasjón af þessu í heilbrmrn. og þess vegna vil ég spyrja hæstv. heilbrmrh.: Hvað líður framhaldi þessa verkefnis?

Síðan er það viðhaldsfræðsla almennings um heilbrigðismál. Hún hefur verið handahófskennd. Ýmsar stofnanir eða embættismenn á vegum hins opinbera, áhugasamir einstaklingar, félög og samtök heilbrigðra og sjúkra hafa að vísu gefið út ágætis fræðsluefni og jafnvel fylgt því eftir með kennslu eða áróðri og það er sannarlega vert í þessu sambandi að lofa hið mikla og góða starf sem hefur verið unnið í þessum efnum. Hins vegar hefur samræmda og skipulega fræðslu vantað og hún hefur ekki verið á ábyrgð neins ákveðins aðila heldur miklu fremur margra ólíkra aðila og þá aðeins sem hluti af miklu stærra verksviði þeirra, enda hefur hún oft setið á hakanum og verið látin mæta afgangi, sérstaklega þegar kemur að því að nýta það takmarkaða fé sem viðkomandi stofnanir hafa fengið til umraða á fjárlögum eða annars vegar.

Í lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 59 frá 1. júní 1983 er heilsuvernd skilgreind sem þjónusta er heilsugæslustöð á að veita, en ein af aðalgreinum heilsuverndar er þar talin heilbrigðisfræðsla í fyrirbyggjandi tilgangi. Það er bæði eðlilegt og ágætt að heilsugæslustöðvar hafi þetta hlutverk, en þær eru enn of fáar og þangað sækja fáir sem heilbrigðir eru. Því nær fræðsla þeirra ekki til alls þorra almennings. Það er reyndar vitað af þeim könnunum sem gerðar hafa verið á því hverjir helst sækja heilsugæslustöðvar að það er ekki nema takmarkaður hluti íbúanna sem á erindi á heilsugæslustöðvar og það er svo sem alls ekki lakari hluti þeirra því það eru mest konur sem sækja þangað vegna barna sinna fyrst og fremst, vegna aldraðra sem eru á þeirra vegum eða búa hjá þeim og vegna annarra heimilismanna sem ekki gefa sér tíma eða hafa tíma til að sækja þangað. En það er spurning um hve mikilli fræðslu er hægt að koma til einungis takmarkaðs hluta íbúanna, fræðslu sem í raun á erindi til allra. Það hlýtur einnig að þurfa að beina fræðslu að ákveðnum áhættuhópum eftir því sem þörf krefur og ástæða er til.

Í lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nr. 50 frá 29. maí 1981 er ákvæði um að veita alhliða fræðslu og upplýsingar fyrir almenning um þau mál er varða hollustuhætti í umhverfi. Þetta fræðsluhlutverk er á höndum heilbrigðisnefnda og heilbrigðisfulltrúa. Fræðsluhlutverk er nánar tiltekið síðar í sömu lögum í kafla um Hollustuvernd ríkisins, en þar eru ákvæði um fræðslu fyrir almenning, heilbrigðisfulltrúa og aðra þá aðila er að þessum málum starfa í landinu.

Hollustuvernd ríkisins er ung stofnun og hefur átt við erfiðleika að etja vegna þess að deildir hennar hafa verið dreifðar víða um Reykjavík. Verksvið hennar er vítt og minna hefur orðið úr fræðsluhlutverki hennar en skyldi þar sem önnur verkefni hafa tekið mikinn tíma og fjármagn hefur skort. Nú nýlega, á síðasta þingi, var einmitt ein deild stofnunarinnar gerð sjálfstæð, Geislavarnir ríkisins, og tekin út af verksviði Hollustuverndar. Það kynni að gefa henni meira svigrúm til að sinna fræðsluhlutverki sínu að vísu, en það mælir þó ekki gegn þeim hugmyndum sem bornar eru fram í þessu frv.

Í ýmsum lögum eru svo ákvæði um fræðslu um tiltekin efni, t.d. um kynlíf og barneignir, í lögum nr. 25/1975, um tóbaksvarnir, í lögum nr. 74/1984, o.s.frv. Enn fremur segir í lögum um heilsuvernd í skólum, nr. 61/1957, með leyfi forseta: „Í reglugerð skal ákveðið um heilbrigðisfræðslu í skólum.“ Fræðsla um heilbrigðismál er afar víðtækt viðfangsefni og heyrir þar undir hvaðeina sem stuðlar að heilsuvernd og getur komið í veg fyrir slys og sjúkdóma. Heilbrigðisfræðsla hefur verið skilgreind sem sérhver fræðsla er hefur það markmið að einstaklingar taki sjálfviljugir þátt í því að auka heilbrigði sína. Slík fræðsla og sú vitneskja og leiðbeining sem hún veitir heyrir til mannréttinda. Hennar er æ meiri þörf í flóknu lífsmynstri tækniþjóðfélaga þar sem óhollusta steðjar að í margvíslegu gervi.

Fræðsla ein sér nægir þó ekki til að tryggja að einstaklingar taki ábyrgð á eigin heilsugæslu. Þeim verður jafnframt að vera það kleift efnahagslega og félagslega að velja sér lifnaðarhætti í samræmi við þá heilbrigðisfræðslu sem stunduð er. Stjórnvöld hafa því mikilvægu hlutverki að gegna í þessum efnum. Þau verða að vera sér vel meðvituð um hagsmuni heilbrigðisfræðslu þegar þau móta stefnu og taka ákvarðanir og gæta þess jafnframt að allir þættir stjórnsýslunnar séu samvirkir til að ná markmiðum heilbrigðisfræðslu. Þetta er mikilvægt einkum í ljósi þess sem við höfum séð undanfarið þegar leggja á skatt á matvæli manna. Og sá skattur sem ætlað er að leggja á matvæli manna fylgir ekki einu sinni neinni verðstýringu sem gæti samræmt heilbrigðissjónarmiðin, heldur er hann fyrst og fremst hugsaður út frá efnahagslegu sjónarmiði en ekki út frá heilbrigðissjónarmiði. Þetta segi ég án þess að mæla með þeim matarskatti sem hótað er af ríkisstjórninni.

Í seinni tíð hefur frumkvæði heilbrigðra einstaklinga til heilsuverndar og heilsuræktar farið vaxandi og aukinnar meðvitundar gætir um mikilvægi heilbrigðra lífshátta. Það er því sennilegt að jákvæð viðhorf og áhugi á heilbrigðisfræðslu sé að aukast meðal almennings, skólayfirvalda og heilbrigðisyfirvalda. Slík fræðsla er þó enn of tilviljanakennd og háð framtakssemi fárra áhugasamra aðila sem hafa of lítil innbyrðis tengsl.

Það er skoðun flm. að brýnt sé að samræma og skipuleggja aukna heilbrigðisfræðslu á Íslandi og því sé nauðsynlegt að stofna heilbrigðisfræðsluráð.

Nú veit ég að ein af þeim tillögum sem koma fram í þeirri áætlun sem ég nefndi áðan er tillaga um að setja á laggirnar forvarnastofnun, þ.e. stofnun forvarna- og heilbrigðisfræðslu. Ég vil lesa markmið 5 í þessari heilbrigðisáætlun, með leyfi forseta:

„Komið verði á fót stofnun forvarna- og heilbrigðisfræðslu. Þessi stofnun annist ráðgjöf um heilbrigða lifnaðarhætti, gerð fræðsluefnis og endurmenntun starfsliðs í heilsugæslu.

Til þessarar stofnunar færist starfsemi áfengisvarnaráðs, tóbaksvarnanefndar, manneldisráðs, tannverndarstarfsemi og starfsemi ClNDl-verkefnisins.

Til þess að stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum verður lögð á það áhersla að starfslið heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa fái grundvallarmenntun og kennslu í heilbrigðisfræðslu og kennslu í heilsufræði til þess að geta miðlað þeim sem þangað leita. Samvinna verði hafin við skóla og félög um að þau taki þátt í herferð fyrir heilbrigðari lifnaðarháttum fjölskyldna og einstaklinga.“

Nú vil ég í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra: Hvað ætlast ráðherra fyrir í sambandi við þá skýrslu sem áður hafði verið lögð fram af hæstv. fyrrv. heilbr.og trmrh. um íslenska heilbrigðisáætlun? Hvað sérstaklega ætlast hann fyrir í sambandi við stofnun forvarna- og heilbrigðisfræðslu? Og mun hann taka tillit til þeirra sjónarmiða sem fram koma í því frv. sem ég mæli hér fyrir um heilbrigðisfræðsluráð þegar nánari skipulagning forvarna- og heilbrigðisfræðslustofnunar verður gerð?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað verður um áfengisvarnaráð og manneldisráð? Á þeim fjárlögum sem liggja fyrir þessu þingi fyrir næsta ár er ekkert fé áætlað til starfsemi þessara tveggja forvarnastofnana og það er enginn annar sem gegnir hlutverki þeirra í þjóðfélaginu nú eins og er. Þeim er þó ekki ætlað neitt fé til starfsemi sinnar fyrir næsta ár. Því vil ég spyrja hann: Hvað ætlast hann fyrir um starfsemi þessara tveggja forvarnastofnana, áfengisvarnaráðs og manneldisráðs á næsta ári?

Ég hef svo lokið máli mínu, hæstv. forseti, fyrir þessu fiv. og legg til að því verði vísað til hv. heilbr.og trn. þessarar deildar að lokinni umræðu og einnig vísað til 2. umr.