20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6647 í B-deild Alþingistíðinda. (4591)

405. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. landbn. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Á þessu stigi málsins ætla ég ekki að fjölyrða um efni frv. Þetta hefur verið ágreiningsmál hér í Alþingi og því hefur verið fundinn farvegur hingað inn í þingið með því að leita eftir því við landbn. Ed. að hún tæki að sér að flytja málið. Sú umfjöllun hefur farið fram í nefndinni og er frv. þess vegna flutt af henni en að ósk landbrh. Að sjálfsögðu er hér ekki um neina skuldbindandi afstöðu að ræða í þessu máli.

Nefndin mun fjalla um málið og skila því til afgreiðslu hér í deildinni og að sjálfsögðu, eins og jafnan er um störf þeirrar nefndar, vanda sín vinnubrögð og hraða þeim eftir föngum.