20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6667 í B-deild Alþingistíðinda. (4606)

293. mál, áfengislög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Stuðningsmenn bjórsins furða sig á því að hér skuli vera rætt um þetta mál eða finnst jafnvel að eigi helst ekkert um það að ræða. (Gripið fram í: Það er búið að því.) Við erum búnir að tala hér eitthvað rúman klukkutíma þannig að ég held að það út af fyrir sig geti - (Gripið fram í: Hvert orð sem ráðherrann sagði áðan sagði hann hér um árið.) Ég flutti ekki langa ræðu hér um árið þegar þetta mál var þá til umræðu. Að vísu man ég ekkert eftir því hvað ég sagði, ég verð að viðurkenna það. En ég hygg þó að ég hafi talað töluvert öðruvísi núna en þá vegna þess að málið hefur þróast svo.

Orð hv. 11. þm. Reykv. vekja óneitanlega ýmsar hugleiðingar og gætu orðið tilefni til langrar ræðu. Það er þetta með frelsið sem ég reyndar vék að í upphafi máls míns. Hann sagði að það þyrfti þetta frelsi til að fólk gæti lifað ekki lakara lifi en annars staðar. Gerir hv. þm. sér ekki grein fyrir því hversu slæmt líf þeirra er sem hafa orðið fyrir barðinu á ofneyslu áfengis? Eins og hér kom fram áður þekkjum við öll svo sorgleg dæmi um það að ég get ekki skilið þá hv. alþm. sem telja sig knúna til að stuðla að því að fleiri fari þá leið. Það er ofvaxið mínum skilningi.

Hér á Alþingi hefur mjög verið talað um ólögleg vímuefni og þörfina á því að berjast gegn þeim og að það þyrfti að setja upp öflugt lögregluríki hér til að hindra neyslu þeirra. En ég er sannfærður um að á meðan eftirspurn er eftir slíkum efnum verða alltaf einhverjir til sem vilja græða á því að selja þau og reyna að koma þeim inn í landið og hversu öflugt lögreglulið sem við höfum sé aldrei hægt að koma í veg fyrir það.

Það var gerð fyrir nokkrum árum athugun á því hver væri orsök þess að menn lentu í fangelsum. Það var einn ágætur læknir sem gerði athugun á því í fangelsinu á Litla-Hrauni. Þar kom í ljós að um 98% þeirra sem þar voru neyttu áfengis og að mati þeirra og læknisins var það upphafið að þeirra ógæfuferli í langflestum tilvikum. En mjög margir þeirra voru þar vegna afleiðinga ólöglegrar vímuefnaneyslu.

Þróunin er þessi hjá þeim sem hallar undan fæti fyrir, að unglingurinn byrjar á veikasta vímugjafanum og heldur síðan áfram smátt og smátt. Sem betur fer er það ekki nema hluti sem þannig fer fyrir en þó að það sé tiltölulega lítill hluti held ég að við hljótum að vera öll sammála um að það er allt of stór hluti. Og þegar bjórdósirnar eru komnar í ísskápinn við hliðina á matvælum held ég að það skipti litlu máli hvort þær hafi verið keyptar í Áfengisverslun ríkisins eða einhvers staðar annars staðar, viðhorfið til þeirra er hjá mörgum a.m.k. að þetta sé svaladrykkur. Ég minnist þess að sumir þeirra sem komu til mín í vandræðum sínum vegna þess að þeir voru búnir að missa ökuleyfið höfðu orðið fyrir því vegna þess að þeir höfðu fengið sér bjór. Þeir héldu að þó þeir hefðu gert það væri allt í lagi, en því miður var ekki svo. Sumir voru svo heppnir að þeir höfðu verið stöðvaðir áður en þeir höfðu orðið valdir að tjóni á sjálfum sér og öðrum, en hjá öðrum vitum við að slysin gerast áður.

Það var mjög tekist á um svokallað bjórlíki fyrir nokkrum árum og ég hygg að ég hafi kannski eitthvað minnst á það hér þegar umræða var um bjórinn síðast — en hv. 8. þm. Reykv. var að minnast á hvað ég hefði sagt þá — því að ég tengdist þeirri umræðu allmikið. En ég býst við að við munum öll eftir því hversu mikill áróður var rekinn þá í sambandi við það þegar byrjað var á þeim drykk. Talað var um að það ætti að reyna að vekja upp stemmningu og fá menn til að sitja á kránum. (Forseti: Má ég aðeins trufla hæstv. ráðherra í máli hans. Nú er klukkan orðin rúmlega 4 og það eru þingflokksfundir fram undan. Ég vildi því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann ætti mikið eftir af máli sínu og vildi gera hlé á því eða hvort hann vildi ljúka því nú.) Ég skal gera hlé á máli mínu.