20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6671 í B-deild Alþingistíðinda. (4614)

Frumvarp til áfengislaga

Jóhann Einvarðsson:

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt sem fram hefur komið hér í umræðunni fram að þessu að hér hafa verið fluttar frekar stuttar og hógværar ræður um þetta mál. Ég hygg að það hafi m.a. verið vegna þess að það hafi verið nánast samkomulag þingdeildarmanna, þó óformlegt væri, um að koma málinu í dag til nefndar og að málið fengi heldur hljóða og stillta afgreiðslu á hvern hátt sem það í lokin færi. Hér var þakkað fyrir það áðan að menn gætu flutt skaplegar ræður án þess að hafa alla fjölmiðlana yfir sér. En nú er búið að koma þessari umræðu þannig að hér eru allir fjölmiðlar allt í einu mættir. (Gripið fram í: Einn.) Þeir eru fleiri en einn sjáanlegir þarna uppi og eru þeir svo sem velkomnir.

En ég beini þeirri eindregnu áskorun til forseta að fundi verði fram haldið kl. 6 í dag. Það er ekkert óvanalegt við það og ég held að það geri það líka að verkum að þá er hægt að taka málið fyrir í hv. allshn. á þriðjudag. Þá er reglulegur fundur og hægt að taka afstöðu um hvernig nefndin tekur á málinu þá. Ég taldi reyndar að búið væri að gefa til kynna með viðtali við forseta að málinu yrði trúlega lokið í dag.