20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6672 í B-deild Alþingistíðinda. (4620)

Frumvarp til áfengislaga

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma fram að þingflokkur Alþb. óskar ekki eftir því að það verði sérstaklega haldinn fundur til að ræða þetta mál hér á eftir en er reiðubúinn til þess fyrir sitt leyti að greiða fyrir afgreiðslu þess eins og öðrum þingmálum hér næstu daga með eðlilegum og venjulegum hætti.

Jafnframt minni ég á það að frá því var gengið í Nd. fyrir nokkru með samkomulagi allra flokka að þar lyki deildafundi um fjögurleytið og þar hæfust fundir ekki aftur kl. 6 í dag þó að þar sé ærið að starfa vegna þess m.a. að einn af þingflokkum ríkisstjórnarinnar, Framsfl., óskaði eftir því að hafa ríflegan tíma til að fjalla um þau erfiðu mál sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir og sá flokkur ætlar að glíma við um helgina, hvort sem það leiðir til stjórnarslita eða ekki. Það rímar því betur við ástandið í Nd. að hér verði fundað með eðlilegum, rólegum, málefnalegum og skikkanlegum hætti á þriðjudag.

Ég ítreka, það er engin ósk frá okkur þm. Alþb. í þessari deild um að taka málið endilega fyrir hér kl. 6 í dag.