20.04.1988
Neðri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6675 í B-deild Alþingistíðinda. (4630)

271. mál, framhaldsskólar

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Mér leiðist yfirleitt að vera að skipta mér af atkvæðagreiðslu þegar svo langt er komið sem hér er, en mér finnst það nýstárleg aðferð að hætta við að afgreiða hverja grein fyrir sig eftir 2. umr. Ég hef skilið þingsköpin svo að 2. umr. fæli í sér að þá ætti að taka afstöðu til hverrar greinar fyrir sig þannig að komi brtt. við einstakar greinar hljóti þær að berast upp í þeirri röð sem númer greinanna segja til um. En auðvitað getur það komið fyrir, bæði í þessu tilviki og svo mörgum öðrum, að það sé samhengi á milli einstakra brtt. frá þingmanni og það gildir einu hvort það er við sama kafla eða við marga kafla. Það getur verið samhengi í því öllu saman. En ég vildi, herra forseti, gera þessa athugasemd.