20.04.1988
Neðri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6680 í B-deild Alþingistíðinda. (4649)

126. mál, mat á sláturafurðum

Frsm. landbn. (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Landbn. hv. deildar hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum nr. 30 frá 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum.

Nefndin hefur rætt frv. á nokkrum fundum og sent það til umsagnar til Félags sláturleyfishafa, Framleiðsluráðs landbúnaðarins, Neytendasamtakanna, Stéttarsambands bænda, Hollustuverndar ríkisins, Dýralæknafélags Íslands, yfirdýralæknis og Kaupmannasamtakanna.

Í frv., eins og það kom fram frá ríkisstjórninni, er gert ráð fyrir að undanþágur megi ekki veita nema til 1. júní 1988. Það er samhljóða ákvæði í brbl. sem gefin voru út 16. júní 1987. Yrði frv. samþykkt óbreytt yrði engar undanþágur hægt að veita vegna slátrunar á komandi hausti. Nefndin telur rétt að framlengja undanþáguheimild ráðherra í tvö ár eða til 1. júní 1990.

Landbn. leggur á það áherslu að þegar í stað verði hafist handa um endurskipulagningu og endurbætur á sláturhúsum í landinu. Nefndin mælir með því að frv. verði samþykkt með svofelldri breytingu: Í 1. gr. komi í stað ártalsins 1988, eins og var í brbl. og frv. ríkisstjórnarinnar, ártalið 1990 sem veitir landbrh. heimild að veita undanþágur til þess tíma vegna sláturhúsa.

Undir þetta álit rita allir nefndarmenn og var samkomulag í nefndinni um að flytja þessa brtt. Herra forseti. Ég held að fyllsta ástæða sé til að fara örfáum orðum um þetta mál og láta það koma skýrt fram að í nefndinni urðu talsverðar umræður um ástandið í sláturhúsamálum hér á landi. Ég held að ég greini satt og rétt frá þegar ég segi að allir nefndarmenn hafi verulegar áhyggjur af ríkjandi ástandi í þessum málaflokki og hvetja til þess að þegar verði gripið til einhverra aðgerða sem eru í áttina að því að reyna að mæta þeim auknu kröfum sem komið hafa fram um heilbrigði og hollustuhætti í sláturhúsum og mæta þeim vanda sem sláturhúsin og þau félög, sem þau reka, eiga í.

Ég vil láta þess getið, herra forseti, að meiri hluti sláturhúsa á landinu er nú rekinn með undanþáguleyfum. Afkastageta allra starfræktra sláturhúsa í landinu er rösklega 43 þúsund fjár á dag en það jafngilti árið 1986 19 daga notkun að meðaltali. Þessi mikla afkastageta húsanna á sama tíma og verið er að fækka sauðfé í landinu eykur auðvitað óhagkvæmni í rekstri og leiðir til ófremdarástands ef ekkert verður að gert.

Ég hygg að það sé vilji nefndarinnar að Alþingi vindi nú bráðan bug að því að fara að fjalla m.a. um nál. mikið og þykkt um hagræðingu í rekstri sláturhúsa sem þm. hafa haft undir höndum í langan tíma en hefur ekki verið rætt hér á hinu háa Alþingi.