05.11.1987
Neðri deild: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

42. mál, áfengislög

Birgir Dýrfjörð:

Herra forseti. Enn þá einu sinni er komið til umfjöllunar á hinu háa Alþingi frv. til l. um breytingu á áfengislögum eða bjórfrumvarp eins og það er almennt nefnt manna á meðal. Í grg. með frv. segir m.a. um tilgang flm. að hann sé að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja, að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar.

Með þessum markmiðum hafa flm. skipað sér í raðir þeirra sem styðja áfengisstefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar en hún heldur því fram á grundvelli rannsókna að aukin neysla áfengis sé ávísun á aukið heilsufarslegt, efnahagslegt og félagslegt tjón. Og stofnunin leggur til við þjóðir heims að þær marki sér áfengisstefnu sem minnki þetta óumdeilda tjón, þ.e. minnki áfengisneyslu þegnanna. Kunnug eru viðbrögð stórveldanna sem hafa hert mjög áfengislöggjöf sína og gert aðgengi að áfengi miklu torveldara en áður var.

Ég dreg ekki í efa að flm. gangi gott eitt til með frv. þessu og þann tilgang þeirra styð ég af heilum hug, að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar og draga úr neyslu sterkra drykkja.

Hér er mikið í húfi og því mannleg skylda okkar að fara með þetta mál af alvöru og gætni. Því að ef sala áfengs öls á Íslandi næði ekki þeim tilgangi flm. að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar heldur snerist í ranghverfu sína, þá yrði hún samkvæmt alþjóðarannsóknum ávísun á aukið heilsufarslegt, efnahagslegt og félagslegt tjón. Og þá höfum við tekið tappann úr þeim legg sem hýsir þá plágu sem við öll óttumst og enginn getur bætt. Það er nú svo þegar áfengi er annars vegar að það er oft auðvelt að taka tappann úr en erfiðara að setja hann í aftur.

Ekkert okkar vill valda aukinni drykkju. En við höfum ekki reynslu af frjálsu áfengu öli. Okkur ber því að afla gagna hjá þeim sem þá reynslu hafa. Og ef reynsla annarra þjóða býður okkur ótvírætt að hafna áfengu öli þá má ekkert okkar vera svo lítilmótlegt að láta persónulegar tilhneigingar ráða afstöðu sinni. Ég trúi því að hver og einn þm. hafi nægan manndóm til að ráða við slíkar tilhneigingar jafnvel þó áleitnar verði.

Herra forseti. Ég mun hér á eftir vitna til staðreynda af reynslu annarra og okkur menningarlega skyldra þjóða af áfengu öli — og ég endurtek staðreynda, herra forseti, ekki kenninga.

Þó vil ég að vísu fyrst vitna í íslenska stofnun. Þjóðhagsstofnun hefur gert áætlun um hver áfengisneyslan verði ef bjórstefnan verður ofan á. Niðurstaðan er 33% aukning vegna áfenga ölsins. Og þá spyr maður: Er ekki líklegt að 33% aukning á áfengisneyslu færi okkur frá tilgangi frv. um að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar? Við getum þó huggað okkur við að þetta er aðeins útreikningur og það frá Þjóðhagsstofnun sem ýmsir hv. þm. gera að vísu lítið með. Í stað útreikninga skulum við því leita staðreynda sem ekki þarf um að deila.

Það er oft vitnað í Danmörku sem fyrirmyndarland um áfengisneyslu, en þar drekka menn aðallega öl og veik vín. Þó jókst drykkja þar á árunum 1966–1982 um 98% á sama tíma og á bjórlausu Íslandi um 34,7%. Finnar aftur á móti leyfðu á þessum árum sölu á áfengu öli sams konar og lagt er til í okkar frv. og hjá þeim jókst neyslan um 146,2%. Þetta eru óhrekjandi staðreyndir sem okkur er skylt að skoða og spyrja í framhaldi af því: Erum við örugg um að það sama gerist ekki hér og ef við erum ekki örugg, er áfenga ölið þá áhættunnar virði?

Á árunum 1958–1978 fjórfaldaðist drykkja í Danmörku og niðurstöður rannsókna sýna nú að alvarlegustu fylgisjúkdómar drykkju, þ.e. skorpulifur og briskirtilsbólga, fjórfölduðust einnig, en dánarlíkur af þessum sjúkdómum eru svipaðar og gerist um flestar tegundir krabbameins. Þetta eru ekki kenningar, hv. þm., heldur staðreyndir sannaðar með mannslífum. Gleymum því ekki. Við hljótum að spyrja: Gæti þetta einnig gerst hér eða er það öruggt að við séum öðruvísi en aðrar þjóðir?

Í skýrslu tryggingastofnunar danska ríkisins fyrir 1980 kemur fram að 52% þeirra karla sem eru öryrkjar í Kaupmannahöfn eru það eingöngu vegna drykkjuskapar. Gæti það gerst hér eða erum við örugg um að verða öðruvísi?

Áfengisneysla kvenna hefur aukist gífurlega og nú er svo komið fyrir Dönum að áfengisneysla móður á meðgöngutíma er orðin jafnalgeng orsök fávitaháttar eða algengari en mongólismi hefur nokkurn tíma verið. Gæti það gerst hér eða erum við öðruvísi?

Danir eru sú þjóð sem hefur hvað flest sjúkrarúm á hverja þúsund íbúa, en í meira en helmingi sjúkrarúma í Kaupmannahöfn er fólk með mein vegna áfengisneyslu. Ég endurtek: Meira en helmingur sjúkrarúma í Danmörku fer undir alkóhóltengda sjúkdóma. Gæti það gerst hér eða erum við kannski öðruvísi en Danir?

Við getum svo sannarlega margt lært af Dönum og staðreyndum þeirra um öldrykkju. Í Danmörku er öldrykkja ekki aðeins vandamál á fjölda vinnustaða. Ofneysla bjórs er algeng meðal barna þar í landi og ofdrykkja skólabarna stórfellt vandamál. Við rannsókn sem danskir geðlæknar stóðu fyrir kom í ljós að ölkær skólabörn 14 ára drekka nú meira en nokkru sinni fyrr. Sérfræðingar þessir gera af þessum ástæðum ráð fyrir að 10% úr hverjum aldursflokki muni verða fyrir alvarlegum heilaskemmdum af þessari ölneyslu. Tíundi hver unglingur í þessum aldursflokki mun verða fyrir alvarlegum heilaskemmdum af þessari ölneyslu.

Það er augljós staðreynd að áfengt öl bætir ekki drykkjusiði þessa eyðilagða unga fólks. Hvað íslensku æskufólki við kemur spyr ég: Er öruggt að það sé öðruvísi en danskir unglingar? Er áfenga ölið áhættunnar virði? Er ósanngjarnt að óska eftir því að þau okkar sem í ölið langar greiði atkvæði gegn löngun sinni ef það mætti verða til þess að einhver hluti íslenskrar æsku hljóti ekki þessi voðaörlög og ástvinir komist hjá þeirri þjáningu, kvöl og sorg sem fylgir?

En við skulum skoða staðreyndir víðar en frá Danmörku. Á ýmsum vinnustöðum í Þýskalandi fær það fólk hærri laun sem ekki drekkur öl yfir vinnudaginn. Þannig reyna Þjóðverjar að verjast því sem við enn erum laus við. Háskólinn í Hamborg lét í sjö ár rannsaka áfengismagn í blóði manna sem lentu í vinnuslysum þar. Af þeim voru 85% með 1,5% eða meira af áfengi í blóðinu. Gæti þetta gerst hér eða erum við örugglega öðruvísi en þetta fólk?

Árið 1985 birtu þrír franskir vísindamenn grein um rannsókn sína á áfengisneyslu og skorpulifur. Sú niðurstaða af rannsókn þeirra sem kom hvað mest á óvart er að öldrykkjumenn virðast í meiri hættu að fá þennan banvæna sjúkdóm en þeir sem neyta víns og sterkra drykkja. Erum við örugg að Íslendingar séu öðruvísi, að þetta geti ekki einnig gerst hér?

Í Belgíu eru 95% allra drykkjusjúklinga öldrykkjumenn, þ.e. menn sem drekka helst ekki aðra áfenga drykki en öl, og 66% í Bretlandi. Það er nefnilega þannig að það er uppi sú kenning og búin að vera lengi að alkóhólismi, áfengissýki, komi af því að menn drekki sig ofurölvi. Gömlu góðu heiðarlegu íslensku fyllirín séu svo hættuleg. En staðreyndin er sú að það er sídrykkjan, það er litli daglegi skammturinn sem er langsamlega varasamastur og hættulegastur. Þess vegna eru niðurstöður Belgíumanna að 95% af ofdrykkjumönnum þar eru öldrykkjumenn. Sama er í Bretlandi.

Þessar staðreyndir frá Belgíu og Bretlandi eru alvarleg viðvörun til okkar. Og ég spyr: Er áfenga ölið áhættunnar virði? Sala milliöls, sama öls og við erum að fjalla um hér, var leyfð í Svíþjóð 1965. Þeir sem fyrir því börðust þar trúðu því, eins og hv. flm. þessa frv. hér, að áfengt öl drægi úr neyslu sterkra drykkja og breytti drykkjusiðum til batnaðar. Reynslan varð þveröfug. Unglinga- og barnadrykkja jókst gífurlega og sænska þingið bannaði framleiðslu og sölu milliöls af illri reynslu. Getum við treyst því að Íslendingar séu öðruvísi en Svíar? Ef ekki, er áfenga ölið þá áhættunnar virði? Hefur nokkur íslenskur þm. burði til að axla þá ábyrgð að loka augunum fyrir þessum staðreyndum — ekki kenningum, staðreyndum?

Vísindamenn við Karólínsku stofnunina í Svíþjóð hafa rannsakað afleiðingar sem ég vil kalla árangur af milliölsbanni Svía. Drykkja barna og unglinga í 6.–9. bekk grunnskóla minnkaði um 20–39%. Er okkur ekki skylt að hafa þess staðreynd í huga?

Færeyingar leyfðu sölu áfengs öls 1980 á tveim stöðum í Færeyjum. Þeirra reynsla var söm og annarra. Áfengisneysla jókst gífurlega.

Finnar leyfðu 1968 sölu á áfengu öli, sams konar og við erum að fjalla um hér. A sex árum jókst áfengisneysla þeirra um 146% á öli og sterkum drykkjum. Gæti það gerst hér? Gæti það gerst hér með samykkt þessa frv.?

Þeim sem börðust fyrir sölu áfengs öls í Finnlandi gekk það sama til og flm. okkar frv., þ.e. að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja og breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar. Uppskeran varð harmleikur heillar þjóðar. Erum við öðruvísi en Finnar? Er það öruggt? Er okkur ekki skylt að hafa þessa staðreynd í huga þegar við greiðum atkvæði?

Í Noregi er reynslan sú sama og þaðan höfum við þær skelfilegu staðreyndartölur að fjórði hver táningur sem neytir öls leiðist yfir í neyslu á harðari vímuefnum, svo sem hassi. Og í öllum þessum löndum er það reynslan að það er ölvíman sem opnar öðrum efnum leið, svo sem hassi, kók, spítti og hvað það nú er. Yrði það örugglega öðruvísi hér? Hvaða ábyrgð erum við að axla?

Herra forseti. Okkur sem finnst áfenga ölið ekki áhættunnar virði, okkur sem þorum ekki að horfa fram hjá staðreyndum um reynslu þeirra þjóða sem reynt hafa að breyta drykkjusiðum til batnaðar með sölu áfengs öls, okkur er ákaflega oft borin á brýn forræðishyggja. Alþingi er löggjafarsamkunda og lög eru forræði. Og ég spyr: Hvenær tapar einstaklingurinn tíðast forræði sínu samkvæmt lögum hins háa Alþingis? Það er þegar hann neytir þess efnis sem hér er um fjallað, áfengis. Ýmsar daglegar athafnir verða saknæmar, eiðar hans, vitnisburðir og samningar ógildir.

Ég vék að því í upphafi að ég styð af heilum hug þann tilgang flm. frv. að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja og breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar. Ég vék einnig að því að þar sem við hefðum ekki reynslu af sölu á áfengu öli yrðum við að kynna okkur staðreyndir um reynslu annarra þjóða, þeirra þjóða sem hafa aðhyllst þau rök sem flm. þessa frv. leggja til grundvallar fyrir að leyfa sölu áfengs öls. Eftir að hafa kynnt mér þær staðreyndir varðar engu hvort mig langar í bjór eða ekki. Ég rís ekki undir þeirri ábyrgð að gera tilraun með það að við Íslendingar séum svo mikið öðruvísi en aðrar þjóðir að við losnum við þær hörmungar sem yfir þær hafa gengið vegna aukins aðgengis að áfengu öli vegna samþykktar sambærilegs frv. við það sem hér liggur frammi, lagt fram í góðri meiningu svo sannarlega.

Herra forseti. Þó tilgangurinn sé talinn góður get ég ekki greitt þessu frv. atkvæði mitt. Mér finnst svo yfirgnæfandi líkur að það fari fyrir okkur Íslendingum á sama veg og hjá þeim þjóðum sem reynt hafa bjórinn. Ég þori ekki að treysta því að við séum öðruvísi en þær og legg því til að frv. verði fellt.