25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6722 í B-deild Alþingistíðinda. (4670)

Lausn kjaradeilnanna

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það kom fram í svari hæstv. forsrh. að ríkisstjórnin ætlar ekki að gera neitt til að greiða fyrir lausn kjaradeilnanna. Ekki frekar í þessum efnum en öðrum er að vænta lífsmarks frá hæstv. ríkisstjórn. Hér á Íslandi hefur verið rekin um fimm ára skeið láglaunastefna, rekin í sameiningu af atvinnurekendavaldinu og afturhaldssömum ríkisstjórnum. Nú gerir hluti launafólks í landinu tilraun til að brjóta á bak aftur þessa láglaunastefnu. Enn ein atlagan er gerð að láglaunastefnunni. En þá gerist það sem endranær að upp rís ákveðin hreyfing í þjóðfélaginu, hreyfing þeirra manna sem hafa að sáluhjálparatriði að viðhalda launum í kringum 30 000 kr. á mánuði, sem grundvalla efnahagsstefnu sína á þeirri staðreynd að hér þurfi að vera svona lág laun, a.m.k. fyrir einhvern hluta vinnandi fólks.

Hvað gerir hæstv. fjmrh. þegar kjaramálin ber á góma í fjölmiðlum? Hann spyr: Vilja menn hér 45–50% verðbólgu? Er það það sem menn eru að biðja um? Enn er því haldið fram af þessum spekingum öllum að það séu þessi lágu laun, laun þessa fámenna hóps sem vinnur á taxtakaupi, liðlega 30 000 kr. á mánuði, sem séu undirrót alls ófarnaðar í efnahagsmálum. Það er endemis málflutningur. Gamla platan er sett á fóninn um að lægstu launin valdi verðbólgunni, ekki forstjóralaunin, ekki launin hans Guðjóns B. Ólafssonar í SÍS. Hver hefur heyrt um að þau hafi valdið verðbólgu? Ekki nokkur maður. Það hefur aldrei verið minnst á að bankastjórasporslurnar eða laun forstjóranna væru verðbólguhvetjandi. En eigi að hækka þessi mánaðarlaun, sem tiltölulega lítill hluti þjóðarinnar verður að sætta sig við, og jafnvel þó að það sé hjá fyrirtækjum eins og nú gerist í verslun og skrifstofustarfsemi, sem mörg hver geta vel borgað mun hærri laun, fer allt á annan endann.

Ég segi það, herra forseti, að lokum að sú ríkisstjórn sem grundvallar efnahagsstefnu sína á 30 000 kr. mánaðarlaunum og hefur það helst úrræða í skattamálum að leggja á matarskatt á að fara frá völdum og það sem fyrst.