25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6725 í B-deild Alþingistíðinda. (4676)

Lausn kjaradeilnanna

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Hér hefur því verið haldið fram í máli nokkurra hv. þm. að sú kjaradeila sem nú stendur eigi rætur sínar að rekja til efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

Hvað hefur þessi ríkisstjórn verið að gera á undanförnum mánuðum? Hún hefur verið að draga úr þenslu. Hún hefur mætt vaxandi viðskiptahalla m.a. með því að ná jöfnuði á ríkissjóði á þessu ári. Hún hefur dregið úr erlendum lántökum. Hún hefur náð þeim árangri, sem mest er um vert, að verðbólga hefur nú lækkað úr því að vera um 26% á þremur síðustu mánuðum síðasta árs niður í það að vera 13–14% á síðustu þremur mánuðum. Þetta er árangur af efnahagsstarfi ríkisstjórnarinnar sem mun skila sér bæði fyrir launafólkið í landinu og atvinnufyrirtækin. Ég vil líka minna á það að meginþorri launþegasamtaka í landinu hefur samið á undanförnum vikum við vinnuveitendur sína. Þessar fullyrðingar eru því algjörlega út í bláinn, að það sé vegna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem þessi kjaradeila hefur ekki verið leidd til lykta.

Ég fagna því hins vegar að hér kemur fram skilningur á því að þau ráð sem stjórnvöld hafa á hverjum tíma eru fyrst og fremst skattar og tryggingabætur. Ég viðurkenni það fúslega og það er alveg rétt sem hér kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv. að ég tók fram fyrir hendurnar á honum sem fjmrh. í samningunum 1984 til að tryggja það að þeir samningar yrðu til lykta leiddir. Þá voru barnabætur stórauknar og gerðar verulegar ráðstafanir fyrst og fremst til að koma til móts við einstæða foreldra. Það var gert í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Nú hafa barnabætur verið hækkaðar og skattleysismörk verið hækkuð verulega. Þannig hefur ríkisstjórnin, bæði sú sem nú situr og sú sem sat á undan henni, reynt að koma til móts við þá sem lakast eru settir.

Meginatriðið er hins vegar það að skapa hér það efnahagslega umhverfi að við búum við stöðugleika og snúum okkur að því verkefni að reyna að auka verðmætasköpunina í þjóðfélaginu þannig að við höfum meira til skiptanna, eyðum ekki öllu afli okkar í að þrátta um það hvernig eigi að skipta minnkandi þjóðarköku, heldur reynum að beina kröftum okkar að því að stækka þessa köku sem við höfum til skiptanna og auka þannig velsæld allra þegna í þessu þjóðfélagi. Og sannleikurinn er sá að við búum auðvitað við góð lífskjör, Íslendingar í dag. Þó að á móti blási og þó að þjóðartekjurnar lækki á þessu ári og við verðum að laga okkur að þeim staðreyndum býr íslenska þjóðin við góð lífskjör. - [Fundarhlé.]