25.04.1988
Sameinað þing: 71. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6734 í B-deild Alþingistíðinda. (4679)

186. mál, fréttaflutningur Ríkisútvarpsins um utanríkismál

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er að sú umræða sem hér fer fram er allsérstæð. Við lifum í landi þrískiptingar valdsins þar sem það er reglan að dómstólar dæmi menn og þar er það venja að saksóknari eða lögfræðingur flytji málið, verjandi eigi kost á því að svara og svo sé dómur upp kveðinn. Hér er búið að snúa hlutunum þannig við að hæstv. menntmrh. tekur að sér að flytja ræðu sækjanda í málinu og svo er hafin allsherjarumræða, en hinir sakfelldu eiga ekki nokkurn kost á að taka til máls til að verja hendur sínar. (GHG: Stefán Jóh. Stefánsson getur það ekki.) Hv. 14. þm. Reykv. lýsir því yfir að fyrrv. forsrh. Stefán Jóhann geti það ekki. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það.

En við skulum halda okkur við efnið. Erum við að fara fram á að það sé skýrt tekið fram í vinnubrögðum í fyrsta lagi að Norðmönnum sé aldrei trúandi? Sé eitthvað af fréttum frá Noregi skuli þær skjalfestar, Norðmönnum skuli ekki vera trúandi í einu né neinu. Eru menn að fara fram á það? Eru menn almennt að fara fram á að það liggi fyrir skjalfestar upplýsingar ávallt fyrir öllu sem sagt er? Ég held að enginn sé að fara fram á það. Ég held að mönnum sé ljóst, ef þeir vilja viðhafa heiðarlegan málflutning í þessum efnum, að það verður aldrei hægt að komast hjá því að ekki eigi sér stað einhver mistök í fréttaflutningi. Það væri fróðlegt að kanna hvort fjölmiðlar almennt á Íslandi þola þær kröfur sem menn eru nú að gera til Ríkisútvarpsins. Það er krafan um óskeikulleikann. Ég er ekki búinn að sjá að þeir fjölmiðlar sem hér eru þoli þessa rannsókn.

Þá snúum við okkur að hinu málinu. Jú, það liggur fyrir staðfest að þessi Tangen hefur ekki getað sýnt fram á að hann hafi haft undir höndum þau skjöl sem hann fullyrti að hann hefði haft undir höndum.

Í fyrsta lagi: Er það þá sannað að hann hafi aldrei haft þau undir höndum? Það liggur engin sönnun fyrir um að svo sé. Því er einfaldlega ekki hægt að svara. Það mætti spyrja: Hvað ætti honum að koma til að halda því fram sem hann hélt fram um þessi mál? Er hugsanlegt að manninn hafi langað til að varpa þessu fram til að afla sér frægðar vitandi að hann yrði tvímælalaust sakfelldur fyrir tiltækið mjög fljótlega? Er það trúleg skýring? Mér finnst hún hreint ekki trúleg. En hvar væri þá hægt að fá þær sannanir eða afsannanir sem þyrfti í þetta mál? Með því eina móti að öll skjöl í Bandaríkjunum varðandi þennan tíma verði gerð opinber, hvert einasta skjal verði gert opinbert. Það er kominn tími til þess að þessi þjóð fái að vita allt um þessa hluti. Það sér það hver heilvita maður að auðvitað hefur forsrh. þess tíma rætt við Bandaríkjamenn. Eru menn þau börn að halda að CIA-menn hafi verið merktir í bak og fyrir með stórri skammstöfun? Hvernig hefði hann átt að vita við hverja hann var að tala? Auðvitað hefur hann verið að tala við fulltrúa Bandaríkjanna og litið svo á. Ég vil bæta því við: Við getum látið okkur dreyma um að það sé ekki stunduð njósnastarfsemi á Íslandi. Það væru draumórar að mínu viti. Ég er í það minnsta sjálfur sannfærður um að bæði stórveldin, Bandaríkjamenn og Rússar, munu safna upplýsingum í öllum löndum heims um gang atburða. Það er hluti af þeirra vinnubrögðum hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Það er eins og Churchill sagði: Það njósna allir, en það er bara að þræta fyrir það. Sú regla hefur verið viðhöfð og henni er fram haldið. Hvað halda menn að allt það rússneska starfslið sé að gera hér á landi ef enginn vinnur að upplýsingasöfnun? Láta menn sér detta í hug að Ísland sé eina landið á Vesturlöndum eða í Evrópu sem Bandaríkjamenn safni engum upplýsingum um? Nei. Auðvitað hafa þeir safnað upplýsingum á þessum tíma. Og það sem leitar á hugann: Hvers vegna eru skjölin ekki gerð opinber, skjölin úti í Bandaríkjunum? Einfaldlega vegna þess að það eru menn hér heima á Íslandi sem ekki vilja að þessi skjöl séu gerð opinber, menn sem telja að það sé of stutt um liðið, þora ekki að standa frammi fyrir þeim staðreyndum sem þar verða sagðar um menn og málefni.

Ég vil geta þess að það er auðvitað viðkvæmt þegar umræðan snýst um það hvort erlendir aðilar hafi haft áhrif eða mikil samskipti við íslenska menn eins og þarna átti sér stað. Auðvitað er það viðkvæmt. Það er líka viðkvæmt þegar sannast að erlent fé hefur verið flutt inn í landið til þátttöku í stjórnmálum á Íslandi. Ég veit ekki betur en stjórnmálaforingi hafi lýst því yfir úr þessum ræðustól að hann mundi upplýsa allt um þá hluti. Hann er ekki enn búinn að því og situr ekki á þingi í dag. Hvers vegna fara menn þá af stað núna í þessu offorsi sem gert hefur verið? Hvers vegna láta menn sér ekki nægja þegar fréttamenn biðjast afsökunar og gera grein fyrir því að þeim hafi orðið á mistök? Hvers vegna eru settar á svið nánast galdrabrennur í sambandi við svona hluti? Hvaða tilgangi þjónar það?

Ég verð að segja eins og er að mig undrar að mönnum skuli detta þetta í hug, mönnum skuli detta í hug að hefja þann vopnaburð sem hér er hafinn.

Ég hygg að sú athugasemd sem kemur fram í skýrslunni, þar sem norski aðilinn viðurkennir að það sé sennilega ekki nógu gott að treysta á minnið, sé svar sem gerir að verkum að hvað sem hver segir vill hann ekki bakka frá því að hann hafi haft þessa hluti undir höndum. Hann segir ekki: Mig misminnti eða ég hafði ekki þessa hluti undir höndum. Hann vill trúa því að svo sé. Mér finnst það út af fyrir sig dálítið merkilegt ef við, vitandi um að það eru leyniskjöl í hirslum Bandaríkjanna um þessa hluti, ætlum hér og nú að fullyrða endanlega hvað í þeim stendur. Er hugsanlegt að þessi norski aðili, menn draga í efa að hann sé sérfræðingur, hitt er viðurkennt að hann hefur fengið að skoða skjalasafnið þarna úti, að hann hafi í óhelgi verið að gramsa í íslenskum skjölum þegar hann hafði aðeins heimildir til að skoða skjöl um Noreg og Bandaríkin? Er það hugsanlegt? Er það hugsanlegt að það hafi verið kippt í einhverja spotta á bak við þegar kemur í ljós að maðurinn er farinn að segja frá hlutum sem hann hafði engar heimildir til að skoða? Auðvitað vakna miklu fleiri spurningar þegar svona umræða fer fram eins og hér hefur verið sett á svið.

Ég lýsi fyllsta trausti á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Mér er ljóst að þar hafa verið gerð mistök og getur verið að verði ávallt svo að þar eigi sér stað einhver mistök. En ég fullyrði hér og nú úr þessum ræðustól að ég þekki ekki til þeirra vinnubragða hjá íslenskum fjölmiðlum að þar starfi óskeikulir menn. Auðvitað hljóta þeim að verða á mistök. En hitt er verra að hjá sumum fjölmiðlum Íslands, sem kenna sig við frelsi og óhlutdrægni, rekst maður á það trekk í trekk að sannleikanum er hagrætt, fyrirsagnirnar eru látnar ljúga og allt annað er í undirtexta en í fyrirsögnum. Má búast við því að hæstv. menntmrh. beiti sér fyrir almennri ritskoðun á slíkum blöðum og úttekt á sannleiksgildi slíks fréttaflutnings? Það er þá blaðapressan íslenska sem yrði tekin til rannsóknar. (SvH: Á hún öll óskilið mál í þessu?) Hv. 4. þm. Austurl. spyr spurningar sem að sjálfsögðu er ekki hægt að svara fyrr en rannsóknin hefði farið fram. Hún mundi fjalla um þetta og vænti ég að hann sé alveg með á það að rannsókn væri óþörf ef ég vissi þessa hluti fyrir víst því þá mundi ég aðeins fræða þingheim um staðreyndirnar.

Ég ætlaði mér ekki að fara í harðar umræður um þessa hluti, en ég vara við þeim vopnaburði að halda áfram að höggva eins og gert hefur verið. Það hlýtur að kalla á kröfuna um að menn krefjist þess að öll þessi skjöl verði gerð opinber og að þeirri leynd verði svipt af sem verið hefur.