26.04.1988
Efri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6778 í B-deild Alþingistíðinda. (4689)

276. mál, lögreglusamþykktir

Frsm. allshn. (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. Ed. um frv. til l. um lögreglusamþykktir.

Nefndin hefur rætt frv. og fengið umsagnir frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og Sýslumannafélagi Íslands. Nefndin mælir með samþykkt frv. óbreytts.

Eyjólfur Konráð Jónsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins, en Skúli Alexandersson sat fundi nefndarinnar og er samþykkur áliti þessu. Undir þetta rita aðrir nefndarmenn.

Við höfum fengið tvær umsagnir um þetta. Önnur er frá Sýslumannafélagi Íslands sem mælir eindregið með að þetta verði samþykkt en bendir hins vegar á að kannski væri rétt að veita héraðsnefndum líka heimild til að setja sér lögreglusamþykktir. Nefndarmenn töldu ekki rétt að gera það, enda væru héraðsnefndirnar ekki aðili sem kosið væri til og ekki víst að héraðsnefndir yrðu settar á stofn alls staðar á landinu, a.m.k. ekki strax. Þess vegna var ekki talið rétt að taka undir það, enda er ákvæði í frv. sem gerir ráð fyrir því að fleiri en eitt sveitarfélag geti sett sér sömu lögreglusamþykktina.

Einnig kom umsögn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga sem mælti eindregið með samþykkt frv. Ástæðan fyrir því að talið var rétt að setja þessi lög er fyrst og fremst sú að gerð verði fyrirmynd að lögreglusamþykkt fyrir öll sveitarfélögin svipað og gert er með byggingarsamþykktir og fleiri slíkar samþykktir. Auk þess hafa ný sveitarstjórnarlög það í för með sér að réttarstaða sveitarfélaga er orðin nánast sú sama alls staðar.