26.04.1988
Efri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6779 í B-deild Alþingistíðinda. (4693)

260. mál, brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála

Frsm. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur tekið þetta mál til athugunar og hefur efnislega ekkert við það að athuga, en ég hlýt sem frsm. nefndarinnar að gera athugasemd við frágang þessa þskj.

Nú liggur það fyrir að 15 ár eru síðan z var felld brott úr ritmálinu, af þar til bærum yfirvöldum, af þeirri augljósu ástæðu að z hafði aldrei upprunagildi í íslenskri tungu gagnstætt því sem er um y t.d. Þannig voru orð eins og „breyskur“ eða „beiskur“ ekki skrifuð með z, þó að z ætti að heita upp tekin í málinu til að koma í staðinn fyrir tannhljóð + s, af þeim sökum að sú hliðarregla var sett að eigi skyldi rita z ef tannhljóð hefði fallið brott á undan s á frumgermönskum tíma, sem var út af fyrir sig skýr og glögg regla.

Á hinn bóginn gerði z miklar kröfur til þess að menn skildu rétt uppruna orðanna, hver væri rótin í því orði sem um var fjallað. Hef ég t.d. miklar efasemdir um það að orð eins og „verslun“ hafi yfirleitt átt að rita með z. Það var rökstutt með því að það væri dregið af orðinu „verð“ og við það hefði síðan bæst viðskeytið -sl. Alveg eins má hugsa sér að rót orðins hafi verið „ver“ og við það hafi bæst orðmyndunarviðskeytið -sl annars vegar og -ð hins vegar og þess vegna hafi ekki verið rök fyrir því að skrifa þetta orð með z. Enda sjáum við á viðlíka orðum eins og „vara“, „varningur“ og sagnorðinu „að verja (e-u)" að í rauninni voru engin rök fyrir því að nota z í þessu orði.

Enn fráleitara finnst mér, herra forseti, að hafa það eins og stendur í þessu frv. að gera ýmist að skrifa z eða s. Skyldi maður kannski í fljótræði álita að sá háttur hafði verið upp tekinn vegna þess að reynt sé að halda þeirri stafsetningu sem var á þessum gömlu lögum þegar þau voru sett og stafsetningunni fylgt nákvæmlega. Svo er þó ekki. Það er t.d. auðvelt að sannfærast um það með því að bera saman einstök lagaákvæði, athuga hvenær lögin voru sett. Maður kemst fljótt að raun um að stafsetningu laganna á sínum tíma er ekki haldið.

Ég hef ekki athugað það sérstaklega, en ég vek t.d. athygli á tölulið 1 í 3. gr., Opið bréf frá 28. des. 1836. Ég þykist viss um að orðið „bréf“ sé á þeim tíma ekki skrifað með é heldur je og ef hugmyndin er að halda hinni upprunalegu stafsetningu sé rétt að athuga það og taka með í reikninginn.

Á hinn bóginn vil ég vekja athygli á því að í 1. kafla frv. er „verslunaratvinna“ skrifað með z en í II. kafla í fyrirsögn „verslunarstaðir“ með s. Þetta sýnir ljóslega að sá maður í hinu háa ráðuneyti sem hefur gengið frá þessu þskj. hefur verið meira og minna ruglaður í z-reglunum sjálfum og úir og grúir af slíkum villum í þessu frv. og þeirri grg. sem fylgir.

Ég vil því mælast til þess, herra forseti, um leið og ég mæli með því að frv. verði efnislega samþykkt, að þess verði vandlega gætt áður en það birtist í Stjórnartíðindum að stafsetningin verði samræmd með þeim hætti sem þskj. eru hér almennt stafsett svo að menn rugli ekki saman ringulreiðinni í ráðuneytum í þessum efnum og staðfestunni hér á Alþingi. Ég vil beina því til hæstv. forseta eftirleiðis, hvort sem einstakir ráðherrar ganga frá frv. eða þingið sjálft, að reynt sé að fylgja góðri, nútímalegri stafsetningu.

Annars er ég út af fyrir sig ekkert á móti því, ef við viljum leggja það á okkur, að taka upp stafsetningu Wimmers, samræmda stafsetningu forna, í þeim þskj. sem hér eru prentuð. Ég er út af fyrir sig því meðmæltur, herra forseti, og er reiðubúinn til að ræða það við hæstv. forseta, ef sú yrði niðurstaðan, og skal ég þó ekki sérstaklega mæla með því.

Um leið hlýt ég að gera athugasemdir við að í frv. er höfð yfir gömul vísa sem ort var þegar rætt var um löggilding verslunarstaðar á Skipaskaga. Er hér gefið í skyn að Pétur Pétursson biskup hafi ort vísuna sjálfur en borið borgfirskan bónda fyrir sig. Vísan er prentuð svona í þskj.:

Kaupstaður á Skipaskaga

skötunum verður mjög til baga

eftir sig hann dilk mun draga

drykkjurúta og letimaga.

Sjá allir að auðvitað á að standa þarna „skötnunum verður mjög til baga“ en ekki „skötunum“, eða eins og segir í vísu sem ég hef heyrt hafða eftir gömlum Borgfirðingi þegar hann sá þá prentvillu sem birtist í þessu þskj.:

Mælti borgari á Skipaskaga:

Skilningsleysi má haga

svo það skemmi ekki menn,

en ef skortir á n

er það skötunum oftar til baga.

Ég vil, herra forseti, með þeim fyrirvörum sem ég hef hér gert, mæla með því að deildin samþykki það frv. sem hér liggur fyrir.