26.04.1988
Efri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6784 í B-deild Alþingistíðinda. (4700)

472. mál, grunnskóli

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. sem er á þskj. 822, um breytingu á l. nr. 63/1974, um grunnskóla, með síðari breytingum. Flm. ásamt mér er hv. 5. þm. Norðurl. e., Valgerður Sverrisdóttir.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að flytja langt mál um þetta frv. Eins og fram kemur í grg. hefur frv. sama efnis verið flutt áður, var flutt á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu og er því endurflutt nú.

Það kemur fram í grg. frv. að skv. grunnskólalögum er grunnskólanum fyrst og fremst ætlað það hlutverk að mennta og fræða börn og unglinga. Síðustu áratugi hafa orðið miklar breytingar á þjóðfélagsháttum, ekki síst hvað varðar líf fjölskyldunnar. Atvinnuhættir hafa breyst og þátttaka kvenna í atvinnulífinu hefur aukist svo að nú stunda um 80% þeirra atvinnu utan heimilis. Einnig hefur fjöldi barna sem dvelst hjá öðru foreldri sínu farið vaxandi og lætur nærri að um sjötti hver nemandi í bekk sé barn einstæðs foreldris.

Í kjölfar þessa fylgja ný viðhorf til hlutverks skóla. Nú er ætlast til að þeir sinni í ríkara mæli en áður ýmsum þáttum uppeldis og mótunar sem ekki falla beint undir hefðbundnar námsgreinar og fræðslu. Það kemur því í hlut grunnskólans að taka í auknum mæli að sér gæslu barna og jafnt líkamlega sem andlega umönnun þeirra. Þessi þróun hefur í för með sér vaxandi þörf á tengslum milli heimila og skóla og raunverulegri samvinnu foreldra og starfsfólks skóla um uppeldi og skólastarf.

Það er ekki langt síðan hv. þm. Kvennalistans fluttu hér frv. til l. um breytingu á grunnskólalögunum. Ég lét þau orð falla við þá umræðu að það hefði komið mér á óvart að ekki var tekið á þeim þætti í því frv. sem þetta frv. fjallar um, þ.e. um breytingu á 20. gr. grunnskólalaganna sem fjallar um samráð þeirra aðila sem fara með stjórn skóla.

Sú breyting sem hér er lögð til er til komin í beinu framhaldi af vinnu sem unnin var af vinnuhópi sem þáv. hæstv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir skipaði til að fjalla um tengsl heimila og skóla. Með grg. þessa frv. eru fylgiskjöl úr skýrslu þess vinnuhóps sem beinlínis fjalla um þennan þátt. Það voru niðurstöður vinnuhópsins að í raun og veru þyrfti aðeins eina lagabreytingu til að koma á nánara samstarfi foreldra og skóla og það er sú tillaga sem er flutt með þessu frv. Breytingin felst í því að varðandi 20. gr. skuli skólastjóri bæði hafa samráð við skólaráð og kennara við stjórn grunnskóla.

Þá er í 2. gr. frv. ákvæði um að 21. og 22. gr. núgildandi laga um foreldrafélög og nemendaráð verði sameinaðar í eina heildargrein, en ekki er gerð önnur efnisleg breyting á þessum lagagreinum en sú að lögð er aukin áhersla á eflingu samstarfs heimila og skóla.

Tilgangur með stofnun skólaráða er að skapa sameiginlegan vettvang fyrir skólanefnd, foreldrafélag, nemendaráð og kennararáð. Ég hef orðið vör við þann misskilning að með þessu sé verið að gera foreldrafélögin óvirk eða óþörf. Ég vil taka það sérstaklega fram að það er alls ekki tilgangurinn. Það er miklu fremur verið að reyna að efla samstarfið milli foreldrafélaga og þeirra sem stjórna hinum daglega rekstri skólanna með því að tengja þau þannig hinum daglega rekstri að þau eigi fulltrúa í þessu skólaráði sem hefur þá tækifæri til að fylgjast með hvernig starfsemi og rekstri skólans er háttað hverju sinni. Rétt er að taka fram að hér er auðvitað ekki gert ráð fyrir að slíkt skólaráð komi saman í hverri viku eða svo heldur er gert ráð fyrir að það sé a.m.k. tvisvar á ári. Það mætti hugsa sér að það væri í upphafi skólaárs, á miðjum vetri og síðan í lok skólaárs til að undirbúa starfið næsta vetur.

Það er margt sem mælir með slíkum tengslum. Hægt er að nefna atriði eins og slysavarnir innan skólanna, umferðaröryggi, en benda má á að það eru einmitt börn og unglingar sem eru í stærstu áhættuhópunum hvað þessa þætti varðar. Það er orðið mikið áhyggjuefni hve slys á börnum og unglingum eru tíð hér á landi. Vissulega er unnið vel að slysavörnum af ýmsum aðilum, en það er augljóst að það þarf að ná til stærstu áhættuhópanna með því að virkja þá sjálfa, þ.e. börnin og unglingana, eða nemendurna. Það yrði best gert með samvinnu foreldra, forráðamanna skólanna og nemenda. Ekki þykir ástæða til að lögbinda stofnun foreldrafélags og nemendaráðs við hvern grunnskóla ef stofnun skólaráðs er gerð að skyldu, því að séu foreldrafélag og nemendaráð starfandi og skóli er af þeirri stærð sem leyfir kennararáð, þá er mikilvægt að auka samvinnu þessara aðila með setu fulltrúa í skólaráði.

Það er rétt að taka fram að auðvitað gilda í þessum efnum aðrar aðstæður víða í dreifbýlinu en á þéttbýlisstöðum. Gert er ráð fyrir því að skóla sem telur ekki grundvöll fyrir stofnun skólaráðs sé heimilt að sækja um undanþágu frá ákvæði þessara laga til menntmrn. Það þurfa að liggja gildar ástæður fyrir þeirri undanþágu, t.d. smæð skóla — ef skóli hefur innan við 50 nemendur, svo að dæmi sé tekið.

Ég vil benda á að nú er til umfjöllunar í menntmn. Ed. frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands. Í X. kafla þess frv. er fjallað um æfingaskóla við Kennaraháskólann. Þar er einmitt gert ráð fyrir varðandi 37. gr. að í skólastjórn þess æfingaskóla skuli eiga sæti, með leyfi hæstv. forseta — það er 3. mgr. 37. gr. — „skólastjóri, rektor eða fulltrúi hans, fræðslustjórinn í Reykjavík eða fulltrúi hans, þriggja manna kennararáð, kosið til tveggja ára í senn, einn fulltrúi kosinn af skólaráði Kennaraháskólans og einn fulltrúi foreldra, kosinn til tveggja ára“.

Mér þótti rétt að benda á þetta því að mér finnst þetta staðfesta þann skilning hjá ráðamönnum að það séu breyttar ástæður sem kalli einmitt á þessa breytingu. Ef yfirmönnum skóla í landinu er alvara í því að vilja auka samstarf heimila og skóla get ég ekki ímyndað mér annað en að þeir séu sammála þessari breytingu, að þeir taki því fagnandi ef fulltrúar foreldra vilja leggja það á sig að taka sæti í slíku skólaráði til að fylgjast með og hafa möguleika á að koma á framfæri sínum hugmyndum eða athugasemdum þegar verið er að skipuleggja innra starf skólanna hverju sinni.

Hæstv. forseti. Ég hefði getað talað hér langt mál og hafði reyndar hugsað mér að flytja lengra mál við 1. umr. um þetta frv. En ég verð að játa að ég var ekki undir það búin að 10. mál á dagskránni kæmi nú til umræðu í upphafi fundar. Við höfum setið á nefndarfundum í allan morgun og ég var ekki einu sinni með punktana með mér sem ég hafði ætlað að nota mér til halds og trausts.

En eins og ég sagði áðan hefur þetta frv. áður verið flutt hér á hv. Alþingi og fékk þá nokkra umræðu. Ég flyt frv. nú fyrst og fremst til þess að það verði eins og nokkurs konar fylgifrv. með því frv. sem ég nefndi áðan og þær kvennalistaþingkonur, eins og þær vilja láta kalla sig, fluttu og mælt var fyrir fyrir skömmu síðan. Það fjallar um þessi sömu lög, þ.e. um breytingu á grunnskólalögum. Þess vegna vil ég vera raunsæ og geri mér grein fyrir því að þetta mál mun ekki komast gegnum þingið nú þar sem svo stutt er væntanlega til þinglausna. En það fær þá væntanlega sömu meðferð og getur farið til umsagnar til þeirra sömu aðila og fengu hitt frv. til umsagnar og er þá betur undir það búið að fá meðferð á næsta þingi.

Að lokinni þessari umræðu, hæstv, forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.