26.04.1988
Efri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6787 í B-deild Alþingistíðinda. (4702)

472. mál, grunnskóli

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Það er með mig eins og tvo síðustu hv. ræðumenn að ég átti ekki von á að þetta kæmi svona snemma á dagskrá í dag. Ég er því harla illa undir það búin að hafa mörg orð um þetta frv., en ég var að sjálfsögðu búin að kynna mér innihald þess áður en ég ákvað að vera meðflm. hv. 6. þm. Reykn. Aðalástæða þess að ég vildi gjarnan gera það er sú að mér finnst að með þessari breytingu geti orðið um það að ræða að raunveruleg samvinna eigi sér stað á milli heimila og skóla. Ég hef starfað nokkuð við skóla í allmörg ár sem kennari og veit að það er mjög mikils virði að samstarf sé gott þeirra á milli. Þess vegna vil ég láta í ljós stuðning minn við þetta ágæta mál.

Það er leiðinlegt að frv. skuli koma svo seint fram þannig að við höfum sennilega ekki möguleika á að afgreiða það frá þinginu á þessum vetri. En ég býst við að hv. 6. þm. Reykn. gefist ekki upp og ég vonast til þess að áður en mörg ár líða geti þetta ágæta mál orðið að lögum.