26.04.1988
Efri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6787 í B-deild Alþingistíðinda. (4703)

472. mál, grunnskóli

Margrét Frímannsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér til þess að lýsa yfir eindregnum stuðningi mínum við þetta frv. Sá stuðningur verður til fyrst og fremst vegna þess að ég hef starfað við skóla, bæði sem kennari og foreldri og við þann skóla sem ég kenndi við var í raun og veru starfandi slíkt ráð þó að ekki væri það lögbundið. Ég hef rætt þetta við þá kennara sem nú starfa við Grunnskóla Stokkseyrar og reyndar aðra grunnskóla á Suðurlandi og beðið um umsögn sem ég hafði vonast til að flýtti fyrir því að við gætum afgreitt þetta mál út úr deildinni því að ég sé í raun ekkert sem mælir á móti því. Í tveimur skólum, sem hafa haft nefndir starfandi þar sem í eiga sæti kennarar, foreldrar og nemendur til þess að skipuleggja skólastarfið, hefur þessu frv. verið mjög vel tekið. Ég hef dreift því til kynningar í skóla á Suðurlandi.

Ég held að ef við virkilega höfum vilja til þess að samþykkja frv. sem lög frá Alþingi núna sé í raun og veru ekkert sem mælir á móti. Hins vegar ef við viljum tefja það, þá er það að sjálfsögðu auðvelt líka. En ég skora á hv. þm. í deildinni, ef þeir þurfa að leita eftir umsögnum vítt og breitt, að gefa þá stuttan tíma til skila, það ætti ekki að þurfa langan tíma til að skila inn umsögnum um þetta frv., svo jákvætt sem það hlýtur að vera öllu skólastarfi.