26.04.1988
Efri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6804 í B-deild Alþingistíðinda. (4733)

271. mál, framhaldsskólar

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Við teljum, þingmenn Borgarafl., að það sé margt mjög gott í þeim tillögum sem liggja hér fyrir hv. deild, tillögum um samstæða löggjöf fyrir framhaldsskóla og í raun var orðið mjög nauðsynlegt að slík löggjöf yrði lögð fram og samþykkt. Sú bylting sem varð um framhaldsskólann hér fyrir líklega 15–20 árum er einhver mesta bylting sem hefur orðið í skólamálum þjóðarinnar frá upphafi. Ég minnist þess þegar ég sjálfur lauk námi í Menntaskólanum á Akureyri fyrir ansi mörgum árum. Þá voru aðeins þrír skólar á landinu sem höfðu heimild til að útskrifa nemendur með stúdentspróf, en ég hef ekki tölu á öllum þeim skólum sem hafa öðlast þennan rétt nú. Þetta er jákvæð þróun, sem hefur skapað mikla fjölbreytni um menntun fyrir unglinga og ungt fólk, sem var mjög þarft og gott að fá inn í skólastefnu okkar.

Hins vegar finnst mér að okkur sárvanti að skilgreina betur hver er heildarmenntastefna þjóðfélagsins. Það er alveg nauðsynlegt að tengja betur saman skólastigin og skilgreina hvert skólastig fyrir sig og hvernig þetta hangir allt saman. Með grunnskólalögunum eins og þau voru samþykkt á sínum tíma var að vísu gert ráð fyrir með hvaða hætti grunnskólinn tengdist framhaldsskólanum þannig að þar eru sett ákvæði um með hvaða hætti nemendur öðluðust rétt til þess að setjast í framhaldsskóla. Í því frv. til l. um framhaldsskóla sem hér liggur fyrir hv. deild er reyndar að nokkru vikið að inntökuskilyrðum. Þau eru að vísu mjög rýmkuð miðað við það sem áður hefur verið og tel ég út af fyrir sig að það sé ekki nema gott eitt um það að segja.

Hins vegar vantar alveg að skilgreina tengslin við næsta stig þar fyrir ofan, þ.e. háskólastigið, fyrir utan það að háskólastigið er að verða ansi óljóst hugtak með þeim margvíslegu breytingum sem eru að verða á því skólastigi einnig. Frá því í gamla daga að við höfðum einn háskóla í landinu, Háskóla Íslands, fjölgar nú háskólum og ég verð í þessu sambandi að nota orðið „háskóli“ innan gæsalappa. Þeim fjölgar nú mjög ört án þess að við höfum nokkra samræmda löggjöf um sjálft háskólastigið. Ég vildi nú beina því til hæstv. menntmrh. og spyrja hann um hvort það sé ekki orðið tímabært að setja sérstök lög um háskólastig.

Þrátt fyrir allt hlýtur það að vera höfuðmarkmið með menntastefnu fyrir þjóðina í heild að tryggja að öllum þjóðfélagsþegnum standi til boða eins góð og fullkomin menntun og nokkur völ er á og að sjálfsögðu að hún sé við hæfi hvers og eins. En við verðum að hafa hugfast að við búum hér og eigum í samkeppni við aðrar vestrænar þjóðir og reyndar allar þjóðir heims hvað varðar þekkingu og menntun til að skapa framleiðsluvörur sem við getum selt á erlendum mörkuðum. Þar reynir að sjálfsögðu á undirstöðumenntun og þá menntun sem við fáum í skólum landsins til þess að við getum staðið okkur í samkeppninni við aðrar þjóðir. Þess vegna verður sú menntun sem er boðið upp á á Íslandi að vera jafnfullkomin og sú sem best gerist meðal nágrannaþjóða okkar.

Það hefur viljað bera á því að samræming milli þessara mismunandi skólastiga sé að hverfa þannig að með auknu frjálsræði í námi og námsbrautum, sem framhaldsskólinn getur nú boðið upp á, er t.d. orðið mjög áberandi að nemendur sem koma til náms á hinu æðsta skólastigi, þ.e. háskólastiginu, hafi ekki fengið þann undirbúning sem skyldi til að geta tekst á við háskólanám. Hér vantar betri samræmingu og að tengja þessi skólastig saman. Mig langar bara til að taka eitt lítið dæmi. Fyrir svo sem eins og 20–30 árum var nám í stærðfræði- eða náttúruvísindadeildum framhaldsskólanna með þeim hætti að það hentaði mjög vel fyrir áframhaldandi nám á háskólastigi í bæði raunvísindum og í tæknivísindum. Í dag er ástandið þannig að nemendur sem hefja nám bæði í raunvísindum og tæknivísindum við Háskóla Íslands, svo dæmi sé tekið, hafa því miður ekki fengið undirstöðumenntum á vissum sviðum sem gengið er út frá að sé fyrir hendi í því námi sem fer fram á háskólastigi. Í verkfræði og tæknivísindum er gert ráð fyrir að nemendur hafi fengið allgóða og reyndar mjög góða þjálfun í t.d. flatarmáls- og rúmmálsfræði, en nám í þessari fræðigrein hefur mjög minnkað í framhaldsskólanum svo að farið er að valda óþægindum við háskólanámið. Þannig eru mörg önnur dæmi um að það er ekkert samræmi milli þess náms sem fer fram í framhaldsskóla og þess náms sem fer fram síðar í háskóla. Það er mjög brýnt og nauðsynlegt að skilgreina þessi tengsl milli skólastiga þannig að hvert skólastig geti gengið út frá því sem vísu að það nám sem fór fram á neðra skólastiginu sé í einhverju samræmi við þær kröfur og þær forsendur sem æðra skólastigið gerir ráð fyrir.

Það er spurning hvort inntökuskilyrði fyrir nám á háskólastigi eiga heima í sérstakri löggjöf um háskólastigið eða hvort væri rétt að setja sérstök ákvæði þar að lútandi í lögin um framhaldsskólann. Mér er næst skapi að boða brtt. við frv. þar sem er fjallað um slík inntökuskilyrði fyrir háskólastigið þar sem ég óttast mjög að það verði ansi langt í land með að það fáist samræmd löggjöf um háskólastigið með nauðsynlegum skilgreiningum á forsendum fyrir námi og hverjar skuli vera kröfur til þekkingar þeirra nemenda sem hefja nám á háskólastigi. T.d. má minna á að í grunnskólalögunum er gert ráð fyrir samræmdum prófum til að fá úr því skorið hvort nemendur eigi að halda áfram námi eða þeir öðlist rétt til að halda áfram námi í framhaldsskóla. Nú er að vísu ekki lengur gert ráð fyrir þessu með því frv. til l. um framhaldsskóla sem hér er lagt fyrir. Það er mjög brýnt að þetta verði skoðað betur og það verði athugað hvort ekki sé í reynd nauðsynlegt að taka upp samræmd próf upp úr framhaldsskólanum fyrir þá nemendur sem hyggja á háskólanám.

Nú er það svo að framhaldsskólinn hefur að sjálfsögðu breyst mjög verulega undanfarin ár þannig að hann er miklu frekar orðinn skóli til þess að búa nemendur undir hin fjölbreytilegustu störf í þjóðlífinu og það er langt frá því að framhaldsskólanum sé lengur ættað það hlutverk eingöngu að búa nemendur undir háskólanám. Það er ekki nema tiltölulega lítill hluti þeirra nemenda sem ljúka námi í framhaldsskóla í dag sem fara í háskóla og ljúka þar námi. Að vísu er mjög mikið um að nemendur innritast til háskólanáms, vilja gjarnan reyna og sjá hvernig það takist, en brottfall nemenda sem hefja háskólanám er geysilega mikið. Ef ég man rétt og fer rétt með tölur held ég að ég geti sagt frá því að í verkfræði- og raunvísindadeild er vart meira en 1/4 þeirra nemenda sem innritast til náms á fyrsta námsári sem lýkur lokaprófi frá annaðhvort verkfræðideild eða raunvísindadeild. Um 75% þeirra nemenda sem hefja háskólanám í þessum tveimur deildum falla frá á 1. og 2. námsári.

Það er ekki nokkur vafi á að ef framhaldsskólanum væri sett ákvæði þess efnis að nemendum sem hyggðu á háskólanám væri gert að þreyta samræmd próf, sem yrðu þá að sjálfsögðu að vera haldin sameiginlega og undir yfirstjórn menntmrn. alveg eins og samræmdu prófin upp úr grunnskólunum hafa verið haldin, mundi það rýmka mjög til í háskólunum. Ég nefni nú aftur háskóla í fleirtölu því það hefur orðið mikil aukning á háskólum á þessu landi á seinni árum án þess að ég ætli að fara að fjalla um það sérstaklega hér.

Í flestum nágrannalöndum okkar er við lýði mjög strangt kvótakerfi varðandi inntökurétt hinna ýmsu háskóla eða öllu heldur um aðferðir til að takmarka aðgang þeirra sem ljúka prófum upp úr framhaldsskólunum til þess að komast í háskóla. Þetta mundi kannski falla ýmsum stjórnarþingmönnum vel í geð, a.m.k. þeim sem eru æstastir stuðningsmenn kvótakerfa almennt, en ég held að slík inntökukvótakerfi, sem eru notuð í nágrannalöndunum, muni ekki henta vel á Íslandi og sú aðferð, sem hefur verið notuð hingað til, að gefa flestum eða öllum þeim nemendum sem hafa áhuga á því tækifæri til að reyna og láta á það reyna hvort þeir geti þá komist í gegnum háskólanám, þeir falla þá einfaldlega ef þeir geta það ekki, sé að mörgu leyti æskilegri. Hins vegar setur þessi aðferð óeðlilega mikinn þrýsting á háskólana og er mjög fjárfrek vegna þess að gífurlegur fjöldi nemenda lýkur kannski aldrei nema einu eða tveimur missirum en það kallar á mikla aðstöðu, fjölda kennara og stór og mikil námskeið sem hugsanlega mætti hafa mun viðaminni ef einhver stýring væri á þessu. Ég tel að slík stýring væri æskileg með einmitt samræmdum prófum upp úr framhaldsskólunum og vildi beina því til hæstv. menntmrh. að hugleiða það vandamál að tengingin milli skólastiganna sé skýrari og með hvaða hætti nemendur öðlast rétt til að halda áfram á næsta skólastigi við það sem þeir hafa verið að ljúka.