26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6820 í B-deild Alþingistíðinda. (4747)

202. mál, Háskólinn á Akureyri

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég get næstum látið duga að gera síðustu orð hæstv. menntmrh. að mínum. Erindi mitt hingað er fyrst og fremst að fagna því með fáeinum orðum að langþráður draumur er nú að rætast okkur Norðlendingum um að háskólanám komist á legg í þeim landshluta. Vissulega er Háskólinn á Akureyri að slíta barnsskónum. Það er rétt að hafa það í huga í allri umræðu um þá stofnun, hvort sem ræddar eru vísindalegar rannsóknir eða annað. En lagastoð er þessari starfsemi bráðnauðsynleg og í því efni er mikilvægara að það fáist staðfest í lögum að háskólanám sé hafið og skuli vera til staðar á Norðurlandi, mikilvægara segi ég en að ná endanlegri fullkomnun við lagasmíðina í fyrstu atrennu. Það er sjálfsagt rétt að hér eru mörg álitamál sem út af fyrir sig getur verið fullkomlega eðlilegt að skoða, en ég held ég leyfi mér þó að fullyrða að frv. sé ágætlega nothæft og skili þeim tilgangi sínum að skapa Háskólanum á Akureyri starthæfa lagastoð. Það er í raun og veru megintilgangurinn.

Ég er alveg sammála þeim sem hafa bent á nauðsyn þess að taka málefni háskólanáms í heild sinni í landinu til skoðunar. Þar þarf að mínu mati að svara mörgum spurningum. Það sem talsvert hefur velkst fyrir mönnum í sambandi við Háskólann á Akureyri er að mínu mati broslegt smáatriði, þ.e. hvort nafnið sé rétt. Ef menn vilja fara út í heimspekilegar eða fræðilegar vangaveltur um hvað sé akademía og hvað megi þýða á íslensku sem háskóli stendur út af fyrir sig ekkert á mér að taka þátt í því. Ég má kannski leyfa mér að fullyrða, herra forseti, að ég sé einn af þeim hv. alþm. sem þekkja af eigin raun Háskóla Íslands einna best, enda nýkominn þaðan úr námi eftir nokkurt árabil.

Ég gæti farið líka þá út í þá umræðu að hve miklu leyti við getum leyft okkur, Íslendingar, að kalla sjálfan Háskóla Íslands akademíu, hvort við búum þannig að þeirri starfsemi að við getum með höfuðið hátt sagt að þar sé akademía landsins. Ég verð að leyfa mér að draga í efa að ýmsar deildir Háskóla Íslands búi við þau starfsskilyrði, þær aðstæður og þann kost að hægt sé að fullyrða það með réttu.

Ég skil mjög vel áhyggjur þeirra manna sem í sínum daglegu störfum, hvort heldur er í Háskóla Íslands eða annars staðar í menntakerfinu, finna brenna á sér þá staðreynd að við búum ekki nógu vel að æðri menntun í landinu. Áhyggjur slíkra yfir því að við séum að dreifa kröftunum um of meira en við höfum efni á eru mjög eðlilegar. En þær taka mið af þeirra staðbundnu aðstæðum og erfiðleikum og breyta ekki hinu að tíminn verður ekki stöðvaður. Það er þróun í ákveðna átt. Ég er svo hjartanlega sannfærður um að þróunin liggur í þessu efni í þá átt að nám á háskólastigi, að háskólar færast nær fólkinu í reynd, enda er sem betur fer ýmislegt í tækniþróun og framförum sem auðveldar þann möguleika. Því getur naumast nokkur maður á móti mælt sem kynnt hefur sér þróun í fjarskiptum, tölvutækni og einfaldlega bættum samgöngum að möguleikarnir til að færa æðra nám nær fólkinu hafa margfaldast í krafti þessa.

Það er kannski leyfilegt, herra forseti, að rifja upp í þessu sambandi þá umræðu og þær dellur sem urðu fyrir áratugum þegar menn deildu hart um hvort íslenska þjóðin hefði efni á því að starfrækja menntaskóla í landinu á fleiri en einum stað. Það er sjálfsagt hollt fyrir ýmsa hv. alþm. að rifja upp fyrir sér að það er innan þeirrar aldar sem nú er að líða að menn stóðu í hörkudeilum um hvort íslenska þjóðin gæti dreift svo kröftum sínum hvað framhaldsmenntun varðaði að vit væri í að starfrækja fleiri en einn menntaskóla. Þá voru uppi ýmsar efasemdir einnig sem mætti líkja við þær vangaveltur sem nú eru um nafngiftina á Háskóla Akureyrar, hvort hann megi heita akademía. Menn höfðu til að mynda á sínum tíma ekki meiri trú á fræðimönnum norðan heiða en svo að þeim var ekki treyst til að prófa stúdenta fyrstu árin sem Menntaskólinn á Akureyri starfaði. „Veskú“ skyldu norðanmenn ríða að norðan suður heiðar til að vera prófaðir í Menntaskólanum í Reykjavík. Þannig gekk þetta til fyrstu árin. Hins vegar stóðu norðanmenn sig ágætlega og fengu góðar einkunnir. Meðal annars í ljósi samanburðarfræðanna höfðu sunnanmenn ekki mjög lengi áhuga á því að halda þessu fyrirkomulagi og fljótlega var norðanmönnum treyst til að prófa stúdenta.

Þetta virkar kannski broslega fyrir mönnum nú, en kannski fer svo að eftir ca. jafnlangan tíma og nú er liðinn frá því að þessi ár voru, þegar Menntaskólinn á Akureyri var að slíta sínum barnsskóm, verði mönnum svipað í hug þegar rætt verður um þau ár sem nú líða og eru þau fyrstu sem Háskólinn á Akureyri starfar.