26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6828 í B-deild Alþingistíðinda. (4754)

Frumvarp um viðskiptabanka

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. 1. þm. Norðurl. v. vil ég taka fram að það er rétt að leiður misskilningur kom upp varðandi samþykki þingflokks Framsfl. fyrir því að leggja frv. fram sem stjfrv. Fulltrúi þingflokksins í þeirri nefnd sem fjallar um löggjöf um fjármagnsmarkaðinn, hv. 10. þm. Reykv., sem því miður er úr salnum genginn, óskaði eftir því á þingflokksfundi að málið fengi umfjöllun í nefndinni og var það reyndar í samræmi við tilmæli mín á fundi með nefndarmönnum í þeirri nefnd. Frv. var svo lagt fyrir þessa fjármagnsmarkaðsnefnd. Þar var því breytt lítillega og síðan aftur sent þingflokki Framsfl. og öðrum stjórnarflokkum. Starfsmenn mínir og ég sjálfur stóð í þeirri trú að þingflokkurinn hefði samþykkt frv. að þessu loknu til framlagningar sem stjfrv., en nú virðist sem ekki hafi verið fyllilega á þá leið. Það er hins vegar mín von að þetta valdi ekki ágreiningi og að frv. fái eðlilega meðferð sem stjfrv., enda er það í fullkomnu samræmi við starfsáætlun stjórnarinnar og ekki um það ágreiningur að nauðsynlegt sé að breyta vissum greinum viðskiptabankalaganna þótt skiptar skoðanir kunni að vera eins og jafnan er um einstakar greinar þessa frv.