26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6829 í B-deild Alþingistíðinda. (4757)

Frumvarp um viðskiptabanka

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég harma að umræðum skyldi hætt um það frv. sem hér liggur fyrir á dagskrá og er tekið til umræðu og ráðherra einn fær þá að tala. Að slíta í sundur umræður um stórmál sem þetta er afskaplega óþægilegt og tillitsleysi við stjórnarandstöðuna sem hefur þó nokkuð að segja um þessi mál því að ég hefði talið eðlilegt að umræða um viðskiptabanka almennt kæmi í beinu framhaldi af framsögu ráðherra. Annað er óeðlilegt.

Það er nú upplýst að það er ekki stjfrv. sem hæstv. ráðherra talar fyrir sem stjfrv. Það út af fyrir sig er ekkert nýtt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að horfa upp á sundurlyndi stjórnarliða. Oftast hefst það nú með skoðanamun á milli ráðherra. — Mér þætti vænt um ef hæstv. viðskrh. hlustaði á það sem ég er að segja því að það snertir það mál sem hann biður okkur um að hugsa og ræða um. Það er minnsta kurteisi sem hann getur sýnt stjórnarandstöðunni að vera ekki að tala við aðra þingmenn meðan við erum að ræða þessi mál sem dagskrármál.

Ég hefði viljað halda áfram í beinu framhaldi og ræða þá um fyrirkomulag sparisjóða t.d. sem eru gersamlega ábyrgðarlausir gagnvart sínum viðskiptavinum miðað við þær ábyrgðir sem viðskiptabankar hafa. En það er ekki hægt.

Ég hefði líka, hæstv. forseti, viljað ræða í framhaldi af þessum málalokum þessarar ræðu ráðherra um framhald dagskrár þingsins. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin stefnir núna að því að losna við umræðurnar, losna við dagskrármálið, losna við stjórnarandstöðuna sem allra fyrst úr sölum þessa húss vegna þess að á dagskrá eru mál sem eru þess eðlis að stjórnarliðið er ekki sammála. Ríkisstjórnin nær ekki fram afgreiðslu á þeim málum sem hún hefur kynnt okkur í stjórnarandstöðunni sem stjfrv. og er það mál sem nú er verið að taka af dagskrá eitt áþreifanlegt dæmi um að ríkisstjórnin hefur ekki fylgi með stjfrv. sem hún hefur lagt fram á fölskum forsendum, eins og þetta mál.

Formaður þingflokks framsóknarmanna hefur lýst því yfir að þetta mál hafi ekki hlotið afgreiðslu í Framsfl. og sé þar af leiðandi ekki lagt fram undir merkjum ríkisstjórnarinnar eða með samþykki Framsfl., þó svo að ég sé alveg sannfærður um það að þegar til lokaafgreiðslu kemur verður Framsfl. píndur til að láta út meira loft en hann gerði um síðustu helgi og samþykkja frv.

Ég tel þetta vísbendingu um þörfina sem stjórnarliðið eða ríkisstjórnin hefur til að losna við okkur úr sölum Alþingis sem allra fyrst. Það er ekki samstaða um stjfrv. og þess vegna þarf ríkisstjórnin að fá að vera í friði með að setja brbl. að vild og láta svo á það reyna þegar Alþingi kemur saman á ný hvort stjórnarliðið stendur með þeim eða stendur ekki með þeim, hvort hún gerir ríkisstjórnina óábyrga með sín brbl. Þetta er áreiðanlega ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin vill nú slíta þingi sem allra fyrst.

Ég harma að ekki skuli vera hægt að ræða frv. sem er á dagskrá, og er nú verið að taka út af dagskrá, í samhengi því þetta er stórt mál og það er nauðsynlegt að ræða það í samhengi m.a. vegna þeirra ráðstafana sem ríkisstjórnin hefur gert til að eyðileggja einn ríkisbankann gersamlega, sem er Útvegsbankinn, með því að taka til sín eftir ráðstafanir, sem eru rangar um þann banka, 2000 millj. kr. af tapi bankans undanfarin mörg ár. Ég vildi gjarnan fá að ræða þau mál í samhengi við það frv. sem hér liggur fyrir um viðskiptabankana almennt, en það virðist ekki vera hægt.