26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6830 í B-deild Alþingistíðinda. (4760)

423. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Við 1. umr. um þetta frv. til l. um heimild til hækkunar á hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum hélt ég því fram að upplýsingar sem hæstv. bankamálaráðherra gaf þá um að þessi viðbótarfjárfesting í hlutabréfum Alþjóðabankans væri einungis til þess að auka framlög til hinna þurfandi þjóða þriðja heimsins væru rangar og að stærstu útlán bankans væru til þjóða sem væru að hervæðast og stæðu yfirleitt í óeirðum og m.a. framleiðslu á atómsprengjum o.fl. sem er eitthvað það kostnaðarsamasta sem stórþjóðirnar standa í á þessu augnabliki og hafa gert í mörg undanfarin ár.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að beita sér fyrir því að sá listi sem ég bað um var lagður fram í hv. fjh.- og viðskn. og staðfestir það, sem ég hélt, að það væri ekki bara af manngæsku eða kvennapólitík, eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra, sem þessi viðbót um helming á eign Íslands í hlutabréfum Alþjóðabankans var lögð til. Á þessum lista segir, með leyfi forseta, ég ætla að lesa þetta upp, svohljóðandi:

„Í framhaldi af umræðum í Nd. Alþingis hinn 12. þ.m. um frv. til l. um heimild til hækkunar á hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum, þskj. 773, sendist hér með í samræmi við loforð Jóns Sigurðssonar viðskrh. viðbótarupplýsingar um Alþjóðabankann. Hér er nánar tiltekið um að ræða upplýsingar úr ársskýrslu bankans fyrir árið 1987, m.a. forgangsröðun verkefna, helstu tölfræðilegar upplýsingar um fjárhagsárið 1987 og listi yfir lánveitingar til einstakra landa.

Í gögnum þessum kemur m.a. fram að Alþjóðabankinn lánaði þróunarlöndum á árinu 1987 röska 14 milljarða dala og Alþjóðaframfarastofnunin, systurstofnun Alþjóðabankans, um 31/2 milljarð dala eða samtals 18 milljarða dala. Um 17% útlána þessara stofnana runnu til orkumála og 17% til landbúnaðarmála. Alþjóðabankinn lánaði 39 löndum á árinu, en Alþjóðaframfarastofnunin 44 löndum.

Helstu lántakendur hjá Alþjóðabankanum voru Indland, Mexíkó og Brasilía, en helstu lántakendur hjá Alþjóðaframfarastofnuninni voru Indland, Kína og Bangladesh.

Lán til fátækustu þróunarlanda þar sem þjóðartekjur á mann eru undir 400 dollurum á ári námu um 61/2 milljarði af um 171/2 milljarði dala sem þessar tvær stofnanir lánuðu á árinu eða röskum þriðjungi. Fátæk Afríkulönd sunnan Sahara hlutu sérstaka fyrirgreiðslu.

Aðildarríki Alþjóðabankans eru 151, en Alþjóðaframfarastofnunarinnar 135. Á listanum yfir helstu lántakendur kemur fram að til 30. júní 1987 hefur Alþjóðabankinn lánað alls 120 milljarða dala og meðal helstu lántakenda eru sem hér segir í milljörðum dala.“

Og síðan kemur: „Stærsta lánið var“ — eins og ég hélt fram við 1. umr. — „til Brasilíu 12,7 milljarðar dala, til Indlands 11,4 milljarðar dala, til Indónesíu 10,2 milljarðar dala, til Mexíkó 8,9 milljarðar dala, Tyrklands 8 milljarðar, lýðeldisins Kóreu 5,6, Kólumbíu 5 milljarðar, Filippseyja 4,2 [þetta er allt í milljörðum dala]. Til Júgóslavíu 3,7 milljarðar, Kína 3,6 og til Nígeríu 4,7.

Að sjálfsögðu renna lán Alþjóðabankans og Alþjóðaframfarastofnunarinnar til ótal landa og ótal málefna. Vísa má sérstaklega í ofangreint lagafrv. þar sem segir að lánveitingar Alþjóðaframfarastofnunarinnar, sem eru einkum til verst stöddu þróunarlanda og á mjög hagstæðum kjörum, hafi m.a. greitt fyrir grænu byltingunni á sínum tíma. Nánari upplýsingar fást í hjálögðu riti, „The World Bank and International Finance Corporation“. Það plagg hef ég ekki haft tíma til að lesa.

Ég sé ekki betur en að ráðherra sé, með því að leggja þetta fram, að staðfesta það sem ég var að vara við, að þetta viðbótarhlutafé Íslands sem á að fara í Alþjóðabankann eigum við ekki til. Við verðum að taka það að láni. Til viðbótar við þau erlendu lán sem við þurfum að taka til eigin nota þurfum við að taka að láni erlendis það fé sem við notum hér, hvort sem við gerum það með því að skuldbinda okkur á einhvern hátt hjá Alþjóðabankanum sjálfum og borga það smátt og smátt eða borgum það allt í einu, það kemur út á eitt. En það er verið að skrifa okkur fyrir meiri lánum en við höfum efni á að nota til þess arna.

Hver eru svo þessi lönd? Efstu löndin þarna eru lönd sem standa í þeim framkvæmdum á hernaðarsviði sem ég gat um. Sum þeirra, eins og Kólumbía, eru mikið í fréttum hjá okkur jafnvel daglega í sambandi við framleiðslu og dreifingu á eiturlyfjum um veröldina. Filippseyjar með sín innanlandsvandamál og hernaðarástand í mörg ár. Svona má lengi telja, hvort sem það er Mexíkó eða önnur ríki sem hér eru talin upp.

Ég vil því enn þá einu sinni þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar. Ég vil enn þá einu sinni benda á að þær staðfesta það sem ég hef sagt og ég vil enn þá einu sinni benda á og undirstrika sérstaklega að við erum hér að taka að láni erlendis, hvort sem við erum skrifuð fyrir því og fáum að borga á löngum tíma eða tökum það allt í einu, til þess að Alþjóðabankinn geti notað það sem fyrst fyrir hin fátæku herveldi, skulum við segja. Við skulum ætla þeim að þeir séu að lána okkar peninga sérstaklega, að þeir séu teknir út úr sjóðum sérstaklega og sagt: Þetta eru peningar frá Íslandi. Þeir mega ekki fara inn til Brasilíu, þeir mega ekki fara til þeirra landa sem standa í hernaði, sem standa í atómuppbyggingu. Þeir skulu fara til þeirra sem þurfa á mat að halda.

Ég held að það gangi ekki svona fyrir sig, ég held að þessir peningar fari inn í púlíuna sem fjármagnar í heild sinni það sem Alþjóðabankinn stendur í frá einum tíma til annars. Ég tel sem sagt að bak við þessa fjárfestingu liggi ekkert annað en sá flottræfilsháttur sem fylgir okkur Íslendingum sem einstaklingum og sem heild, að vera þátttakendur í því sem við höfum ekki efni á að vera þátttakendur í. Við skulum varast það.