26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6832 í B-deild Alþingistíðinda. (4761)

423. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en get þó ekki orða bundist út af ræðu hv. 5. þm. Reykv. Það er sannfæring mín að með því að auka hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum erum við að vinna á raunhæfan hátt að stuðningi við fátækustu manneskjurnar í heiminum, við fátækustu þjóðirnar í heiminum og fátækasta fólkið í þeim stóru þjóðlöndum sem hv. 5. þm. Reykv. nefndi áðan og sum hver hafast að hitt og þetta sem við vildum ekki að þau gerðu. Alþjóðabankinn er alls ekki að styðja stríðsrekstur eða gróðabrall. En við megum ekki gleyma örbirgðinni sem ríkir í þessum stóru löndum hjá miklum fjölda manna.

Ég vildi líka benda á annað atriði tæknilegs eðlis. Lánastaðan í lok síðasta fjárhagsárs bankans sýnir háan hlut hjá þessum miðlungi illa stæðu löndum vegna þess að á fyrri árum voru þau mjög stórir lántakendur. En nú, eins og kom reyndar fram í bréfinu sem hv. 5. þm. Reykv. las, hefur vaxandi hluti lánsfjárins beinst til hinna allra fátækustu þjóða og það sem meira er um vert, áætlanirnar sem bankinn styður og framkvæmdirnar sem hann lánar til, eru nú miklu fremur markviss stuðningur við fátækasta fólkið í öllum þróunarlöndum en áður var.

Það er sannfæring mín að 250 þúsund manna vel stæð þjóð sem á við tímabundna efnahagsörðugleika að etja geti ekki gert betri hlut en beita því lánstrausti sem við höfum til þess að hafa milligöngu um fjárútvegun til þessa fólks. Það er tilgangur þessa frv. og á endanum erum við svo sannarlega borgunarmenn fyrir slíkum stuðningi.

En ég tek undir það með hv. 5. þm. Reykv. að við verðum að gera allt sem við getum til að hafa áhrif á þetta stóra skip, Alþjóðabankann, til að sveigja hann í þá átt sem mér finnst vaka í hans máli og er í anda mannúðar og mildi, anda hjartagæsku og samúðar með þeim sem eru bágstaddir í veröldinni. Það er tilgangur Alþjóðabanka, og ég vona að á endanum muni hv. 5. þm. Reykv. styðja þessa till. Ég vil að lokum þakka hv. fjh.- og viðskn. fyrir afgreiðslu málsins og greinargóða meðferð á því.