26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6835 í B-deild Alþingistíðinda. (4764)

423. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég get ekki orða bundist vegna þeirra athugasemda sem hér komu fram hjá hv. 5. þm. Reykv. Þannig stendur á að ég er að setja punktinn aftan við skýrslu um svokallað norður/suður-átak Evrópuráðsins sem ákveðið hefur verið núna á þessu ári að gert skuli. Við vorum nokkrir þm. á fundi Evrópuráðsins nú á öndverðu þessu ári þar sem átta nefndir þessarar stofnunar skiluðu mjög vönduðu verki um fyrirkomulag aðstoðar og samstarfs milli norðlægra þjóða og suðlægra og aðstoðar hinna bjargálna norðurríkja við hin fátæku, suðlægu lönd. Þar er bent á mörg einstök verkefni sem eru mjög áþreifanleg og skiljanleg. Ég hygg því að það skýrist mjög fyrir mönnum hvað við er að eiga þegar rætt er um þau mál sem hæstv. ráðherra vék hér að. Eitt af þeim málum sem þarna kemur til greina er einmitt aðgangur að lánsfé auk þekkingar, þjálfunar og búnaðar, og kannski fyrst og fremst í sambandi við landbúnað hinna suðlægu ríkja.

Ég mun ekki tefja þessa umræðu, herra forseti. Ég vildi aðeins skýra frá þessu í stórum dráttum. Ég geri ráð fyrir að þessari skýrslu okkar verði útbýtt á Alþingi nú á morgun. Ég hvet til þess að hv. þm. sem ekki hafa fylgst með þessum umræðum nú í vetur — sem ekki er von, það hefur harla lítið verið frá þeim sagt — kynni sér hvað í þessu felst. Átakinu er skipt á milli efnahagslegra verkefna, fjárhagsaðstoðar, verkefna á sviði menningar og menntamála, verkefna á sviði landbúnaðarmála, fiskveiða og tækniaðstoðar. Svo og er sérstök áhersla lögð á það að aðstoðin þurfi, kannski einkum og sér í lagi á sviði landbúnaðar, að beinast að konum að því er Afríku varðar. En nefndirnar komust að þeirri niðurstöðu að stærstu verkefnin væri tvímælalaust í Afríku og 80% allra þeirra matvæla sem framleidd eru í Afríku eru framleidd af konum.

Það er því ljóst að þessi aðstoð þarf fyrst og fremst að miðast við fólkið sjálft og þá menningarheild sem það er hluti af, þann menningararf sem það býr að, þannig að aðstoðinni sé hagað á þann veg, eins og einhver benti hér á áðan — ég held að það hafi verið hv. 13. þm. Reykv. — að þeir sem hana fá geti notfært sér hana. Meginatriðið er þetta, að við stöndum sameiginlega að því að taka þátt í því verkefni sem unnið er víða um heim í því skyni að auka samstarf og samstöðu hinna norðlægu og suðlægu ríkja því að við lifum ekki í tveimur andstæðum eða óvinveittum heimum, norður- og suðurhvel jarðar, heldur búum við í einum og sama heiminum.