26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6837 í B-deild Alþingistíðinda. (4766)

423. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kann því illa að mér sé borin á brýn óhollusta við aðra þm. eða stjórnmálamenn þegar það kemur ekki fram í máli mínu að hugur minn sé eins fanginn af persónu Ólafs Ragnars Grímssonar og hugur hv. 13. þm. Reykv. Sannleikurinn er sá að fyrrverandi forseti Evrópuráðsþingsins og formaður vestur-þýsku sendinefndarinnar þar, Karl Ahrens, tjáði mér það núna í vetur að hann ásamt Ólafi og sjálfsagt einhverjum fleirum hefði unnið að þessu máli. Ahrens var þá forseti þingsins og hafði því ákaflega mikil áhrif á það hvað yrði um þetta mál. Ég gerði það vísvitandi að fara ekki að nefna alla þá mörgu aðila sem hér lögðu hönd að verki. Ég var að gera grein fyrir nefndastarfinu sem var unnið löngu eftir að Ólafur Ragnar Grímsson yfirgaf sali í Evrópuráðinu. Þar lögðu hönd að verki tugir manna, mjög mikla vinnu.

Vegna þess að hér er um afar vandaða vinnu að ræða tel ég nauðsynlegt að þeir sem á annað borð hafa áhuga á þessum málum geti kynnt sér þetta. Það getur orðið bæði okkur og þessum þjóðum sem í verkefninu tóku þátt mjög til leiðbeiningar um það hvernig beri að haga aðstoð við þessi ríki. Það er ekki aðeins Evrópuráðið sem að þessu stendur heldur er unnið að þessu verkefni í samstarfi við Evrópubandalagið. Það er því afar víðtækt samstarf um þetta.

En úr því að farið er að nefna íslenska stjórnmálamenn í þessu sambandi þá eru hér á Alþingi nú stjórnmálamenn sem unnið hafa mikilvægt verk í nefndum í þessum málum. Skal þá fyrst frægan telja sjálfan forseta Sþ. Mér verður litið á hv. þm. Kjartan Jóhannsson sem hefur unnið mikilsvert starf í landbúnaðarnefndinni. En einmitt á sviði þeirrar nefndar er geysilega þýðingarmikið verk unnið í þessu skyni. Mér verður litið hér á hv. þm. Hreggvið Jónsson sem lagt hefur hönd á þennan plóg og hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur sem er í nefnd sem fjallar um samskipti ríkja Evrópuráðsins og ríkja utan ráðsins. Svona mætti áfram telja og er ég satt að segja of nýkomin til starfs í Evrópuráðinu til að geta talið upp alla þá sem þarna hafa komið við sögu af íslenskum þm. öðrum.

Allt þetta vildi ég nefna til að undirstrika að hér hafa margar hendur verið lagðar á plóginn og mikil vinna liggur hér að baki og margar skynsamlegar till. Ekki ber samt að vanmeta þá till. sem flutt var á sínum tíma um að þetta yrði rætt og að því unnið í Evrópuráðinu eins og gert var á umræddri ráðstefnu fyrir allmörgum árum. En það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan.