26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6839 í B-deild Alþingistíðinda. (4770)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 883 frá meiri hl. félmn. um frv. til l. um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60/1984, með síðari breytingum.

Áður en ég fer yfir nál. vil ég aðeins geta um bakgrunn þessa máls sem mikið hefur verið til umræðu í þjóðfélaginu eins og hv. alþm. allir vita. Sá bakgrunnur sem ég vil nefna hér er það samkomulag sem formenn stjórnarflokkanna núverandi gerðu og er dagsett 3. júlí sl. Þar er um að ræða samkomulag sem er bindandi fyrir stjórnarflokkana. Í því samkomulagi er gert ráð fyrir að í húsnæðislöggjöf komi ákvæði þess efnis að sveitarfélög, félög eða einstaklingar sem vilja byggja íbúðarhús með það fyrir augum að bjóða íbúðir með kaupleigukjörum njóti lánsfyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði ríkisins með sömu lánakjörum og þar gilda.

Í öðru lagi verði sett sérstakt lagaákvæði um kaupleiguíbúðir fjármagnaðar úr Byggingarsjóði verkamanna og nánari reglur um framkvæmd þeirra settar að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins og Samband ísl. sveitarfélaga.

Í þriðja lagi að gerð verði þriggja ára áætlun, byggingaráætlun og fjármögnun, um byggingu kaupleiguíbúða á vegum sveitarfélaga eða félagasamtaka að undangenginni sérstakri könnun og fjöldi kaupleiguíbúða á ári hverju verði ákveðinn með hliðsjón af heildarframlögum í byggingarsjóðina.

Enn fremur ákvað ríkisstjórnin að veita sveitarfélögum sérstaka lánafyrirgreiðslu til að standa straum af 15% byggingarkostnaðar eða kaupverðs. Þessi lánafyrirgreiðsla má nema umsaminni fjárhæð á þremur árum sem var 100 millj. Síðan er umsamið að lán þessi verði veitt þeim sveitarfélögum og eða félögum sem samkvæmt könnun þurfa mest á þeim að halda og skulu lánskjör, fyrirgreiðsla og skipting fjármagns ákveðin fyrir fram.

Enn fremur er í þessu samkomulagi, sem er bakgrunnur þessa máls, gert ráð fyrir að fram fari heildarendurskoðun á lögum, fjármögnun og skipulagi félagslega húsnæðislánakerfisins og í nefndinni verði einnig fulltrúar sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.

Mér þótti, herra forseti, rétt að koma aðeins inn á þetta þar sem það lýsir að nokkru leyti þeim viðhorfum sem fram hafa komið í umræðum um þetta mál og raunar inn á nál. sem hér er til umræðu.

Ég vil svo, herra forseti, fara í gegnum nál. eins og það liggur fyrir á þskj. 883.

Þar kemur fram að nefndin sendi þetta frv. til umsagnar fjölda aðila með skilafresti 30. mars sl. Þessir aðilar eru taldir upp í nál., en þeir voru Húsnæðisstofnun ríkisins, Samband íslenskra sveitarfélaga, sveitarfélögin í landinu og samtök þeirra, ASÍ, BSRB, VSÍ, VMSS, Landssamband lífeyrissjóða, Samband almennra lífeyrissjóða, Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Samtök aldraðra, Stúdentaráð Háskóla Íslands, Bandalag sérskólanema, Leigjendasamtökin, Búseti, stjórnir verkamannabústaða í Reykjavík, á Akureyri, í Kópavogi, í Hafnarfirði og á Ísafirði.

Svör hafa borist frá 14 aðilum og það vakti athygli í nefndinni að þessi svör bárust yfirleitt seinna en fresturinn gerði ráð fyrir og hafa verið að berast alveg fram á þennan dag. En það vekur athygli og nefndinni þótti rétt að það kæmi fram að ekki hafa borist svör frá Húsnæðisstofnun ríkisins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, samtökum atvinnurekenda, Landssambandi lífeyrissjóða og frá mjög fáum sveitarfélögum hafa borist svör. Virðist því lítill áhugi á frv. Umsagnir, sem borist hafa, fylgja sérprentaðar með áliti þessu. Það var talið eðlilegt að það yrði gert þar sem ekki vannst tími til þess að fara mjög nákvæmlega í umsagnirnar og er sjálfsagt að hv. þm. fái þannig möguleika til að fara ofan í umsagnir hverja fyrir sig.

Af þeim svörum, sem borist hafa, má draga þá ályktun að flestir telji að frv. geti verið spor í rétta átt, ekki síst með hliðsjón af skorti á leiguíbúðum. Þá kemur fram að margir álíta að tengja hefði átt afgreiðslu þessa frv. endurskoðun á húsnæðiskerfinu í heild, einkum félagslega kerfinu.

En eins og ég lýsti hér í upphafi voru það formenn stjórnarflokkanna sem gerðu formlegt samkomulag í sambandi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að sett yrðu sérstök ákvæði í húsnæðislöggjöf um kaupleiguíbúðir á yfirstandandi þingi og ákveðin í fjárlögum og lánsfjárlögum, eins og hv. þm. sjálfsagt vita, sérstök fjárveiting til útdeilingar á þessu ári til byggingar kaupleiguíbúða eða fjárveiting sem er mörkuð í lánsfjárlögum og fjárlögum en undir Byggingarsjóði verkamanna.

Í nál. kemur fram að einstakir nefndarmenn meiri hl. draga í efa mikilvægi þessa frv., svo sem að það valdi straumhvörfum í húsnæðiskerfinu, og telja að eðlilegra hefði verið að fresta afgreiðslu þess og tengja það heildarendurskoðun húsnæðismála, ekki síst félagslega kerfisins. En með hliðsjón af því sem ég hef áður sagt telur meiri hl. hins vegar rétt að afgreiða þetta frv. í samræmi við skuldbindingu formanna flokkanna og leggur því til að frv. verði samþykkt með breytingum sem eru á sérstöku þingskjali.

Minni hl. nefndarinnar skilar sérálitum. Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar og mun gera grein fyrir afstöðu sinni við umræður um málið.

Undir þetta álit skrifa, auk formanns, Geir H. Haarde, Birgir Dýrfjörð, Eggert Haukdal og Jón Kristjánsson.

Eftir að þessi lokaafgreiðsla málsins frá nefndinni var gerð barst hingað í Alþingi umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga sem því miður hafði ekki séð sér fært af einhverjum ástæðum að taka þetta mál til meðferðar fyrr en rúmum þremur vikum eftir að skilafrestur var liðinn. Mér þykir rétt að láta kom fram, þó það breyti ekki afstöðu félmn. til málsins, að sambandsstjórn samþykkir að mæla eindregið með samþykkt frv. með þeim breytingum sem stjórnin gerir. Þessar breytingar eru átta talsins og ég held að það sé óhætt að segja að þessar breytingar eru allróttækar. Þær gera allar ráð fyrir að létta verulega skyldu og ábyrgð sveitarfélaganna í þessum málaflokki og spegla þar með viðhorf sveitarfélaga sem telja sig ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að leggja fram fjármagn og vex í augum miðað við þetta að bera ábyrgð á slíkri fjárfestingu um langan tíma. Það er að mínu mati slæmt að fá þessa umsögn svona seint. Hins vegar er einnig þversögn í því þar sem sveitarfélögin sýndu í þeirri könnun sem félmrn. lét gera á sl. ári miklu meiri áhuga á þessu máli og það hefur hvergi komið fram í meðferð þessa máls að sveitarfélögin vildu ekki axla þá ábyrgð sem þetta kerfi leggur á hendur sveitarfélaga og annarra félagasamtaka sem vilja stuðla að því að leysa húsnæðismálin á þennan hátt. E.t.v. má tengja þetta viðhorf til umræðu í sveitarfélögum um að tekjustofnar þeirra séu rýrari en þau hafa áður gert ráð fyrir.

Mér þótti rétt að geta um þetta þó það breyti ekki, eins og ég sagði áðan, viðhorfi meiri hl. félmn. til afgreiðslu málsins á þessu stigi. Hins vegar er rétt að benda á að það var gert ráð fyrir því að kaflinn um félagslega þáttinn í sambandi við kaupleiguíbúðir væri saminn í samráði við samtök sveitarfélaga í landinu og þess vegna kemur þetta viðhorf að nokkru leyti á óvart.

Ég vil einnig koma inn á þær brtt. sem eru á þskj. 884 og eru brtt. meiri hl. félmn. Þær eru þrjár.

Sú fyrsta er við 4. mgr. a-liðar 30. gr. eins og hún er í frv., en þessi setning í frv. er þannig: „Með fyrirtækjum er átt við einstaklinga, félög og aðra aðila sem reka sjálfstæða starfsemi.“

Brtt. felur í sér að hér er skilgreint nánar hvað við er átt og lagt til að orðist svo: „Fyrirtæki, sem hér er átt við, geta verið einstaklingar, félög og aðrir aðilar sem reka sjálfstæða starfsemi og þurfa af brýnni nauðsyn að koma upp íbúðarhúsnæði vegna starfsemi sinnar.“

Önnur brtt. er við e-lið 34. gr., en þar er gert ráð fyrir að framkvæmdaaðilar, sem fá lán úr Byggingarsjóði ríkisins til almennra kaupleiguíbúða, þ.e. annars vegar lán sbr. 13. og 14. gr., 70%, og hins vegar sérstakt lán til kaupleiguíbúða, 15%, sbr. 31. gr., skuli sjá um að afla 15% af kostnaðarverði eða kaupverði íbúðar t.d. með sölu skuldabréfa.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að niðurlag 1. mgr. falli brott, það er „t.d. með sölu skuldabréfa“, og telur ekki þörf á því að hafa þetta ákvæði inni.

3. brtt. er við j-lið 39. gr. Þessi grein eins og hún er í frv. er þannig orðuð:" Kaupandi greiðir kaupverðið, sbr. 1.–3. tölul. 3. mgr. þessarar greinar, til framkvæmdaaðila með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, þó að undanskildu 15% láni úr Byggingarsjóði ríkisins er greiðist til framkvæmdaaðila á fimm árum samkvæmt nánari reglum er settar skulu í reglugerð. Framkvæmdaaðili skal sjá um að greiða afborganir af láni/lánum Byggingarsjóðs ríkisins til sjóðsins þar til afsal er gefið út.“

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að þarna verði gerð á breyting sem komi í veg fyrir að þeir aðilar sem þarna fá sérstaka lánafyrirgreiðslu og ætla að kaupa þessar íbúðir samkvæmt kaupleigusamningum fái betri kjör en almennt eru í boði á almenna markaðnum, eins og raunar undirstrikað er í samkomulagi formanna flokkanna, þar sem gert er ráð fyrir að þessir aðilar njóti lánafyrirgreiðslu hjá Byggingarsjóði ríkisins með sömu lánakjörum og þar gilda. Þess vegna er þessi breyting gerð og þá hljóðar þessi liður 39. gr. þannig:

„Kaupandi greiðir kaupverðið, sbr. 1.–3. tölul. 3. mgr. þessarar greinar, til framkvæmdaaðila með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, þó að undanskildu 15% láni úr Byggingarsjóði ríkisins er skal gjaldfellt og endurgreitt framkvæmdaaðila á fimm árum á sömu kjörum og gilda um skuldabréfakaup lífeyrissjóða hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Framkvæmdaaðili skal sjá um að greiða afborganir af láni eða lánum Byggingarsjóðs ríkisins þar til afsal er gefið út.“

Það er sem sagt verið að fullnægja þessu ákvæði samkomulags formannanna um að það verði sömu kjör og í almannakerfinu.

Í grg. frv. og raunar ræðum hæstv. ráðherra hefur komið fram að ef frv. þetta verður að lögum muni það fyrst og fremst greiða fyrir aukningu bygginga á íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni. Ég tel rétt, herra forseti, að undirstrika þessa staðhæfingu og láta í ljós að fylgst verður með hvernig við þetta verður staðið. Það þarf ekki að rökstyðja það, við viðurkennum það, að víða úti um landsbyggðina eru vandamál í sambandi við íbúðarhúsnæði af ýmsum toga sem ég ætla ekki að eyða tíma í að rekja hér en geta staðið í vegi fyrir eðlilegri þróun.

Einnig er fullyrt að sveitarfélögum verði auðveldað að nota sér ákvæði væntanlegra laga og muni stórfjölga kaupleiguíbúðum, ekki síst í minni sveitarfélögum þar sem nú er skortur á íbúðarhúsnæði.

Ég þarf ekki að rekja þetta heldur. Það kemur fram í frv. sjálfu að það er gert ráð fyrir að sveitarfélögin fái þarna sérstaka lánafyrirgreiðslu og það verður að leggja áherslu á að framkvæmd þessa atriðis verði sérstaklega fylgt eftir með því að ganga formlega frá þessum hlutum.

Það viðurkenna allir nauðsyn þess að auka byggingar á ódýru leiguhúsnæði og það þarf að efla verkamannabústaðakerfið sem er best fallið til að leysa þann þátt húsnæðismála sem kemur láglaunafólki að mestum notum. Það sannar sagan og reynslan af því félagslega kerfi á liðnum áratug.

Herra forseti. Sjálfsagt hefði verið eðlilegast að fresta afgreiðslu þessa frv. til næsta þings og nota tímann til að endurskoða félagslega þátt húsnæðiskerfisins, styrkja stöðu Byggingarsjóðs verkamanna og nýta það kerfi til að bæta stöðu þeirra sem raunverulega hafa mesta þörf fyrir hagstæðar aðgerðir til að njóta eða eignast viðráðanlegt húsnæði til lengri tíma. Ég bæti því hér inn í að bygging verkamannabústaða er að mínu mati það hagstæðasta kerfi sem við Íslendingar höfum eignast á liðnum árum og hefur lyft grettistökum í íbúðabyggingum á hagkvæman hátt fyrir launastéttir í okkar landi. Um það verður ekki deilt. Endurskoðun og endurnýjun þessa kerfis með möguleikum á fleiri valkostum er að mínu mati viðráðanlegasti kosturinn í dag, en verður að gerast í fullu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins og launþegahreyfinguna í heild.

En eins og fram kemur í þessu nál. meiri hl. félmn. hafa formenn stjórnarflokkanna skuldbundið ríkisstjórnina að koma þessu máli í afgreiðslu fyrir þinglok og þrátt fyrir efasemdir um fjármagn og jákvæð áhrif þessa frv. virðum við samkomulag formanna flokkanna og mælum með því að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hafa verið lagðar fram.