27.04.1988
Efri deild: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6868 í B-deild Alþingistíðinda. (4790)

474. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. allshn. (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. allshn. um þetta mál. Nál. er svona:

„Nefndin hefur rætt frv. og leggur til að það verði samþykkt.

Skúli Alexandersson sat fundi nefndarinnar og er samþykkur áliti þessu.“

Undir þetta rita sá sem hér stendur, Guðmundur Ágústsson, Salome Þorkelsdóttir, Eiður Guðnason, Guðrún Agnarsdóttir, Eyjólfur Konráð Jónsson og Stefán Guðmundsson.

Frv. snýst um það að hækka sektir fyrir ýmis brot, aðallega umferðarlagabrot, sem ekki hafa verið hækkaðar síðan 1982. Er hér fyrst og fremst um að ræða hækkun sem samsvarar verðbólgunni og verðlagsbreytingum sem orðið hafa á þessu tímabili.

Í öðru lagi er þarna heimild til að gera réttarsátt, víðtækari en nú er, sem mun spara mikla vinnu hjá dómstólunum. Það má núna gera réttarsátt um brot fyrir t.d. ítrekaðan ölvunarakstur ef ætla má að dómur sé innan við eitt ár, en skv. frv. má gera réttarsátt í málum vegna ökuskírteinissviptingar allt að þremur árum og er talið að þetta muni spara mikla vinnu hjá dómstólunum.

Ég held að það sé kannski ástæða til að ræða enn frekari hækkun á þessum sektum. Við höfum orðið vitni að því í fjölmiðlum upp á síðkastið að mikið er um hraðakstur og talsvert um alvarleg slys sem hafa orðið af völdum hraðaksturs. Það virðist ekki vera að núverandi sektarupphæðir hafi nein áhrif á það. En nefndin gerir samt ekki tillögur um neina hækkun á þessu umfram það sem þarna er lagt til af ráðuneytinu og leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.