27.04.1988
Efri deild: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6871 í B-deild Alþingistíðinda. (4795)

416. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Flm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Á undanförnum þingum hefur um fátt verið meira rætt en það hvernig leysa eigi úr húsnæðisþörf fólks. Hefur umræðan aðallega snúist um hvernig unnt sé að afla nægilegs fjár sem síðan verði endurlánað til þeirra sem kaupa eða byggja húsnæði, en minni athygli hefur beinst að hinu, hvernig hægt sé að hjálpa ungu fólki eða öðrum sem vilja ráðast í kaup á húsnæði eða endurbætur á húsnæði sem það á til að undirbúa sig undir þá miklu fjárfestingu sem slík ákvörðun hefur í för með sér. Ég geri ráð fyrir að ástæðan fyrir því hversu þetta mál var lengi vel lítið rætt sé sú að húsnæðislán voru óverðtryggð og menn höfðu reynslu fyrir því að þau mundu á tiltölulega skömmum tíma étast upp þannig að greiðslubyrði almennings af íbúðum eða íbúðarhúsum var mjög minnkandi frá einu ári til annars og hvarf mjög fljótlega þannig að húsnæðismálin af þeim sökum voru rædd í allt, allt öðru ljósi en nú.

Ég man eftir því þegar við vorum að ræða um húsnæðismálin á þeirri tíð þegar hv. 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson var húsnæðisráðherra að sú hugsun skaut þá upp kollinum hjá einstaka ræðumanni hvernig við gætum með opinberum ráðstöfunum hvatt til þess að fólk legði til hliðar áður en það legðist í hina miklu fjárfestingu . . .

Herra forseti. Ég vil aðeins taka það fram að ég skal ekki gera athugasemd við það að hæstv. félmrh. er ekki við þessa umræðu, en ég á hér annað mál á dagskrá sem varðar húsnæðislögin í heild og vildi af því tilefni óska þess að hann gæti verið viðstaddur þá umræðu svo hægt sé að tala við hæstv. félmrh. almennt um húsnæðismálin, einstaka liði, í tengslum við þær hugmyndir sem ég hef uppi um þessa málaflokka.

Ég vil líka, herra forseti, leggja áherslu á í þessu samhengi að í þeim umræðum sem ég hef átt við fulltrúa aðila vinnumarkaðarins um húsnæðismál, úrbætur í þeim um nokkur ár, hafa einmitt fulltrúar Alþýðusambands Íslands lagt ríka áherslu á að nauðsynlegt sé að gefa ungu fólki kost á að undirbúa sig betur en ella áður en það leggur í þvílíka fjárfestingu sem það er að eignast íbúð. Ég vil einnig, herra forseti, rifja upp að í tíð hæstv. síðustu ríkisstjórnar talaði sá hv. þm. sem nú skipar sæti hæstv. félmrh. mjög um húsnæðissparnaðarreikningana og var þá mjög áfram um að þeir yrðu galopnaðir þannig að þeir gætu einnig náð til þess sem kallað var Búseti, en áhugi fyrir því rekstrarformi hefur farið mjög minnkandi hin síðustu missirin og eru önnur nöfn komin upp í staðinn, aðrar hugmyndir, eins og t.d. kaupleiguíbúðir. Þess vegna hefði mér þótt eðlilegt að sá hæstv. ráðherra hefði verið viðstaddur, líka vegna þess að hann sýndi húsnæðissparnaðarreikningunum mjög mikinn áhuga, þó af öðrum ástæðum sé en hjá mér, meðan hann var óbreyttur þingmaður.

Ég vil í fyrsta lagi víkja að þeirri gagnrýni sem komið hefur á húsnæðissparnaðarreikningana, en hún er sú að vakin hefur verið athygli á hversu fáir hafa nýtt sér það sparnaðarform sem hér er gert ráð fyrir. Nú þarf það á hinn bóginn ekki að koma svo mjög á óvart vegna þess að lögin um húsnæðissparnaðarreikningana eru frá miðju ári 1985, en einmitt um það leyti voru uppi háværar raddir um að staðgreiðslukerfi tekjuskatts yrði mjög fljótlega upp tekið og við munum það að í kjarasamningunum, sem gerðir voru í febrúar 1986, var frá því gengið milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar að staðgreiðsla skatta yrði upp tekin hinn 1. jan. 1988. Það var því eðlilegt á þeim tíma, bæði á árunum 1986 og ég tala nú ekki um á síðasta ári, að menn hugsuðu sig almennt mjög mikið um hvaða hagræði þeir gætu haft af húsnæðissparnaðarreikningum þegar fyrir lá að sl. ár yrði í þeim skilningi skattlaust að ekki yrði lagður tekjuskattur á þær launatekjur sem menn ynnu sér inn á því ári. Þegar svo háttar missa auðvitað reikningar eins og húsnæðissparnaðarreikningarnir gildi sitt, menn hafa ekki sama ávinning af þeim og ella mundi og auðvelt að ímynda sér að þeir sem fyrirhyggju hafa í sínum sparnaði hafi á sl. ári talið aðrar sparnaðarleiðir sér vænni.

Þá hefur það einnig mjög háð húsnæðissparnaðarreikningum og raunar drepið þá að þegar lögin um þá voru sett, eða við skulum segja þegar lagafrv. um húsnæðissparnaðarreikninga var undirbúið á sínum tíma, hafði fulltrúi fjmrn. uppi mjög harðar kröfur um að viðurlög öll og reglur um þessa reikninga yrðu í upphafi mjög ströng og hélt því fram að ef mönnum sýndist svo síðar sem of djúpt hefði verið tekið í árinni í þeim efnum væri auðveldara að slaka á en fara á hinn veginn að herða reglurnar sem um húsnæðissparnaðarreikningana giltu.

Við fengum, hv. þm., ábendingar um þetta, sérstaklega frá Landsbankanum, á sl. ári og raunar á árinu 1986 líka, að þrátt fyrir töluverðar auglýsingar á þessum reikningum virtust þeir ekki ná vinsældum sem ég taldi raunar að ætti fyrst og fremst skýringu í því að skattleysisárið var yfirvofandi eða stóð yfir.

Nú horfir hins vegar þannig við að staðgreiðslan er orðin staðreynd. Það horfir þannig við að menn hafa af því vaxandi áhyggjur hvernig hægt sé að standa undir þeirri miklu lánsfjárþörf sem lýst hefur sér hjá Byggingarsjóði ríkisins, hjá húsnæðiskerfinu í heild, og almennt talað er það álitin ein af meginmeinsemdum okkar efnahagskerfis hversu nýr frjáls sparnaður í landinu sé í raun og veru lítill. Til þess að vinna á móti öllu þessu þrennu er auðvitað kjörið að reikningar eins og húsnæðissparnaðarreikningar, sem njóta ákveðinna skattfríðinda, séu virkir í okkar efnahagsuppbyggingu og við flm. þessa frv. höfum í þeim brtt. sem við höfum gert við lögin mjög stuðst við álit bankamanna sem um þessi mál hafa fjallað. Vil ég þá víkja að einstökum efnisatriðum í þessu frv.

1. gr. frv. lýtur að því að í lögunum er gert ráð fyrir því að nauðsynlegt sé að greiðslur á húsnæðissparnaðarreikninga séu ársfjórðungslegar, reglulega einu sinni í ársfjórðungi. Við höfum í okkar frv. talað um að greiðslurnar séu eigi sjaldnar en tvisvar á ári, að það sé m.ö.o. gert upp við bankann tvisvar sinnum á ári, en þó reiðubúnir til þess að endurskoða þá tillögu þannig að vel má vera að nægilegt sé að innleggið á húsnæðissparnaðarreikningana sé árlegt og sé einnig hægt að losa um þetta ákvæði ef það yrði álit bankamanna. Ég hef á hinn bóginn vegna þeirrar andstöðu sem á sínum tíma kom upp í fjmrn. bundið mig við missirislegar greiðslur og álít raunar að það eigi ekki að verða ágreiningsefni og vel megi við það una.

Herra forseti. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir að missirisgreiðslan nemi eigi lægri upphæð en 6000 kr. og eigi hærri fjárhæð en 60 000 kr. sem skýrist eins og hægt er að sjá ef menn lesa lögin yfir.

Því er sem sagt haldið óbreyttu að lágmarkssparnaður á ári skuli vera 12 000 kr., en hámarksfjárhæð 120 000 kr. þó samkvæmt breytingum byggingarvísitölu og er miðað við breytingu á byggingarvísitölu frá 31. des. 1984 til 31. des. 1985. Ríkisskattstjóri gaf út auglýsingu 30. des. sl. og þar kemur fram að lágmarksfjárhæð skuli vera 24 571 kr. og hámarksfjárhæð 245 714 kr. Það má margfalda þessa fjárhæð m.ö.o. með 2,5 á þeim tíma sem liðinn er síðan lögin voru sett fyrir þremur árum.

Þá gerum við ráð fyrir að 3. mgr. falli niður, en þar stendur: „Samið skal fyrir fram til a.m.k. eins árs í senn um jöfn mánaðarleg eða ársfjórðungsleg innlegg, en umsaminni fjárhæð má breyta árlega miðað við upphaf almanaksárs innan þeirra marka sem getur í 2. mgr. Þó er heimilt að semja fyrir fram um lækkun á umsömdum sparnaði miðað við ársfjórðunga.“

Við álítum að þetta sé allt of flókið, hafi ekki praktíska þýðingu og sé ástæðulaust að elta ólar við svo mikinn sparðatíning í lögum. Var vafasamt í upphafi að setja þessi ströngu ákvæði inn og reynslan hefur sýnt að þetta á ekki við.

Varðandi 3. gr. laganna er um mjög róttæka breytingu að ræða. Þegar húsnæðissparnaðarlögin voru sett á sínum tíma var gert ráð fyrir því að fé skyldi bundið í tíu ár til að njóta sparnaðarins ef ekki kæmi til þess að viðkomandi keypti íbúð eða réðist í umfangsmiklar endurbætur á íbúðarhúsnæði. Við leggjum til að þessi tími verði styttur í fimm ár og með sama hætti að ef um aldraða eða öryrkja er að ræða styttist tíminn í þrjú ár og gerum síðan ráð fyrir því að hægt sé að framlengja sparnað á húsnæðissparnaðarreikningum um eitt ár í senn sem er sjálfsagt þar sem hagræðið af skattalegum sparnaði er mest síðasta árið og ríkið getur ekki annað en haft bæði beinan og óbeinan hagnað af því að heimila slíka framlengingu húsnæðissparnaðarreikninga.

Varðandi 3. gr. leggjum við til að ýmis refsiákvæði sem voru í 5. gr. laganna áður falli niður en greininni breytt á þann veg að ef menn telja sér hagkvæmt eða nauðsynlegt að falla frá húsnæðissparnaðarreikningunum, geti ekki staðið við þær skuldbindingar sem þeir tóku á sig með því að hefja sparnað á húsnæðissparnaðarreikningum, sé heimilt að losa innstæðu, en þó þannig að viðkomandi njóti ekki þeirra skattfríðinda sem áður er búið að reikna inn á viðkomandi reikninga. M.ö.o. að reikningseiganda verði gert að endurgreiða þann skattafslátt sem honum hefur nýst vegna innleggs á reikninginn ásamt sömu raunvöxtum af þeirri fjárhæð og reikningurinn hefur gefið. Þetta er eðlileg leiðrétting. Það er í mínum huga ástæðulaust að refsa mönnum fyrir að hafa lagt til liðar sjálfsaflafé sitt á þessum reikningum, en á hinn bóginn eiga þeir auðvitað ekki að njóta skattafsláttarins ef þeir geta ekki staðið við þá samninga sem húsnæðissparnaðarreikningarnir gera ráð fyrir með því að þeir þurfa að losa þær innstæður sem á þeim eru.

Í 5. gr. frv. leggjum við loks til að heimilt sé foreldri að stofna til sparnaðarreiknings í nafni barns síns og nýtist foreldrum þá skattafslátturinn. Binditími skal vera til 16 ára aldurs barns, en síðan gildi venjulegir skilmálar. Ég held að þetta sé mjög þarft ákvæði. Ég get að vísu bætt því við að það er álitamál hvort eigi t.d. að leyfa öfum og ömmum að stofna slíkan reikning í nafni barnabarna sinna því að slíkt fólk vill gjarnan með ýmsum hætti hjálpa ungviðinu að koma undir sig fótunum. Við vildum þó í þessari lotu binda okkur við foreldrana, en leggjum með þessu áherslu á það almenna markmið, sem húsnæðissparnaðarreikningunum fylgir, að verið sé að reyna að skapa því unga fólki kjölfestu sem á eftir að standa á eigin fótum og þarf síðar meir að afla sér fjár til þess að eignast íbúðarhúsnæði.

Ég þarf ekki að taka það fram að ef slíkir húsnæðissparnaðarreikningar yrðu almennir mundi á tiltölulega skömmum tíma draga mjög úr þeirri þörf sem nú er á félagslegu húsnæði og auðvitað á þeirri lánsfjárþörf sem við verðum varir við á hinum almenna markaði í Byggingarsjóði ríkisins. Ég legg í þessu samhengi sérstaklega áherslu á að það er einmitt að kröfu launþegasamtakanna sem sá háttur hefur nú verið tekinn upp í stjórn Húsnæðisstofnunar að láta athuga greiðslugetu viðkomandi áður en svarað er hvort hann sé talinn lánshæfur í Byggingarsjóði ríkisins.

Það hefði verið eðlilegt, herra forseti, að samhliða þessu frv. hefði komið til umræðu frv. á þskj. 797 um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, en það frv. er flutt sem fylgifrv. með þessu frv. Ég hafði ekki lesið frv. yfir um tekjuskatt og eignarskatt, en mér sýnist að 1. gr. þess eigi ekki við. Ég hafði að vísu skilað handriti að því frv. inn eins og það liggur fyrir á þskj., en hafði gert ráðstafanir til þess að 1. gr. yrði strikuð út þar sem ég var ekki staddur í borginni síðasta dag sem heimilt var að leggja fram þskj. og þarf að gera leiðréttingar á þessu þskj. af þeim sökum þar sem þær hafa ekki komist til skila.