27.04.1988
Efri deild: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6875 í B-deild Alþingistíðinda. (4796)

416. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. 2. þm. Norðurl. e. að það er af hinu góða að eyða töluverðum tíma í að ræða húsnæðismál, svo mikilvæg eru þessi mál fyrir alla þjóðina í heild sinni. Það hefði því verið æskilegt að hæstv. félmrh. hefði getað verið viðstaddur þessa umræðu, en ég mun ekki frekar en hv. síðasti ræðumaður gera kröfu um að hann verði sóttur.

Ég er alveg sammála því að það þarf að leita allra ráða til að auðvelda ungu fólki að eignast sína fyrstu íbúð, stíga sín fyrstu spor á húsnæðisbrautinni, því nógu erfitt hefur það reynst flestum seinni árin að komast inn í hvort sem er eigið húsnæði eða leiguhúsnæði og ríkir nánast algjört öngþveiti í þessum málaflokki nú um stundir.

Húsnæðissparnaðarreikningar eru, eins og hv. ræðumaður gat um áðan í máli sínu, töluvert algengir víða erlendis. Ég hef sjálfur haft af þeim góða reynslu og eru þeir m.a. mikið notaðir meðal ungs fólks í Danmörku þar sem ég þekki best til. Ég mundi kannski vilja rifja upp frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem við þingmenn Borgarafl. í Ed. fluttum líklega fyrir einum tveimur mánuðum þar sem við fjölluðum um skyldusparnað ungs fólks til íbúðabygginga, þ.e. við komum með hugmyndir um breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun þar að lútandi.

Óneitanlega tengist umræða um húsnæðissparnaðarreikninga töluvert umræðu um skyldusparnað ungs fólks. Ég vildi jafnvel varpa þeirri hugmynd hér fram að það væri vel hægt að hugsa sér þá lausn að ungt fólk, sem er gert að leggja til hliðar 15% af launum sínum eða launatekjum til Byggingarsjóðs ríkisins, ætti þann valkost að geta í stað þess stofnað húsnæðissparnaðarreikning í einhverjum banka sem væri með þeim ákvæðum og skilmálum sem lagt er til í frv. Það yrði þá valkostur að það væri ekki sjálfgefið að skyldusparnaður rynni til Byggingarsjóðs ríkisins heldur væri hverjum og einum frjálst að leggja hann inn á húsnæðissparnaðarreikning í staðinn.

Við vöktum athygli á því á sínum tíma þegar við vorum að ræða um skyldusparnað ungs fólks að það er mjög áberandi að unga fólkið hefur enga tiltrú á slíkum sparnaðarreikningum. Það sést best á því að innstreymi til Byggingarsjóðs ríkisins vegna skyldusparnaðar er gífurlega mikið, en útstreymi vegna undanþáguákvæða ýmiss konar er nánast jafnmikið. Svo ég rifji upp var innstreymi til Byggingarsjóðs ríkisins vegna skyldusparnaðar 1987 um 1110 millj. kr., en útstreymi vegna undanþáguákvæða ýmiss konar, fólk sem er í skóla, fólk sem af öðrum orsökum samkvæmt ýmsum lagaákvæðum þar að lútandi á rétt á því að fá skyldusparnaðinn greiddan út, tók út úr Byggingarsjóðnum 1025 millj. þannig að mismunurinn sem sat eftir inni er ekki nema 85 millj. kr. Það virðist því allt benda til þess að unga fólkið hafi enga trú á að spara saman fé til að kaupa sér íbúðir. Það gæti verið að unga fólkinu fyndist betra að fá að leggja skyldusparnaðinn inn á húsnæðissparnaðarreikning. Þar væri a.m.k. hægt að bjóða því upp á betri ávöxtun en verið hefur hjá Húsnæðisstofnun í Byggingarsjóði ríkisins. En ég held að það eitt sér dugi ekki til og það þurfi e.t.v. meiri hvatningu til. Þess vegna lögðum við til í okkar till. að sá valkostur væri fyrir hendi að hægt væri að gera sérstakan samning við Húsnæðisstofnun ríkisins um að skyldusparnaðurinn yrði að eignarhluta í íbúð sem Húsnæðisstofnun hefði þá frumkvæði að að láta byggja og að skyldusparnaðartímabilinu loknu ætti viðkomandi ákveðinn eignarhlut í íbúð sem hann hefði sparað saman á skyldusparnaðartímabilinu.

Ég varpa þeirri spurningu fram hvort það mætti hugsa sér slíkt sparnaðarform almennt, en fyrst og fremst langar mig til að vekja athygli á þeirri hugmynd að tengja saman skyldusparnaðinn og húsnæðissparnaðarreikningana.