14.10.1987
Neðri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

6. mál, almannatryggingar

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 67 1971, með síðari breytingum, en frv. liggur fyrir hinu háa Alþingi á þskj. 6 og er 6. mál 110. löggjafarþings. Meðflytjendur frv. eru hv.. þm. Ragnar Arnalds, Hjörleifur Guttormsson, Steingrímur J. Sigfússon, Þórhildur Þorleifsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Kristín Einarsdóttir og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.

Frv. þetta var flutt á síðasta löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Það er því endurflutt nú með þeirri breytingu að 2. gr. þess er ný og skal gerð nánari grein fyrir henni síðar. Frv. hljóðar svo:

„4. mgr. 45. gr. laganna orðist svo“ - og er það 1. gr. frv.:

„Fullir dagpeningar fyrir einstakling skulu jafngilda lágmarkslaunum ófaglærðs verkafólks fyrir átta stunda dagvinnu eins og þau eru á hverjum tíma. Að auki skal greiða 4% af framangreindum launum fyrir hvert barn undir 18 ára aldri, þar með talin börn utan heimilis sem bótaþegi sannanlega greiðir með samkvæmt meðlagsúrskurði eða skilnaðarleyfisbréfi.“

2. gr. hljóðar svo:

„Í c-lið 2. mgr. 51. gr. laganna falli niður orðin „vegna brottfalls tekna af vinnu utan heimilis“.“

Og 3. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

1. gr. frv. þessa fjallar um hækkun sjúkradagpeninga sem sjúkrasamlög greiða ef samlagsmaður sem orðinn er 17 ára veikist og verður algjörlega óvinnufær, enda leggi hann niður vinnu og launatekjur falli niður. Frv. gerir ráð fyrir að sjúkradagpeningar fyrir einstakling nemi sömu upphæð og lágmarkslaun ófaglærðra á hverjum tíma og verði jafnháir greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Greiðslur vegna barna undir 18 ára aldri eru einnig færðar til samræmis við greiðslur vegna barna úr þeim sjóði.

Hv. þm. til upplýsingar skal þetta skýrt: Ef maður veikist og verður óvinnufær svo að allar vinnutekjur hans falla niður greiðir sjúkrasamlag hans honum sjúkradagpeninga meðan hann er undir læknishendi. Vari veikindin lengur en 52 vikur tekur Tryggingastofnun ríkisins við greiðslum samkvæmt örorkumati nema annað sé ákveðið eða maðurinn heill meina sinna. Hverjar eru þessar greiðslur nú sem hinum sjúka er ætlað að framfleyta sér og sínum á í veikindum? Frá 1. okt. 1987 fær maðurinn sem tekjulaus hefur orðið 346 kr. og 93 aura á dag eða 10 407,90 kr. á mánuði - 10 407,90. Fyrir hvert barn undir 18 ára aldri fær hann auk þess greiddar 94 kr. og 14 aura — og nákvæmt skal það vera – á dag eða 2824,20 kr. á mánuði. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að gera sér í hugarlund hvernig staða fjölskyldumanns er í slíku tilviki og með ólíkindum að fólki skuli boðið upp á slík kjör í margrómuðu velferðarþjóðfélagi okkar. Greiðslur sem þessar eru hvorki til þess að lifa eða deyja af og þegar litið er til þeirra fjárskuldbindinga sem venjulegt fjölskyldufólk hefur á herðunum hér á landi verða þær hreinn skrípaleikur. Starfsfólki sjúkrasamlaganna er enda sárasta raun að afgreiða veikt fólk á þennan hátt og fjölmargir starfsmenn hafa haft samband við mig út af þessu máli.

Við gerð kjarasamninga hefur verið viðurkennt að 29 975 kr. á mánuði séu lágmark þess sem unnt sé að komast af með sér til viðurværis. Í lögum um atvinnuleysistryggingar er tryggt að við atvinnumissi hafi bótaþegi lágmarkslaun verkafólks sér til framfærslu. Lög um almannatryggingar eru hins vegar löngu úrelt orðin varðandi sjúkradagpeninga og bótaupphæðir í engu samræmi við tilgang laganna sem hlýtur að hafa verið sá að tryggja þeim afkomu sem af einhverjum ástæðum geta ekki gert það með vinnu sinni. Hvergi í almannatryggingakerfinu er ástandið í líkingu við þau bágindi sem þeim eru boðin sem veikst hafa og orðið hafa óvinnufærir og eiga ekki rétt á öðru en sjúkradagpeningum meðan þeir eru undir læknishendi. Það er með öllu ósæmandi að við svo búið verði unað.

2. gr. frv. er til þess flutt að numið verði úr gildi það ranglæti, sem nú viðgengst, að mæðralaun - og ég bið hv. þm. að taka eftir - skerði sjúkradagpeninga hafi foreldrið sem þeirra naut verið heimavinnandi. Ljóst er að hér er svo til eingöngu um að ræða mæður, einstæðar mæður með svo mörg börn að útivinna með tilheyrandi barnagæslutilkostnaði er ekki framkvæmanleg. Þessar konur reyna því að komast af með meðlögum og mæðralaunum. Verði slík kona hins vegar veik skerðast sjúkradagpeningar hennar sem mæðralaununum nemur. Hafi kona hins vegar unnið úti heldur hún óskertum dagpeningum. Starfsfólk sjúkrasamlaganna hefur ítrekað bent á þetta óréttlæti í mörg ár án árangurs.

Við flm. þess frv. sem nú hefur verið mælt fyrir teljum að það ranglæti sem nú viðgengst gagnvart þeim sem veikjast eða verða að una sjúkradagpeningagreiðslum sé ósæmandi. Okkur er einnig ljóst að hér er um nokkra fjárupphæð að ræða. Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur boðað heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar og ekki kæmi það mér a óvart þó að hann vísaði til þess hér á eftir. En á það má benda að einmitt þessar greiðslur hlytu að verða eitt fyrsta leiðréttingarverkefni þeirrar nefndar sem falin yrði endurskoðunin, en jafnframt skal á það bent að heildarendurskoðun tekur langan tíma og ekki sæmandi að bíða eftir henni. Það fólk sem nú býr við þau kjör sem ég lýsti í upphafi máls míns hefur enga biðlund.

Enn má á það benda að hver ráðherrann á fætur öðrum hefur á síðustu árum sett á laggirnar nefnd til að endurskoða almannatryggingar og reynslan hefur raunar sýnt að fjölmargar endurbætur hafa verið gerðar á lögunum vegna þeirrar vinnu. En nýr lagabálkur um almannatryggingar í heild hefur ekki birst enn þá, enda get ég sagt hæstv. ráðh. strax að slík lagagerð er ekkert áhlaupaverk þar sem jafnframt þyrfti þá að endursemja öll lög um lífeyrissjóði í landinu ef vel ætti að vera. Ég á því ekki von á neinni heildarlöggjöf um almannatryggingar á næstu árum, ekki heldur í tíð þess hæstv. ráðh. sem nú gegnir því starfi, og bið menn því að gera upp hug sinn um það hvort sjúklingar sem stríða nú við tímabundin veikindi eigi að bíða þeirrar endurskoðunar.

Herra forseti. Um skeið hefur staðið yfir athugun á starfsemi hins háa Alþingis og tillagna til úrbóta til samræmis við breytta tíma hefur verið leitað. Allir hv. þm. virðast sammála um að þingnefndir hafi verið of seinvirkar. Um leið og ég þakka frumkvæði um að gera störf hins háa Alþingis markvissari vil ég leyfa mér að vænta þess að nefndir þingsins hefjist nú þegar handa um að afgreiða þau mál sem mælt er fyrir í upphafi þings og síðan jafnharðan eftir því sem þau berast í stað þess að nefndarstörfin bíði að mestu leyti jólaanna og þingloka. Með þeim óskum, herra forseti, legg ég til að frv. það sem ég hef nú mælt fyrir verði falið hv. heilbr.- og trn. Nd. til fyrirgreiðslu.