27.04.1988
Neðri deild: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6878 í B-deild Alþingistíðinda. (4809)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel mikla þörf á að sem fyrst verði endurskoðuð í heild húsnæðislöggjöfin, ekki síst ákvæðin um félagslega íbúðakerfið. Fyrri ríkisstjórn lofaði slíkri endurskoðun, en sveik það fyrirheit. Núverandi ríkisstjórn hefur litlu sem engu þokað til betri vegar í húsnæðismálum. Vonir eru bundnar við nýjar leiðir í félagslegu íbúðakerfi, bæði kaupleigu- og búseturéttaríbúðir. Fyrirliggjandi frv. um kaupleiguíbúðir er hins vegar meingallað og hætt við því að þær vonir sem vaktar hafa verið um þetta mál, m.a. hjá sveitarfélögum víða um land, eigi eftir að reynast haldlitlar. Í stað handahófsbreytinga á húsnæðislöggjöfinni er spurt um heildstæðar lausnir og ekki síður um fjármagn til að hrinda þeim í framkvæmd. Að slíkum lausnum þurfa Alþingi og ríkisstjórn að vinna.

Herra forseti. Ég vil ekki leggjast gegn þeirri hugmynd um kaupleiguíbúðir sem býr að baki þessu frv., en þar sem brtt. frá Steingrími J. Sigfússyni á þskj. 884 hafa ekki hlotið stuðning meiri hl. félmn. sit ég hjá við atkvæðagreiðslu um þessa grein.