09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

66. mál, dreifing sjónvarps og útvarps

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að lýsa yfir stuðningi við þá tillögu sem hér hefur verið lögð fram. Hér er um að ræða mikið réttlætismál fyrir íbúa landsbyggðarinnar sem eins og allir aðrir landsmenn leggja sitt af mörkum, ekki bara til reksturs heldur einnig til dagskrár Ríkisútvarpsins.

Í útvarpslögum frá 1985 segir m.a. í 16. gr., með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið skal senda út til alls landsins og næstu miða tvær hljóðvarpsdagskrár og minnst eina sjónvarpsdagskrá árið um kring.“

Eins og fram kom í máli hv. flm. vantar enn þá nokkuð á að þessi lagagrein sé komin í framkvæmd. Þannig sitja íbúar í hinum ýmsu landshlutum ekki við sama borð og stærsti hluti landsmanna hvað varðar afnot af þeim mikilvæga menningar-, fræðslu- og fréttamiðli sem Ríkisútvarpið er.

Ég vil að lokum ítreka það að við kvennalistakonur styðjum þessa tillögu en hefðum reyndar viljað sjá þessa lagfæringu á dreifikerfinu komast á á skemmri tíma en hér er stungið upp á þannig að slagorðið um Ríkisútvarpið sem útvarp allra landsmanna eigi í raun við.