09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

66. mál, dreifing sjónvarps og útvarps

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Ég fyrir mitt leyti tek undir þessa tillögu og styð hana. Ég tel að það sé orðið mjög tímabært að sjónvarps- og útvarpsefni nái til allra landsmanna. Í leiðinni langar mig að nota tækifærið og vekja athygli á frv. til breytinga á útvarpslögunum sem ég mun flytja í efri deild en þar er eiginlega gert ráð fyrir að notendur fái heimild til þess sjálfir að reyna að leysa sín mál þar sem það er hægt. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að ef notendur fá að koma sér upp svokölluðum loftnetsfélögum til þess að auðvelda móttöku á sjónvarps- og útvarpsefni, bæði frá íslenska ríkissjónvarpinu, útvarpinu og öðrum útvarpsstöðvum, gætu notendur leyst þetta vandamál sjálfir að verulegu leyti. Ég viðurkenni að víða er um að ræða afskekkta bæi þar sem er ekki um annað að ræða en að koma við þráðlausum sendingum.

Ég vek þá athygli á því að það er markvisst unnið að því að tengja allar símstöðvar landsins með svokölluðum ljósleiðurum og með því kerfi verður hægt að koma öllum sjónvarps- og útvarpsmerkjum í hverja einustu símstöð á landinu þegar fram líða stundir. Þaðan er síðan hægt að flytja merkin áfram með staðbundnum strengkerfum sem gætu í mörgum tilvikum verið á vegum notenda sjálfra. Ég vænti því þess að hv. flm. till. muni taka undir brtt. sem ég hef boðað á útvarpslögum.