27.04.1988
Neðri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6889 í B-deild Alþingistíðinda. (4834)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. félmn. (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið var till. Kvennalistans felld um það að þessu máli sem hér er til umræðu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar, með það í huga að mörkuð yrði einnig framtíðarstefna um kaupleiguíbúðir þegar heildarendurskoðunin á húsnæðislánakerfinu færi fram. En ég vil samt reyna að hafa einhver áhrif á málið til betri vegar og tel að brtt. á þskj. 911 sem fluttar er af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Geir Gunnarssyni séu mjög til bóta og vil lýsa stuðningi við þær till.

Ein af ástæðunum fyrir því að ég tel ekki hægt að mæla með að samþykkja frv. óbreytt er að einmitt litlu sveitarfélögin, sem mörg eru illa stödd núna, hafa litla möguleika á að byggja kaupleiguíbúðir þar sem það hefur legið fyrir að þau hafa átt í miklum erfiðleikum með að fjármagna sinn hlut í verkamannabústöðum. Þau eiga því enn þá erfiðara með að fjármagna sinn hlut í kaupleiguíbúðum að óbreyttu.

Ég skal ekki um það segja hvort 50 millj. séu akkúrat rétta upphæðin, hvort það hefði kannski þurft að vera heldur meira sem húsnæðismálastjórn sé heimilt að verja til að styðja verst settu sveitarfélögin sérstaklega í að byggja leiguíbúðir. Ég lýsi stuðningi mínum við að tekið sé frá ákveðið fé í þessu skyni.

Ég vil einnig taka undir ósk hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um það að við fengjum að sjá þá bókun sem gerð var um samkomulag milli stjórnarflokkanna um fjármagn til kaupleiguíbúða og mikið hefur verið vitnað hér í og fengjum að vita út á hvað hún gengur. Það er furðulegt að félmn. skuli ekki hafa fengið vitneskju um hana því að einmitt fjárhagslega hliðin í þessu dæmi er í mestu óvissu. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég tel ekki annað ráðlegt en að skoða málið dálítið betur. En ég vil ítreka að ég styð þessar till. og tel að þær séu til bóta.