27.04.1988
Neðri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6889 í B-deild Alþingistíðinda. (4835)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil ekki tefja þetta mál en minni á að það hefur komið fram hvernig ástatt er víða úti á landsbyggðinni. Það er full þörf á því að reyna með einhverjum hætti að byggja íbúðarhúsnæði þar, sérstaklega þar sem er næg atvinna en vantar húsnæði og sveitarfélögin eru þannig í stakk búin að þau hafa ekki möguleika til þess og ekkert fjármagn til að leggja í slíkar framkvæmdir.

Ég veit að t.d. hv. þm. Norðlendinga þekkja að til eru sveitarfélög sem skulda um 10 millj. á hverja 100 íbúa. Hvernig ráða þeir við þetta verkefni? Er hv. þm. alvara í því að reyna að standa þannig að málum að jafnvel þeir framleiðslustaðir sem leggja mest af gjaldeyri til þjóðarbúsins hafi enga möguleika til að halda í unga fólkið vegna þess að það vantar húsnæði og líka vegna þess að þannig er ástatt í þjóðfélaginu að jafnvel þó að þetta unga fólk eigi peninga þorir það ekki að fjárfesta vegna þess að ef svo fer að það vill eða þarf að flytja burtu þá muni ekki verða neinir til að kaupa nema með hálfu verði? Áður en þessi till. er felld skora ég á þm. að hugleiða þetta.

Það er ekki verið að tala um neitt varanlegt ástand. Er ekki búið að lýsa því yfir að það eigi að endurskoða húsnæðismálakerfið allt saman? Það er aðeins þessi heimild sem er bara heimild og húsnæðismálastjórnarráðherrar geta beitt eftir vild sinni og ástæðum. En það er full þörf á því að hafa þetta inni og ég held a.m.k. að hv. landsbyggðarþingmenn ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir fella þessar till.