27.04.1988
Neðri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6891 í B-deild Alþingistíðinda. (4837)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegi forseti. Það fór sem mig grunaði við atkvæðagreiðslu við 2. umr. að felldar voru brtt. á þskj. 894 frá Steingrími J. Sigfússyni sem hefðu þurft að hljóta samþykki ef ég hefði átt að styðja þetta mál hér við afgreiðslu úr deildinni.

Það er satt að segja alveg furðulegt að ríkisstjórnin skuli leggja kapp á að fá afgreiðslu á frv. þessu efnislega eins og það liggur hér fyrir. Það virðist sem helsta ástæðan til þess sé sú að geta losað hæstv. félmrh. úr þeirri snöru sem ráðherrann hafði lent í með yfirlýsingum sínum. Ég hef engan áhuga á því að hæstv. ráðherra verði á undan öðrum úr stólunum. Það mættu margir verða þar fyrri til en hæstv. félmrh. enda greiddi ég ekki atkvæði gegn frv. heldur sat hjá við atkvæðagreiðslu.

Hér við 3. umr. liggja fyrir brtt. frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Geir Gunnarssyni sem væru sannarlega til lagfæringar á þessu máli þó að þær séu ekki jafn ákvarðandi og þær brtt. sem hér voru felldar við 2. umr.

Hér við umræðuna hefur sitthvað komið fram fyrir utan þessar brtt. Það hefur verið rifjað upp af hv. 1. þm. Vesturl. Alexander Stefánssyni að það samkomulag formanna stjórnarflokkanna sem notað er sem handjárn á stjórnarliðið til að knýja þetta mál hér í gegn, eigi að fela í sér ákveðna fjárupphæð. En upplýsingum um þetta hefur að öðru leyti verið haldið fyrir utan afgreiðslu mála hér í þinginu, t.d. lánsfjárlaga, og upplýsingar um það fjármagn farið mjög leynt. Hér liggur ekkert fyrir um það nema tilvitnun í þetta samkomulag eins og hv. þm. vitnar til þess. (Gripið fram í.) Já, upplýsingar um að þetta hafi verið í samkomulaginu og síðan traustsyfirlýsing hv. þm. á að við þetta verði staðið. Mikil er trú hans á þessa ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. og aðra sem þarna eiga að koma að máli, að þetta verði framreitt.

Þau rök sem hæstv. félmrh. bar fram við umræðuna í gær fyrir þörfinni á að fá þetta mál einmitt samþykkt nú á þessu þingi með öllum þeim agnúum og eyðum sem eru í þessu frv. og gera það afskaplega lítils virði, voru þau að það væri von til þess að hægt væri að hefja framkvæmdir við 120–150 íbúðir skv. þessu kerfi núna í sumar fram að haustþinginu. Frv. er nú ekki orðið að lögum. Það er eftir að setja reglugerð um málið og hefur það stundum tekið dálítinn tíma. Það er eftir að auglýsa síðan eftir umsóknum á grundvelli þeirrar reglugerðar og skera úr um þær umsóknir.

Hvað halda menn að gerist á sumarmánuðum í þessari stöðu? Halda menn að menn fari að taka skóflustungur fyrir þessum kaupleiguíbúðum? Ég fullyrði að þeir sem telja sig hafa efni á — t.d. sveitarfélögin úti um landið — að sækja um og undirbúa framkvæmdir munu ekki komast langt á þessu sumri með þær. Það er í besta falli að tæknilegur undirbúningur gæti hafist og honum yrði kannski lokið á árinu. Þess vegna væri eðlileg málsmeðferð í svona máli að það yrði tekið inn í endurskoðunina á húsnæðislöggjöfinni eða þá sett sérstök hraðferð á endurskoðun þessa máls í ljósi þeirrar gagnrýni sem komið hefur úr fjölmörgum áttum á málið eins og það liggur hér fyrir. Nægir að nefna samtökin Búseta og þá umsögn sem liggur fyrir frá þeim og fylgir áliti meiri hl. félmn. og umsögn Öryrkjabandalags Íslands sem telja að þetta mál, eins og það liggur hér fyrir frá ríkisstjórninni, sé sáralítils virði þó að þessi samtök öll taki undir hugmyndina um kaupleiguíbúðir miðað við þær hugmyndir sem þau gera sér um það og vildu sjá lögfestar. Ég tek á þessu máli út frá þeirri hugmynd og geng ekki svo bratt í þetta mál að vera gegn þessu frv. vegna þess að það getur kannski talist einhvers virði að fá slíka hugmynd inn í lög. En hugmynd þar sem ekkert kjöt er á beinunum sem máli skiptir, sem ekki er líkleg til að leysa úr þeim vanda sem sagt er í orði að menn ætli að leysa, er ansi lítils virði.

Hérna liggur fyrir umsögn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga sem kom eftir að meiri hl. félmn. afgreiddi málið, knúði málið út úr nefnd. Hvað segir Samband ísl. sveitarfélaga í þessari umsögn? Ég held að það sé rétt að ég aðeins renni yfir hana, með leyfi forseta, það tekur ekki langan tíma. Hún er dagsett 22. apríl 1988:

„Mikill samdráttur hefur orðið í íbúðabyggingum á landsbyggðinni á undanförnum árum og húsnæðisvandræði eru því víða og tilfinnanleg vöntun á leiguhúsnæði svo sem fram kom í könnun félmrn. á s.l. sumri. Frv. þetta, ef að lögum verður, mundi auka lánsfé til byggingar leiguíbúða (kaupleiguíbúða) og þar með koma til móts við óskir sveitarfélaga á landsbyggðinni. Af framangreindum ástæðum mælir stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga eindregið með samþykkt frv. með þeim breytingum sem hér greinir“ — og það eru 8 tölusettir liðir:

„1. Brýna nauðsyn ber til að breyta ákvæðum í i- og j-liðum 93. og 94. gr. frv. um útgáfu afsals til kaupenda leiguíbúða þannig að afsal verði gefið út við kaup og kaupandi yfirtaki jafnframt áhvílandi lán og sjái um greiðslur af þeim og öðlist þar með fullan eignarrétt á íbúðinni.

2. Í lögunum þyrfti að vera möguleiki til að veita litlum og fjárhagslega illa stæðum sveitarfélögum viðbótarlán umfram 85% úr Byggingarsjóði verkamanna.“ — Það er efnislega það sem hér eru fluttar brtt. um af Steingrími Sigfússyni og Geir Gunnarssyni.

„3. Við sölu kaupleiguíbúða virðist eðlilegt að reikna þóknun til framkvæmdaaðila, t.d. 1%, sbr. 4. gr. j, 39. gr. 3. mgr.

4. Skuldabréf vegna lána til byggingar kaupleiguíbúða verði undanþegin greiðslu stimpilgjalda.

5. Athuga þyrfti hvort ekki væri unnt að breyta ákvæðum um kaupskyldu framkvæmdaaðila á kaupleiguíbúðum í forkaupsréttarákvæði þannig að lánskjör breyttust ef forkaupsréttar væri ekki neytt.

6. Undanþiggja þyrfti lífeyrissjóði sem leggja fram fé til byggingar eða kaupa á kaupleiguíbúðum skyldu til kaupa á skuldabréfum Byggingarsjóðs ríkisins sem næmi því fé sem þeir verja til kaupleiguíbúða.

7. Athuga þyrfti hvort unnt væri að lengja lánstíma lána til almennra leiguíbúða þannig að leigugjald gæti staðið undir markaðsvöxtum af lánum.

8. Stytta þyrfti frest til ákvörðunar leigutaka um að neyta kaupréttar að leiguíbúð, sbr. h-lið 92. gr. Framanritað tilkynnist hv. þingdeildarnefnd hér með.“ Þetta er undirritað af Magnúsi E. Guðjónssyni, framkvæmdastjóra.

Ég er ekki að leggja mat á einstakar tillögur Sambands ísl. sveitarfélaga umfram það sem hér hafa verið gerðar brtt. um, en hygg þó að mörg af þessum ákvæðum þyrftu einmitt skoðunar við og að takast inn í löggjöf að athuguðu máli að einhverju leyti. Ég vek athygli á því að stjórn sambandsins skilyrðir stuðning sinn við frv. við það að þessar breytingar verði gerðar á frv. Því hefur ekki verið breytt í einum staflið svo mér sé kunnugt eða tekið tillit til þessara brtt. sambandsins.

Svona er þetta með fleira. Búseti, félag átta samtaka, segir: Þetta er einskis virði fyrir okkur í því formi sem þetta er hér framreitt. Maður hlýtur því að spyrja: Hvers vegna þetta ofurkapp að lögfesta þetta mál hér og nú, jafnilla og það er undirbúið, í stað þess að gera gangskör að því að vinna málið frambærilega þannig að menn viti út í hvað þeir eru að ganga sem ætla sér að nýta þetta form og þá að formið sé þannig að það sé hægt að fylla út í það í reynd og menn geti fjárhagslega staðið undir þeim þáttum? Það sé þá eitthvað til viðbótar við það félagskerfi sem nú er, Byggingarsjóð verkamanna og það félagslega íbúðakerfi sem fyrir er og það sé skilmerkilega fram borið sem nýr þáttur félagslegs íbúðakerfis.

Ég óttast, eins og ég sagði við atkvæðaskýringu mína við 2. umr., að það verði mörg vonbrigðin með þetta mál eins og það er lagt hér fyrir. Ég öfunda ekki hæstv. félmrh. að standa fyrir svörum um þetta mál á næstu mánuðum eins og ætlunin er að lögfesta það hér.

Þörfin á eflingu félagslegs íbúðakerfis er gífurlega mikil og brýn. En það verður þá líka að vera þannig að henni staðið að það sé barn í brók, það sé hægt að vinna málin, koma upp félagslegum kaupleiguíbúðum þar sem þeirra er helst þörf á grundvelli þeirra laga og þess fjármagns sem Alþingi og stjórnvöld reiða af hendi.