27.04.1988
Neðri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6894 í B-deild Alþingistíðinda. (4839)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil strax lýsa stuðningi mínum við þá till. sem flutt er á þskj. 911, þ.e. brtt. frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Geir Gunnarssyni.

Ég vona að sjóðir Húsnæðisstofnunar standi undir samþykkt á þessari till. þó svo að ég hafi vissar áhyggjur, sérstaklega þegar maður les í stjórnarblöðum að einu útlánin sem eru í gangi í augnablikinu eru ákvörðun félmrh. þess sem gegndi síðast því embætti og viðbótarlánsloforð fyrir 1989 hafa ekki verið afgreidd enn þá. Skortur á þeirri vinnu hlýtur að stafa af því að samkomulag hefur ekki náðst milli fjmrh. og félmrh. þess sem nú gegnir embætti. En ég vona að það breytist fljótlega og að afgangsfjármagn verði til staðar til að gegna þeim kvöðum sem sú brtt. sem hér liggur fyrir mun leggja á Húsnæðisstofnun til viðbótar því sem fyrir fram var vitað. En ég lýsi stuðningi mínum og mun beita mér innan míns flokks til að fulltrúar Borgarafl. á Alþingi styðji frv.

Ég hef vissar áhyggjur af gangi mála. Ég sagði við atkvæðagreiðslu við 2. umr., þegar nafnakall fór fram, að Borgarafl. vildi styðja frv. móralskt með því að sitja hjá við atkvæðagreiðslu. Einn af okkar fulltrúum, frú Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, hv. 16. þm. Reykv., greiddi atkvæði með. En við skulum átta okkur á hvað er að ske. Hvað er að ske þegar ég í gær eyði miklum tíma af deginum í erindi fjögurra einstaklinga sem nú eru húsnæðislausir og búsettir á Kvennaathvarfinu í Reykjavík. Það eru ekki konur með þau vandamál sem Kvennaathvarfinu er ætlað að leysa heldur er það helmingurinn af hjónum sem hafa verið aðskilin vegna húsnæðisvanda. Konan fær leyfi til að vera á Kvennaathvarfinu með sín börn, en maðurinn verður að búa um sig annars staðar, bæði vegna þess að þau finna ekki leiguhúsnæði og líka vegna þess að tekjurnar, sem eru í flestum þessum tilfellum heldur betri en lágmarkstekjur launaskala, duga ekki til, duga ekki fyrir leigunni og fólkið hefur ekki efni á að borga þá fyrirframgreiðslu sem farið er fram á sem er þetta á milli þrír mánuðir til eins árs í þessum fjórum tilfellum.

Þetta er sorgarsaga. Ég vil því segja og taka undir orð 1. flm. þessarar tillögu, hv. 4. þm. Norðurl. e., þegar hann beindi orðum sínum til landsbyggðarþingmanna og bað þá um að hugsa sig um áður en þeir fella þessa tillögu. Ég bið aðra þingmenn á sama hátt um að fella ekki þessa tillögu fyrr en að mjög vel athuguðu máli og hafa þá tiltæk rök sem allir skilja.

Ég legg mikla áherslu á að allt verði gert til að létta undir með hæstv. félmrh. í sambandi við leiguíbúðir. Ég legg áherslu á að henni verði veitt brautargengi af starfsfélaga sínum og flokksbróður, hæstv. fjmrh., til þess ekki aðeins að byggja kaupleiguíbúðir heldur aðallega leiguíbúðir á vegum þess opinbera og þá að kaupa íbúðir hvort sem þær eru nýjar eða gamlar, en í frv. til l. eins og það liggur fyrir frá ríkisstjórninni flutt af hæstv. félmrh. er frekar gert ráð fyrir að kaupa nýjar íbúðir sem leiguíbúðir eða að sveitarfélögum sé hjálpað til að kaupa nýbyggingar.

Og ég vil ganga lengra. Ég segi að því miður er það svo að við hér öll sameiginlega erum samsek um að láta fólk úti í bæ og þá helst unga fólkið halda að það sé því í hag að byggja með lánsfé frá því opinbera þegar sannleikurinn er sá að fari þetta unga fólk að okkar ráðum og taki lán og byggi hækka þau lán svo mikið með tímanum að það eru engin laun sem standa undir afborgunum og vöxtum og á ég þá við að þau hafi undan kaupleigukjörum. Það er það grimma í þessu máli. Þess vegna tel ég að leiguíbúðir séu það sem hæstv. félmrh. ætti að leggja áherslu á og hún skal hafa allan minn stuðning til þess ef við getum náð saman um byggingu og kaup á leiguíbúðum til að leysa þennan gífurlega vanda einstaklinga og fjölskyldna í húsnæðisleit. Og ég vil ganga svo mikið lengra að þær íbúðir, sem verða að sjálfsögðu að vera sambærilegar við hvaða híbýli sem er í landinu, skuli leigjast af opinberum aðilum á ca. 25% af þeim launum sem viðkomandi aðili hefur. Okkur ber skylda til í þessu harðbýla og kalda landi að sjá til þess að þegnarnir hafi þak yfir höfuðið hvort sem þeir eiga sjóði til þess að byggja eða kaupa eða þurfa að leigja. Þegar þeir ekki geta keypt eða byggt eiga þeir ekki að þurfa að eyða öllum sínum tekjum í leiguna. Því vildi ég segja: Hæstv. félmrh., hvenær sem er mun ég taka í þá útréttu hendi og sjá til þess að félagar mínir í Borgarafl. geri það líka ef hæstv. félmrh. vill leiða okkur inn í það tímabil sem leysir húsnæðisvanda þeirra sem ekki eru ríkir en þurfa að lifa og þurfa að búa á sama hátt og aðrir í landinu. Það eru þessar leiguíbúðir með leigukjörum sem takmarkast við hámarksleigu 1/4 af því sem fólkið aflar sér í tekjur.

Og ég vil segja að þessi tillaga, flutt af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Geir Gunnarssyni á þskj. 911, þarf enga brtt. frá mér til að tefja málið eða gera það að einhverjum hluta mitt mál eða Borgarafl. eða ráðherra eða nefnda. Ég held að það sé hægt að vinna innan ramma með reglugerðum frá ráðherra svo að það náist fram sem ég hef verið að tala um.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég undirstrika að hæstv. félmrh. fái stuðning ríkisstjórnarinnar, fjmrh. og Alþingis til að framkvæma það leiguíbúðaprógramm sem hún hefur talað um meira sem leiguíbúðir en kaupleiguíbúðir og að við höldum ekki áfram að blekkja ungt fólk og aldrað til að taka þessi dýru lán sem engin laun standa undir og þær íbúðir sem verða byggðar og verði leiguíbúðir, ég undirstrika það, verði leigðar út niðurgreiddar á þann hátt, sem ég sagði áðan, að allir sem þurfa á því að halda fái húsnæði svo ódýrt að tekjur standi vel undir leigunni, leigan fari aldrei fram úr 25% af lágmarkstekjum fólks.