27.04.1988
Neðri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6896 í B-deild Alþingistíðinda. (4840)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Vegna fsp. sem hv. 6. þm. Norðurl. e. beindi til mín skal staðfest að þau ummæli sem hv. 1. þm. Vesturl. kynnti þingdeildarmönnum og las upp úr texta samkomulags milli formanna stjórnarflokkanna voru rétt eftir höfð. Samkomulag formanna stjórnmálaflokkanna átti sér stað í stjórnarmyndunarviðræðum og er forsenda fyrir þeim ákvæðum stjórnarsáttmálans, starfsáætlunar ríkisstjórnarinnar sem er efnislega sama eðlis um stuðning við þetta mál.

Ekki þarf ég að taka það fram úr þessum ræðustól að samkomulag formanna flokkanna hefur ekki peningaígildi fyrr en það hefur fengið staðfestingu með réttum hætti á Alþingi Íslendinga þannig að það er verkefni næstu lánsfjárlaga að standa við það í verki.