28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6900 í B-deild Alþingistíðinda. (4848)

406. mál, kaupskipaeign Íslendinga

Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svar hans, en ég lýsi samt enn og aftur áhyggjum mínum vegna þeirra ráðstafana sem gripið hefur verið til með því að leigja erlend skip. Ég verð að fagna því að íslensk stjórnvöld skuli þó hafa beint tilmælum til skipafélaga og að til standi að erlendum leiguskipum fækki. Ég bendi á að við erum mjög háð siglingum og það hlýtur því að vera nauðsynlegt þjóð sem okkur að geta verið algjörlega óháð öðrum þjóðum.

Í ályktun miðstjórnar ASÍ, sem ég vitnaði til áðan, kemur reyndar líka fram að á sl. árum hefur íslenskum farmönnum fækkað um 300. En burt séð frá því að íslenskir farmenn eru að missa vinnu sína kemur annað til, svo sem stóraukin gjaldeyriseyðsla vegna leigu þessara erlendu skipa. Því tel ég nauðsynlegt að það verði mótuð stefna í þessum málum með atvinnuöryggi íslenskra farmanna að leiðarljósi.

Í Helgarpóstinum um síðustu helgi birtist viðtal við hæstv. sjútvrh. undir breiðletraðri fyrirsögn þar sem segir, með leyfi forseta: „Fjöldaatvinnuleysi fram undan.“ Sú stefna að færa vöruflutninga í hendur útlendinga er örugglega ekki leið til að bæta úr því og vona ég því að stjórnvöld geri eitthvað í því að stuðla að eflingu íslensks kaupskipaflota.