28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6903 í B-deild Alþingistíðinda. (4853)

410. mál, mengun í álverinu í Straumsvík

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Það kom að vísu ekki mikið fram um mat á þessari mengun því að vísað er til þess að skýrsla sé væntanleg innan skamms um þetta efni og upplýsingar um ástand á vinnustað sé að finna hjá Vinnueftirliti ríkisins sem heyri undir félmrn.

Hér kemur það fram eins og oft áður að umhverfismálin og eftirlit með þeim eru á dreif í stjórnkerfinu og það virðist ekki ætla að rofa til í þeim efnum hjá hæstv. ríkisstjórn, a.m.k. er ekki komið fram það frv. sem hæstv. forsrh. boðaði að kæmi fyrir áramót inn í þingið um nýskipan þeirra mála. Þetta er alveg hörmulegt þegar slíkar aðstæður bitna á fólki, eins og hér er um að ræða í álverinu í Straumsvík. Það er fullyrt af trúnaðarmönnum í álverinu að mengunin sé við eða yfir þeim mörkum gagnvart einstökum mönnum og starfshópum í álverinu sem talin eru viðunandi í nágrannalöndum okkar eins og í Noregi.

Það kom fram í öðru samhengi, herra forseti, þegar hæstv. iðnrh. svaraði fsp. minni um efnahagsleg áhrif vegna notkunar þessara rafskauta, að þar er hugsanlega verið að hlunnfara íslensk stjórnvöld varðandi skattgreiðslur og það er alvörumál út af fyrir sig. Það er gersamlega óforsvaranlegt að eigandi álversins, Alusuisse, skuli selja Ísal núna missirum saman gölluð rafskaut sem valda slíkri mengun og draga auk þess hugsanlega úr greiðslum og tekjum Íslendinga af þessu fyrirtæki, þ.e. íslenska ríkisins. Þetta er með öllu óþolandi.

Komið hefur fram í svokölluðum Ísal-tíðindum að forstjóri fyrirtækisins hefur verið að ásaka starfsmenn fyrir það að kvarta um þetta og krefjast úrbóta. Það er ekki sá skilningur sem þyrfti að ríkja á þessum málum í slíku fyrirtæki.

Vegna ummæla síðasta hv. ræðumanns vil ég benda á að þegar samið var um álverið í Straumsvík voru mengunarmálin til mikillar umræðu hér á Alþingi. Alfreð Gíslason, þáv. þingmaður og læknir, vakti t.d. alveg sérstaka athygli á þessum þætti, en það var ekkert hlustað á aðvörunarorð Alþb. á þeim tíma í þessum efnum.

Það er sannarlega kominn tími til þess, virðulegur forseti, að á þessum málum sé tekið til að bæta hag starfsmanna og það sé tekið samræmdum tökum af stjórnvöldum eins og ég heyrði á hæstv. heilbrmrh. að hann hefði hug á að gert yrði.