28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6907 í B-deild Alþingistíðinda. (4859)

481. mál, mengunarútbúnaður bifreiða

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Á 110. löggjafarþingi hefur verið fluttur fjöldinn allur af fsp. og till. um umhverfismál og hefur þar verið komið víða við, allt frá ósonlaginu niður í blýlaust bensín.

fsp. sem ég legg fram og mæli fyrir er í ætt við hið síðargreinda og er beint til viðskrh. og dómsmrh. og fjallar um mengunarútbúnað bifreiða.

Í flestum nágrannalöndum okkar hefur verið og er í undirbúningi að taka upp reglur er krefjast þess að nýjar bifreiðar séu búnar mengunarútbúnaði. Hefur tilkoma þessarar kröfu leitt til þess að mengun í stórborgum, sérstaklega í Bandaríkjunum, er talin fara minnkandi.

Við Íslendingar höfum ekki enn gert þá kröfu til bifreiðaumboðanna að bifreiðar verði að vera búnar þessum hreinsibúnaði og erum við því á eftir nágrannaþjóðunum á þessu sviði. Þannig er ástatt að bifreiðar eru í dag almennt framleiddar með þessum mengunarútbúnaði, en þegar þær eru fluttar til Íslands er þessi búnaður tekinn úr og verð lækkað eitthvað óverulega.

Að gerð verði krafa um svona mengunarútbúnað er engin spurning að verður staðreynd hér á landi. Hins vegar er aðeins spurning hvenær stjórnvöld telja ástæðu að setja slík fyrirmæli í lög.

Fsp. er tvíþætt og er þannig, með leyfi forseta:

„1. Hefur verið athugað hvort skylda megi innflytjendur bifreiða til að flytja aðeins inn til landsins þær bifreiðar sem eru búnar mengunarútbúnaði? Ef svo er, hvað liður þeirri athugun?

2. Má búast við löggjöf er takmarki mengun af völdum bifreiða?"