09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

71. mál, endurvinnsla úrgangsefna

Flm. (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um endurvinnslu og fullnýtingu úrgangsefna. Tillagan er flutt af öllum þingkonum Kvennalistans og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stuðla að endurvinnsluiðnaði sem nýti meiri hluta þess sem til fellur af endurvinnanlegum og fullnýtanlegum úrgangsefnum. Samhliða því verði leitað leiða til að styrkja endurvinnsluiðnað sem fyrir er í landinu.“

Öllum ætti að vera löngu ljóst að jörðin er ekki óþrjótandi nægtabúr og að neysluþensla undanfarinna ára hefur leitt til þess að sífellt er gengið á auðlindir jarðar. Löngu er orðið tímabært að móta langtímastefnu í nýtingu þeirra. Hingað til hafa skammtímasjónarmið ráðið ferðinni, allt skal gert á sem „hagkvæmastan“ hátt, en ekki hugsað til framtíðar.

Mikil verðmæti eru fólgin í því ógrynni úrgangs sem til fellur. Háum fjárhæðum er nú varið til eyðingar á sorpi og úrgangi með ýmsum aðferðum. Þessu er brennt, það er urðað eða því jafnvel sökkt í sæ án þess að hugsað sé um hvaða áhrif það hefur á lífkerfið. Eðlilegra og farsælla er að reyna að vinna samkvæmt lögmálum náttúrunnar, en þar ríkir jafnvægi sem viðhaldið er af eðlilegri hringrás efna. Úrgangur úr einni deild er nýttur sem hráefni fyrir aðra.

Til að stuðla að bættri nýtingu auðlinda verður að stefna að eins mikilli endurnotkun efna og hægt er, t.d. með því að nota plast- og glerílát aftur og aftur. Einnig þarf að fullnýta og endurvinna efni í miklu meira mæli en nú er gert.

Hér á landi hefur endurvinnsluiðnaður átt erfitt uppdráttar. Endurvinnslufyrirtæki hafa lent í margs konar erfiðleikum. Erfitt og kostnaðarsamt hefur t.d. verið fyrir Sindra-Stál að safna saman bílhræjum til brotajárnsvinnslu. Verðið sem þeir fengu fyrir brotajárnið var það lágt að í maí í vor ákváðu þeir að hætta að safna og taka við bílhræjum eftir að hafa pressað samanlagt 14 500 bíla frá árinu 1982 og sent til bræðslu erlendis. Bílhræjum frá höfuðborgarsvæðinu er því hent á haugana í Gufunesi, eða það sem verra er, þeir skildir eftir hingað og þangað með þeim óþrifnaði og mengun sem því fylgir.

Kostnaður sveitarfélaganna vegna söfnunar og urðunar bílhræja er umtalsverður, auk þess sem þau taka mikið pláss. Haugarnir verða því fljótt fullir og leita þarf að nýju landi fyrir sorphauga sem verður að teljast vafasöm landnýting. Eðlilegt er því að sveitarfélög greiði endurvinnslufyrirtækjum þá upphæð fyrir söfnun og eyðingu úrgangs eins og ónýtra bíla sem þau annars eyddu sjálf til þess.

Í mörgum löndum greiðir fólk ákveðið gjald við kaup á bifreiðum sem ætlað er til förgunar þegar bifreiðin er talin ónýt. Þegar fólk skilar bifreiðinni til eyðingar í brotajárnsvinnslu fær það gjaldið að hluta endurgreitt. Þessu er ætlað að tryggja að bílflök séu ekki skilin eftir á víðavangi.

Þótt bílhræ séu vaxandi vandamál einmitt nú og brýn nauðsyn á úrbótum er ekki úr vegi að kanna aðeins nánar þau verðmæti sem við fleygjum á haugana. Í könnun, sem Skúli Þór Ingimundarson viðskiptafræðingur gerði fyrir Íslenska járnblendifélagið árið 1984 á möguleikum á endurvinnslu úrgangstimburs, kom í ljós að áætlað magn timburs sem kom á Gufuneshaugana á ári var a.m.k. 16 000 tonn. Timbur berst í tiltölulega hreinum förmum á haugana og er því hentugt til endurvinnslu. Áætlaður urðunarkostnaður er u.þ.b. 600 kr. á hvert tonn. Ef þessum 16 000 tonnum af timbri væri forðað frá urðun mundu sparast tæplega 10 millj. kr. árlega bara í urðunarkostnað. Þetta eru oft upphæðir sem vilja gleymast þegar hagkvæmni endurvinnslu er metin.

Notkun áldósa fyrir öl, gos og aðra drykki hefur aukist mjög hér á landi undanfarin missiri. Árleg neysla er nú u.þ.b. 30 milljónir áldósa, en það eru nær 400 tonn af áli sem fara í þær dósir. Þarna er endurvinnsla nauðsynleg því auk hráefnabruðls fylgir áldósum mikill sóðaskapur.

Við fleygjum einnig miklu af pappír á haugana. Hátt á fjórða tug þúsunda tonna árlega bara á höfuðborgarsvæðinu. Þarna eru fólgin mikil verðmæti. Endurvinnsla á pappír hefur verið reynd hér á landi án þess að það hafi reynst hagkvæmt í þröngri merkingu þess orðs.

Í Garðabæ er nú rekið fyrirtæki sem framleiðir eggjabakka úr afgangspappír. Framleiðsla þessa fyrirtækis er um 50 tonn á ári og framleiðsluverðmæti um 5 millj. kr. Þetta fyrirtæki, sem nýtur engrar opinberrar aðstoðar, berst nú í bökkum og verður að hætta framleiðslu ef ekkert verður að gert. Við flytjum inn um 250 tonn af pappír í formi eggjabakka á meðan við getum hæglega framleitt þá innanlands úr afgangspappír. Þetta er aðeins lítið dæmi. Skógar eru undirstaða pappírsframleiðslu og þrátt fyrir tiltölulega stuttan endurnýjunartíma miðað við mörg önnur hráefni er stöðugt gengið á skóglendi jarðar. Við framleiðslu á einu tonni af pappír fara um 5 tonn af viði.

Hin síðari ár hafa æ fleiri gert sér grein fyrir þýðingu fullnýtingar og endurvinnslu. Það er því líklegt að margir verði fúsir til að flokka sorp frá heimilum sínum og koma t.d. pappír, málmum og gleri á ákveðna staði í gáma í hverfamiðstöðvum eða fyrir utan stórverslanir. Þannig mætti á ódýran hátt safna miklum hluta af heimilisúrgangi.

Víða erlendis tekur almenningur virkan þátt í slíkri söfnun og þeim fer sífellt fjölgandi sem vilja jafnvel greiða hærra verð fyrir pappírsvörur ef þær eru unnar úr notuðum pappír. Slík flokkun heimilissorps er mikilvæg ekki síður vegna þess að það vekur fólk til umhugsunar um þau verðmæti sem fólgin eru í því sem fleygt er.

Stærsti hluti sorpsins kemur hins vegar frá fyrirtækjum. U.þ.b. 2/3 sorpsins í Gufunesi er svokallað iðnaðarsorp sem er tiltölulega lítið blandað óhreinindum og því vel fallið til endurvinnslu. Það ætti því ekki að vera miklum vandkvæðum bundið að fyrirtækin skili úrgangsefnum á ákveðna staði þar sem endurvinnslufyrirtæki hirða þau í stað þess að keyra þau á haugana.

Það er fleira en pappír, brotajárn og timburúrgangur sem hægt er að nýta betur og endurvinna. Gler, gúmmí, vefnaðarvörur, plast, smurolía, slóg og fiskúrgangur eru dæmi um úrgangsefni sem hægt er að endurvinna og fullnýta á ýmsan hátt.

Ýmsum hættulegum efnum er fleygt sem síðan menga og eitra umhverfið. Efnin menga jarðveg og geta borist í grunnvatn og þar með neysluvatn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þessum efnum er nauðsynlegt að safna saman, endurvinna og endurnota til að minnka mengunarhættu.

Útreikningar og hagkvæmni endurvinnsluiðnaðar eru flóknir og hætta á að ekki séu allir þættir teknir inn í dæmið. M.a. verður að taka mið af því við hagkvæmnisútreikninga að samfélagið ver umtalsverðu fjármagni í sorphirðingu og sorpeyðingu og verðmætt land er tekið undir sorphauga. Erfitt er að meta hver kostnaður samfélagsins er af hirðingu sorps sem fleygt er á víðavangi. Einmitt þessar staðreyndir valda því að opinberir aðilar og sveitarfélög verða að eiga hlut að undirbúningi endurvinnsluiðnaðar. Einstaklingar eiga oft erfitt með að leggja mat á málið í heild og hagnaður í þröngri merkingu er ekki endilega í sjónmáli.

Til að endurvinnsluiðnaður eigi betri möguleika hér á landi í framtíðinni er eðlilegt að hann njóti bestu kjara á flestum sviðum. Þar má nefna skattaívilnanir og orku á hagstæðu verði utan álagstíma. Einnig má skylda fyrirtæki, þar sem til fellur mikill úrgangur, til að skila honum til endurvinnslufyrirtækja án endurgjalds, leggja endurvinnslugjald á vöru sem æskilegt er að fullnýtist í stað þess að farga og skattleggja mengandi iðnað. Eðlilegt er að sveitarfélög styðji slíkan iðnað því hann dregur úr kostnaði þeirra við sorphirðu og eyðingu.

Verkefni eins og þetta væri eðlilegt að fela því ráðuneyti sem fer með umhverfismál. Meðan ekki er til sérstakt umhverfisráðuneyti er eðlilegt að gera ráð fyrir samvinnu hlutaðeigandi ráðuneyta um verkefnið. Þar þyrfti að koma til iðnrn., heilbrrn., og félmrn. Nauðsynlegt er einnig að hafa gott samstarf við sveitarstjórnir um þetta mál.

Þótt endurnotkun og endurvinnsla og fullnýting úrgangsefna sé venjulega tengd því vandamáli að losa sig við óæskileg efni og frekar litið á úrgang sem vandamál vil ég leggja áherslu á hið gagnstæða. Eins og ég sagði í upphafi eru mikil verðmæti fólgin í sorpi. Miklir möguleikar til iðnaðar eru því fólgnir í að breyta úrgangi í verðmæta vöru, um leið vinna gegn auðlindaþurrð og leysa vanda sorpeyðingar.

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til atvmn.