28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6912 í B-deild Alþingistíðinda. (4867)

411. mál, listskreyting Hallgrímskirkju

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Ég lýsi því yfir að ég er sérstaklega ánægð með þetta svar hæstv. ráðherra, einkum þá yfirlýsingu hans að hann hyggist skipa nýja nefnd til að ljúka þessu áætlunarverki. Vissulega er hér um að ræða verk sem tekur ár og jafnvel áratugi, en ég held að við getum ekki látið hjá líða að vinna að því að þessu mikla húsi verði lokið og það verði til prýði fremur en það standi eins og það er nú, svo til hálfbyggt má segja.

Ég vil taka fram um þá hlutaskýrslu sem fyrir liggur — sem ég veit raunar ekki hvort hv. þm. hafa fengið, ég varð alla vega að ganga eftir henni í ráðuneytinu — að ég tel mjög mikilvægt að þingmenn fái að sjá þessa skýrslu vegna þess að til var kallaður þýskur sérfræðingur sem hefur sagt álit sitt á þessu mikla húsi og hvað megi gera til að gera það þannig úr garði að það verði til yndis og ánægju fólkinu í þessu landi. Það fólk sem starfaði í nefndinni sem lokið hefur störfum var flest áhugasamt um að vinna þetta verk vel, en eins og ég gat um áðan var tíminn nánast enginn.

Ég vil því einungis fagna því að hæstv. ráðherra hefur í hyggju að skipa nýja nefnd og hefur lofað að sjá svo til að þetta verk dagi ekki uppi. Menn hafa verið að horfa á sjónvarpsþætti nýlega um ævi og starf Guðjóns Samúelssonar, hins mikla byggingameistara, og ég tel, eins og segir í grg. sem tillögunni fylgdi, að hann eigi það fyllilega skilið af hálfu þjóðarinnar að séð verði svo til að þetta mikla verk hans verði að lokum fullfrágengið og til sóma fyrir land og lýð, að ég ekki tali um sálmaskáldið sem kirkjan er byggð í minningu um. Ég tel að þessir tveir menn verðskuldi að frá þessu húsi verði myndarlega og fallega gengið og ég trúi því ekki augnablik að neinn hv. þm. sjái ofsjónum yfir því fé sem til þess færi. Þegar fram kom á aðalfundi Seðlabankans að 321 millj. kostaði að fínpússa Seðlabankahúsið að lokum þegar það var löngu fullbyggt, þá hlýtur að verða til fé til að ljúka listskreytingu á Hallgrímskirkju.

En ég þakka hæstv. ráðherra fyrir drengileg og góð svör og ég vænti þess að hann beri gæfu til að standa við gefin loforð.