28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6913 í B-deild Alþingistíðinda. (4868)

425. mál, samvinnufélög

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég flyt fsp. á þskj. 755 til viðskrh. svohljóðandi:

„Hvað líður endurskoðun á lögum um samvinnufélög?"

Það er ekki vonum seinna að þessi fsp. er fram komin. Við höfum heyrt um það í fréttum og mörg okkar kynnst því mjög áþreifanlega í persónulegum samtölum fólks að samvinnuhreyfingin hefur átt undir högg að sækja á síðustu árum og enginn vafi leikur á því að sú lagaumgjörð sem fjallar um starfsemi hennar er að mörgu leyti úrelt orðin og ekki í takt við tímann. Þetta hefur reyndar fengist staðfest, herra forseti, með margvíslegum yfirlýsingum forustumanna Sambands ísl. samvinnufélaga, stjórnarmanna o.fl. Þeir telja að brýna nauðsyn beri nú til að endurskoða löggjöf um samvinnufélög sem er frá árinu 1937, orðin hálfrar aldar gömul og tekur með engum hætti tillit til þeirra breyttu verslunar- og starfshátta sem nú eru borið saman við þann tíma eins og menn geta fljótlega sannfært sjálfa sig um ef þeir mundu gera annað tveggja að kynna sér samvinnusöguna eða lesa sig til um það hvaða viðhorf hefur verið til þessarar hreyfingar í þingsölum á mismunandi tímum á því skeiði sem síðan er runnið.

Ég dreg ekki úr þeirri miklu þýðingu sem kaupfélögin hafa haft fyrir byggðarlögin. Á sumum stöðum er kaupfélagið aðalburðarásinn í atvinnulífinu. Einmitt af þeim sökum er nauðsynlegt að koma í veg fyrir þær miklu málaþrætur og þá miklu tortryggni sem nú er uppi varðandi samvinnufélögin, samband þeirra innbyrðis, hver sé t.d. hlutdeild kaupfélaganna í Sambandi ísl. samvinnufélaga og um leið hverjar séu skyldur dótturfélagsins við þá sem skópu Sambandið, kaupfélagin. Getum við vænst þess t.d. að óvissa sé enn um það að ýmsir þeir bændur sem hafa lagt inn afurðir sínar í kaupfélögin fái þær ekki endurgreiddar þó svo að fyrir liggi að mikil efni og miklar eignir eru hjá þessum samtökum í heild sem eiga auðvitað að standa á bak við ábyrgðirnar, ekki síst vegna þess að við vitum að Samband ísl. samvinnufélaga hefur aðstöðu til og hefur í raun haft mikið um rekstur einstakra kaupfélaga að segja, ekki síst ef þau hafa átt í erfiðleikum.

Ég held því, herra forseti, að nauðsyn beri til að menn íhugi á nýjan leik þá lagaumgerð sem samvinnufélögin starfa eftir. Ég veit af yfirlýsingum manna í stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga að þeir eru mér sammála um nauðsyn þessa máls og ég vil því vænta þess að undinn verði bráður bugur að því að Alþingi geti endurskoðað lög um samvinnuhreyfingar.