28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6914 í B-deild Alþingistíðinda. (4869)

425. mál, samvinnufélög

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. hefur beint til mín svohljóðandi fsp.: „Hvað líður endurskoðun á lögum um samvinnufélög?"

Því er til að svara að með ályktun Alþingis 29. maí 1980 var ríkisstjórninni falið að hefja undirbúning að nýrri löggjöf um samvinnufélög og samvinnusambönd í samráði við samvinnuhreyfinguna eins og það þá var ákveðið. Í framhaldi af því skipaði þáv. viðskrh. haustið 1980 fimm manna nefnd til þess að vinna þetta verk. Formaður nefndarinnar var Gaukur Jörundsson prófessor. Nefndin skilaði drögum að frv. til l. um samvinnufélög á árinu 1983. Meðal nýmæla í frv. má nefna fernt:

1. Að samvinnufélögum skyldi veita heimild til að ákveða sjálf í sínum samþykktum að starfsmenn kjósi einn eða fleiri menn í stjórn.

2. Takmörkun á persónulegri ábyrgð félagsmanna.

3. Rýmkaða heimild þeirra til að fá innstæðu sína í stofnsjóði greidda.

4. Heimild til að verðtryggja stofnsjóðsinnstæður að einhverju marki. Í frumvarpsdrögunum var reyndar lagt til að verðtryggingin yrði miðuð við hækkun á raunverði eigna félagsins.

Það er skemmst frá því að segja að skömmu eftir að þetta frv. til l. um samvinnufélög var afhent urðu stjórnarskipti og í ársbyrjun 1984 skipaði þáv. viðskrh. nýja nefnd til að endurskoða lög um félög og stofnanir í atvinnurekstri eða með önnur fjárhagsleg markmið. Nefndin, sem Árni Vilhjálmsson prófessor var formaður fyrir, ræddi nokkuð á fundum sínum árið 1985 fyrirliggjandi frv. til l. um samvinnufélög sem samið hafði nefndin undir forsæti Gauks Jörundssonar. Formaður seinni nefndarinnar, Árni Vilhjálmsson, útbjó drög að frv. án grg. sem kalla mætti vinnuplagg nefndarinnar. Í þessum drögum var m.a. nokkuð fjallað um verðtryggingu á stofnsjóðum. Talsverður ágreiningur kom hins vegar upp í nefndinni út af þessu ákvæði og um svipað leyti hætti nefndin störfum.

M.a. með hliðsjón af því að enn er ekki ljóst hvernig lagafrv. Arna Vilhjálmssonar, sem ég til hægðarauka kenni við formanninn, um breytingu á lögum um hlutafélög reiðir af hérna í þinginu, en það frv. er nú til meðferðar í hv. Ed. og hefur reyndar verið hjá hv. fjh.- og viðskn. þeirrar deildar frá því 24. nóv. 1987, þá tel ég eðlilegt að ákveða ekki á þessu stigi hvernig framhald starfa að endurskoðun laganna um samvinnufélög skuli háttað. Ég hef þá fyrst og fremst í huga að lögin um samvinnufélög þurfa eftir því sem við getur átt að vera í samræmi við aðra félagalöggjöf. Ég legg þess vegna mikla áherslu á það, að lagafrv. um hlutafélagalögin fái skjóta en trausta meðferð þingsins, helst þannig að það verði að lögum á þessu þingi. Í beinu framhaldi af því þætti mér eðlilegt að fara að huga að rækilegri endurskoðun á lögunum um samvinnufélög.