09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

71. mál, endurvinnsla úrgangsefna

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Hér er hreyft máli sem oft hefur verið um rætt og eðlilegt að sé tekið fyrir á hinu háa Alþingi. Um þessi mál var sérstaklega rætt í stjórnarmyndunarviðræðum rétt áður en ríkisstjórnin tók við. Og reyndar hefur þetta mál verið rætt á ríkisstjórnarfundum jafnframt. Málið hefur verið til umræðu á hinum og þessum fundum í landinu að undanförnu. Ég tók það upp á Akureyri í sumar, á iðnaðarráðstefnu sem þar var haldin. Enn fremur hafa bæði Landvernd og Náttúruverndarráð rætt þetta mál sérstaklega og ályktað um þessi efni.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Athugað verði hvernig auka megi endurvinnslu á úrgangi.“ Ljóst er að ýmsir aðilar hafa reynt fyrir sér í þessu efni. Ég tel þó ástæðu til að nefna sérstaklega forráðamenn Sindra-Stáls, einkum og sér í lagi Ásgeir Einarsson, sem hefur, af hugsjón fyrst og fremst, safnað saman ýmsu brotajárni og flutt til útlanda því að á þessu starfi fyrirtækisins hefur verið stórfellt tap undanfarin ár. Það er athyglisvert að víða á Norðurlöndum eru bifreiðaeigendur látnir borga ákveðið gjald í upphafi sem þeir fá síðan ekki endurgreitt fyrr en þeir hafa skilað bifreiðum á ákveðna staði, svokallaða bílakirkjugarða. Þá fæst þetta gjald sem þeir greiða við kaup á bifreiðinni endurgreitt.

Þá held ég að ástæða sé til að nefna það líka sem kom fram í ræðu hv. 1. flm. og frsm. fyrir þáltill. að fyrirtækið Ísold hefur starfað að því að safna saman úrgangspappír. Fyrirtækið er starfrækt í Garðinum en ekki Garðabæ eins og kom fram. (KE: Það er annað.) Nú, er það annað? Ég biðst afsökunar á því. Þá er það mál sem ég þekki ekki, þetta sem minnst var á, en fyrirtækið í Garðinum þekki ég hins vegar og veit um þá erfiðleika sem þar hafa komið upp vegna þess að pappír er ekki flokkaður hér þegar hann fellur til sem úrgangspappír. En pappírsúrgangur er í mismunandi verði eftir því hversu hreinn hann er. Það má kannski geta þess að til eru dagblöð sem eru eingöngu unnin úr, og mörg hver reyndar, eingöngu unnin úr slíkum endurvinnslupappír. Það þekktasta er líklega Financial Times, en bleiki liturinn á því er einmitt tilkominn vegna þess að það er verið að leggja áherslu á að um endurvinnslu sé að ræða á þeim pappír, og þannig vill þetta merka blað leggja sitt lóð á vogarskálarnar.

Varðandi þetta mál er full ástæða til að taka undir ýmislegt sem kemur fram í grg. með þáltill. Ýmsar þjóðir hafa farið mismunandi leiðir. Nefna má að í Bandaríkjunum er hægt að fá endurgreiddar nokkrar upphæðir fyrir að skila inn áldósum og mun það talin aðalástæðan fyrir því að lítið er um slíkan úrgang í Bandaríkjunum. Ýmsir leggja sig eftir því að hirða slíkan úrgang og koma honum til skila, enda er þar hægur vandi að vinna úr slíkum úrgangi.

Það sem hins vegar rak mig í ræðustólinn er að segja frá því að í samræmi við stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar hef ég í samvinnu við heilbrrh. ákveðið að skipa nefnd manna til að kanna hvernig auka megi endurvinnslu á úrgangi. Ætlunin er að nefndin semji grg. um það hvernig unnt verði að safna slíkum úrgangi og fá hann endurunninn eða honum ráðstafað þannig að komist verði hjá umhverfisspjöllum svo sem kostur er. Þess er vænst að nefndin kanni einnig fjárhagshlið þessa máls og hvort nauðsyn verður á sérstakri lagasetningu í því sambandi. Ég vil geta þess að það er gert ráð fyrir að sveitarstjórnarmaður taki þátt í störfum nefndarinnar.

Þetta vildi ég, hæstv. forseti, að kæmist til skila við þessa 1. umr. málsins.